Staðfesting þjóðsögunnar

Um daginn bað kunningi minn um aðstoð við að afla heimilda um vélstjórann frá Aberdeen, annarra en sögunnar sjálfrar. Frumheimildin er frásögn sýslumanns sem upplifði sjálfur þá atburði sem hann síðar lýsti fyrir Þórbergi Þórðarsyni, sem síðan gaf söguna út í þjóðsagnasafninu Gráskinnu ásamt Sigurði Nordal. Ég var nú ekki alveg á þeim buxunum að leggjast yfir annála eða aðrar samtímaheimildir til að staðfesta þjóðsögu sem af augljósum ástæðum getur ekki verið sönn nema að litlu leyti, að minnsta kosti hefur draugagangurinn verið stórlega ýktur, en ég byrjaði samt að leita.

Í sögunni segir að Axel Tulinius, sýslumaður, eigi til mynd af líki vélstjórans. Aðeins andartaki eftir að ég hafði slegið vélstjóranum inn í herra Google fann ég myndina, sem prýðir þessa bloggfærslu. Fram að því fannst mér sem engin sérstök ástæða væri til að leggja trúnað á að nokkurn vélstjóra hefði yfirhöfuð rekið á land í Seyðisfirði, en ljósmyndin staðfestir það. Með slíka heimild í höndunum mætti segja að það sé að minnsta kosti meira sannleikskorn í sögunni um vélstjórann frá Aberdeen en til dæmis þeirri sem segir að skrímsli hafi drepið sauði fyrir bændum á Katanesi, frekar en að smalarnir hafi þar fundið gott, ef ekki ögn langsótt, skálkaskjól fyrir hirðuleysi sínu.

Önnur slík staðfesting á sögu barst mér með DV í dag, þó með eilítið öðrum hætti. Ég sagði frá því hér fyrr í sumar þegar Árósafarinn Valur Gunnarsson hitti fyrir forna sígaunakonu í Risskov sem bað hann ásjár. Konan reyndist síðar hafa verið geðsjúklingur og mér þótti sagan nógu lygileg til að fólk gæti trúað henni. Nú segir DV frá sex Grænlendingum sem flúðu réttargeðdeildina í Risskov, þar af ein kona. Það gæti verið „sígaunakonan“ hans Vals.

Hin spurningin sem vaknar, að undanskilinni þeirri sem lýtur að aðbúnaði geðveikra á þessu sjúkrahúsi, er sú hvort að ofbeldismennirnir sem hún óttaðist svo mikið hafi mögulega verið hinir sömu og brutust út með henni og reyndu svo að nauðga tveim konum. Að minnsta kosti er tengingin ekkert sérlega ótrúleg. En það sem gerir þetta sérlega áhugavert frá mínum bæjardyrum séð er ekki aðeins sú vídd sem fréttin bætir við upprunalegu söguna, heldur hversu ólíklegt það var að blaðamaður hjá DV læsi upphaflegu fréttina og þætti hún hæf til birtingar á vefnum, mér til ómældrar ánægju.

2 thoughts on “Staðfesting þjóðsögunnar”

  1. Er ekki sagan á þá leið að fiskimenn í firðinum hafi fengið vélstjórann í netin? Með réttu hefði hann átt að hljóta vota gröf um aldir alda þar sem hann hafi líkast til verið tjóðraður við þungan hlut.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *