Aðlögun í skugga óreiðu

Eyrarsundskollegíið á Amager er fyrir löngu alræmt meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn. Þegar ég kom þangað fyrst í janúar á síðasta ári var þar íslendingapartí auk eins Færeyings sem fékk að fljóta með sökum skyldleika og kannski þess að Íslendingum þykja Færeyingar fyndnir. Það er stærsta kollegí í Kaupmannahöfn, ef ekki það stærsta í Danmörku. Í öllu falli keppir það í stærð við Skjoldhøjkollegíið í Árósum. Þangað og í minni kollegí á Amager er öllum útlendingum troðið og það sama er uppi á teningnum í Árósum. Allir eða velflestir erlendir námsmenn eru sendir í Gellerup og þar má finna Skjoldhøj. Í verri endanum, Brabrand, má svo finna talsvert minni stúdentagarða sem nefnast Hejredalskollegiet. Þar er þeim óheppnustu fundinn íverustaður og þar bý ég.

Gellerup var upphaflega, að því er mér er sagt, hugsað sem úthverfi fyrir hina efnameiri. Þegar hverfið byggðist upp fyrir rúmum 50 árum keyptu velstæðir Danir sér íbúðir þar fyrir talsverðar fjárhæðir, en borgaryfirvöld höfðu á hinn bóginn ekki séð fyrir að ef til vill væru sovétblokkirnar sem þau höfðu byggt of margar og verðið of hátt til að hægt væri að fylla hverfið. Af þeim sökum sátu yfirvöld uppi með það sem út af stóð svo á endanum varð úr að borgin leigði þær út svo lágu verði að því varð ekki jafnað saman við önnur hverfi Árósa. Þangað sóttu í síauknum mæli hinir verst stöddu, sem í tilfelli Danmerkur einsog annarra landa, voru og eru aðallega innflytjendur. Síðan þá hefur hverfið verið látið drabbast niður, hvort sem það er vegna þess að borginni fannst nægum peningum sólundað í þetta herfilega skipulagsslys eða af öðrum sökum, og hinir efnameiri íbúar fluttir annað.

Einsog önnur slík vanrækt hverfi glímir Gellerup við sín vandamál. Í Aarhus Stiftstidende mátti lesa um að Gellerup væri í raun orðið að sjálfstæðu samfélagi aðeins nú fyrir örfáum dögum. Fjölskyldur innflytjenda, sem að stærstum hluta eru frá þeim löndum sem kennd eru við miðaustur og Danir eru sérstaklega þekktir fyrir að líta niður á, eru nú sagðar hafa myndað eigið réttarkerfi. Fréttin var þó ekki sérlega afgerandi þar sem varðstjóri hverfisins gat ekki gert upp við sig hvort íbúar réttuðu yfir og dæmdu samlanda sinna til þjónustu eða refsingar, eða tilkynntu þá ekki yfirhöfuð til viðeigandi yfirvalda þegar þeir brytu af sér. Þá var talað við formann hverfisráðsins, stjórnmálamann hjá Radikale Venstre. Sá sagði að Gellerup væri vissulega plagað af göturánum og öðrum smáglæpum en aldrei hefði hann orðið var við neinn sérstakan götudómstól meðal fólksins; þvert á móti hefðu tilkynningar til lögreglunnar aukist á undanförnum árum. Hvort það væri merki um stóraukna glæpatíðni eða aðlögun og aukna samfélagslega ábyrgð íbúa tjáði hann sig ekkert um.

Þingkosningar verða haldnar hér í nóvember á næsta ári en Radikale Venstre hafa þegar hafið sína kosningabaráttu. Það er kannski viðeigandi að auglýsingar þeirra má helst sjá í strætóskýlum í Gellerup en sjást óvíða annarsstaðar. Þar má sjá nánast hatursfullar tilvitnanir í Piu Kjærsgaard, sjálfan forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen og aðra forvígismenn annarra flokka, þar sem látið er að því liggja að þau hati útlendinga, kennara og Evrópusamstarf. Þar fyrir neðan stendur til dæmis: Við stólum. Líka á útlendinga. Eða: Við trúum. Líka á kennarana. Sjálfsagt falla slík slagorð fyrir daufum eyrum hinna fjölþjóðlegu íbúa Gellerup sem hafa engar úrbætur fengið á sínum málum í áratugi, og ekki er útséð um hvort árangur Radikale í komandi þingkosningum muni hafa nokkuð í för með sér fyrir íbúa einstaks hverfis í Árósum. Á sama tíma stefna borgaryfirvöld að því nú að rífa fjöldann allan af þeim sovétblokkum sem þau áður seldu dýrum dómum. Það sem koma skal í staðinn er einhverslags verslunar- og þjónustukjarni, en hvað verður um íbúana er allt annað mál.

Í 40 ár hefur þarna byggst upp einstætt samfélag byggt að hálfu á siðum gömlu landanna og öðrum hluta á hinum danska lífsstíl sem Íslendingum er að góðu kunnur. Íbúarnir hafa með öðrum orðum samlagast Danmörku að því leyti sem það er hægt þegar þeim er öllum skóflað á sorphauga samfélagsins, og vandamálum þeirra sópað undir sama hornið á teppinu svo fjallið undir verður ekki umflúið. Og þegar fólk hrasar á ruslahrúgunni er fólkinu undir kennt um. Þarna hefur hálfgert skrímsli af fjölmenningarsamfélagi skapast þar sem utanaðkomandi eru jafn tortryggðir innan hverfis og íbúarnir sjálfir eru tortryggðir að utan. Það dettur engum hjá borginni í hug að hreinsa eftir sig, hvað þá að rétta íbúunum hjálparhönd. Lausnin er að rúlla upp teppinu og henda því út á haugana svo hægt verði að finna pláss fyrir stærra stofuborð.

Hvað verður um íbúana þegar heimili þeirra hafa verið rifin er svo aftur vandamál seinni tíma. Meðan Árósar eru enn sú borg í Danmörku sem stækkar hvað örast verður kannski hægt að grafa vandamálið enn fjær ráðhúsinu en nú er, allt svo Danir geti enn hæðst að múslimum og spurt sjálfa sig hvers vegna þeir hafi nú ekki húmor fyrir þessu.

Af þessum ástæðum og öðrum er allt tal um aðlögun einsog ljótur brandari. Vel má vera að Radikale Venstre hafi séð ljósið og vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta út sáttahönd, en mig undraði ekki þótt íbúar Gellerup vildu heldur vera látnir í friði.

Birtist fyrst á Smugunni 6. september.

3 thoughts on “Aðlögun í skugga óreiðu”

  1. Rakst á smáatriði sem mér fannst ég þó knúin til að leiðrétta þó ég þekki þig ekki neitt:) Skjoldhøj er í Brabrand en ekki í Gellerup (enda er Gellerup hluti af Brabrandhverfinu en ekki öfugt) þó svo að Skjoldhøj sé ekki langt frá Gellerup. Svoleiðis voru hlutirnir a.m.k. þegar ég bjó á Skjoldhøj 2003-2004.

  2. Ég fattaði einmitt eftir að greinin birtist að þetta var rangt hjá mér. Ég tók síðan langan túr um Brabrand til að kynna mér það betur og komst að því að það er ógnarstórt svæði, en Gellerup á hinn bóginn heldur afmarkað.
    Takk kærlega samt fyrir ábendinguna. Alltaf gaman að heyra frá fólki sem hefur búið í Árósum 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *