Meira um Hejredalkollegíið

Það fyrsta sem vakti athygli mína er að kollegíið er víggirt. Römm læst hlið á alla útganga og gaddavír eftir öllum girðingum. Til að komast í íbúðina þarf því þrjá lykla. Í síðustu færslu minntist ég líka á að nágrannarnir þora ekki að fara út á kvöldin.

Að vísu eru flestar fréttir sem berast til Íslands frá Árósum úr hverfinu mínu. Bílsprenging fyrir fimm eða sex vikum og bankarán í fyrra og sjálfsagt fleira til. En ég skil ekki að krakkarnir á kollegíinu óttist húðlitinn á öðrum nágrönnum sínum. Þarna er fólk margvíslega tónað (tanað?) en ég hef ekki nokkra ástæðu til að halda að þeim sé ekki drullusama um einhverja háskólanema, hvort sem þeir hanga í virkinu sínu eða hætti sér á kebabbúlluna.

Allt er þetta jafnmikið inni og úti. Það þarf ekki meira hugrekki til að fara til arabíska rakarans á horninu en það þarf kænsku til að brjótast inn í rottuholurnar sem hýsa stúdenta. Það eru alvarlegri hlutir til að óttast, einsog að verða fyrir strætó. Eða að verða milliliður í skotárás mótórhjólafábjána á basarinn. Það ætti þó ekki að hindra neinn í að rölta út á kvöldin enda eiga voðaverkin sér engu síður stað um hábjartan dag. Það er svipað og að óttast að fá eldingu í hausinn; ef það gerist þá gerist það svo skyndilega að við því er ekkert að gera. Á hinn bóginn er Danmörk hálfgert Boltaland við hliðina á flestum öðrum löndum svo fyrir mér er allur ótti innistæðulaus.

Í öðrum fréttum sá ég Orlando Bloom í Kaupmannahöfn í gær, eða það gæti ég svarið. Að minnsta kosti myndi ég ekki halda að neinn myndi gera sér far um að líkjast honum svona mikið. Svo í dag sá ég einn frægan danskan leikara sem ég man ekki hver er í svipinn, svo ekki var það eftirminnilegt. Og núna rétt áðan fannst mér ég sjá Jesper Christensen. Sjálfsagt er ég að ímynda mér þetta allt saman. En það er þó tilbreyting frá Hilmi Snæ á Næsta bar eða einhverjum has been þingmönnum á vappi um miðbæinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *