Hræsnað um frumskógarlögmálið

Í síðasta pistli fjallaði ég um misheppnaða uppbyggingu snobbhverfis þar sem í dag stendur völundarhús ógnarstórra blokka í órækt undir samheitinu Gellerup, umlukið óhirtum trjám sem vaxa hvert með sínu laginu svo líkja mætti við frumskóg. Raunar er það svo vinsæl líking að nálega í hvert sinn sem fjölmiðlar taka Gellerup til umfjöllunar, sem er ærið oft, er þessi líking dregin upp. Nú síðast hafa bæði Stiften og Politiken étið upp alveg ágæta fyrirsögn frá því dagblaði sem hvað síst skyldi kalla hlutlaust í garð innflytjenda – Jyllands Posten. Fyrirsögnin kom mér síður á óvart en myndin af næsta húsi við mitt sem fylgdi fréttinni. Þar býr vinur minn og telur sig búa í betri enda gettósins, ef hægt er að nota slíkt orðalag.

Fréttin er nákvæmlega sama frétt og ég vitnaði til í síðasta pistli, bara mánuði yngri í þetta sinn. Það þykir víst jafngóð fréttamennska hér einsog á Íslandi að endurtaka sömu möntruna aftur og aftur uns hún hefur rækilega fest sig í sessi. „Jungleloven råder i flere ghettoer“. Meðfylgjandi mynd af risavöxnu steinsteypuskrímsli með veggjakroti uppeftir allri hliðinni og gervihnattadiski á þriðju hverjum svölum, guð hjálpi okkur ef þetta er bænamotta sem hangir þarna yfir handriðið. Gellerup er útlandið í Árósum, landamærin liggja við verslunarmiðstöðina City Vest hverrar turnum verður sjálfsagt breytt í mínarettur von bráðar ef marka mætti blöðin, miðrýminu í mosku. Þetta er ekki mynd sem býður fólk velkomið. Fólkið sem býr hér er enda ekki velkomið sjálft. Eftir nokkur ár verður myndin af fátækrablokkinni eini minnisvarðinn um tilvist hennar utan minninga þeirra sem hér hafa búið, því eitthvað finnst borgaryfirvöldum skorta á fjölda verslanamiðstöðva í Gellerup

Nýjast í fréttum er hinsvegar sextíu ára staðreynd sem loksins hefur reyrt sitt ljóta höfuð nógu langt upp undir pilsfald Kristjánsborgar að þingmönnum finnist sem aðgerða sé þörf. Komið hefur á daginn að timburframleiðandinn Collstrop, sem sérhæfir sig í að bólusetja tré gegn ýmsum kvillum til að tryggja langlífi viðarins og þar með bjóða upp á bestu vöruna, hefur verið að losa menguð úrgangsefni út í danska náttúru síðan á sjötta áratugnum. Að vísu eru þetta engin ný tíðindi þannig lagað, og einhverra hluta vegna hefur fyrirtækið aldrei verið dregið til ábyrgðar fyrir þessa starfsemi. En nú finnast tunnur af arseniki, krómi og kopar á ný í mýrum á einkalóðum á Fjóni, í nágrenni Óðinsvéa, þá við Horsens og loks nálægt íbúabyggð við Brabrandvatn rétt suður af Gellerup, upplýsir Danmarks Radio.

Brabrandvatn er eitt stærsta útivistarsvæði Árósa. Þar er ekki einungis íbúabyggð norðanmegin vatnsins heldur er blómleg sumarbústaðabyggð sunnanmegin við jaðar Brabrandskógar. Bryggjur fyrir báta og dorgara má víða finna og vinsælt er að synda í vatninu á heitum sumardögum. Úr vatninu rennur sjálf áin sem borgin er kennd við og bugðast gegnum kjarna miðbæjarins uns hún rennur út í haf. Og einmitt þarna fannst Collstrop sniðugt að senda fólk í eiturheldum búningum, svosem sjá má á nokkrum vel völdum fréttamyndum, til að grafa tunnur af arseniki í skjóli nætur. Ekki náðist í umhverfisráðherra við vinnslu fréttarinnar en DR náði hinsvegar tali af fulltrúum Radikale Venstre og Socialdemokraterne sem sögðust ætla að gera sitt ítrasta til að setja pressu á stjórnvöld svo hægt verði að sækja Collstrop til saka.

Grunnvatnið, að vistkerfinu öllu ólöstuðu, er ein viðkvæmasta auðlind Danmerkur og ekki eru nema örfáar vikur síðan vart varð við E. coli smit í vatnsbóli norðurbæjarins. Ástæðan var rakin til mikilla rigninga sem flætt höfðu yfir grunnvatnslínuna og skolað saur frá nærliggjandi býlum þar ofan í. Fyrir mikla mildi varð fáum meint af, en nú er ýmsum nóg boðið og engum verður liðin sú iðja að fíflast frekar með grunnvatnið. Því er útlit fyrir að 60 árum eftir að Collstrop hóf sína löngu sögu umhverfishryðjuverka verði loksins gripið í taumana.

Staðsetningin sjálf er þó ekki síður áhugaverð í því ljósi sem ég dró upp í upphafi pistilsins. Það er einsog það eigi ekki af fólkinu hérna að ganga. Meðan garðarnir liggja í órækt í frumskógarbælinu miðju og húsin eru látin drabbast niður að því marki að loks verði hægt að rífa þau og hreinsa Gellerup af öllu dekkra en meðalsólstrandagæja jaðrar það við að bíta hausinn af skömminni þegar hvítir kapítalistar taka upp á því að grafa eiturefnin sín á jaðri byggðarinnar. Innflytjendur fá víst nóg af fyrirmælum frá hvítri yfirstétt hvernig þeir skuli haga sínu lífi og átrúnaði þótt ekki sé líka ráðist á þá í eigin bakgarði án dóms og laga. Auðvitað er þetta algerlega ólíðandi sama hver verður fyrir, en ekki síst í því samhengi nákvæmlegahver fórnarlömbin eru, eina ferðina enn, er það einlæg ósk mín að forstjórar Collstrop verði dregnir til ábyrgðar og fyrirtækið svipt starfsleyfi í Danmörku.

Kannski yrði það skref í átt þeirrar óskar lögreglunnar að íbúar Gellerup virði og treysti á yfirvöld. Skyldi þó engan undra þótt ýmsum hér þyki lítið til þeirra koma einsog komið er fram við fólkið, og meðan fjölmiðlar hræsna um frumskógarlögmálið.

Birtist fyrst á Smugunni 8. október.

Dvergurinn með þvagfærasýkinguna

Ég hef ekki bloggað síðan áður en kisan mín dó. Hef ekki verið í stuði til þess. Hún dó 10. október tæplega tvítug að aldri og var jarðsett í sömu viku í dýragrafreit í Kjós. Hennar er sárt saknað, enda öllum sem þekktu hana harmdauði þrátt fyrir langan aldur. Ég hef enn ekki kvatt hana, ég kann það ekki.

Á kvennaverkfallsdaginn sit ég í hálfgerðu líffæraverkfalli á Gyllta ljóninu, eftir svefnlitla nótt og talsverða vinnu við fyrirlestraskrif og rannsóknir daginn áður, með smá móral út af stelpunni á barnum. Ég sagði henni frá verkfallinu heima. Henni fannst það sniðugt og fór að mér sýndist. Þá var hún bara að fá sér að reykja.

Ástæða svefnleysisins er að ég sef laust og illa. Það vita þeir sem þekkja mig að er í hæsta máta óeðlilegt. Svo rammt kveður að þessu að ég pantaði tíma hjá þeim félögum Jørgen Holm og Ib Fallesen til að fá eitthvað við þessu. Maður sem heitir Ib hlýtur að eiga vonda foreldra.

Íbúðaleit er hafin á fullu, enda er ég víst ekki alveg strætómaðurinn sem mig minnti að ég væri, og á innan við viku hef ég misst af þrem íbúðum. Fjórða var svo víst aldrei laus og fimmtu vissi ég ekki af fyrr en í morgun. Tilboðið kom fyrir 10 dögum. Hefði hvort eð er ekki þegið það, enda í göngufæri frá núverandi vistarveru, sem er einmitt ekki í göngufæri frá neinu sem ég hef áhuga á – að undanskildum Basarnum.

Stundum er þó gaman í strætó, einsog um daginn þegar ég gat að líta merkilegan furðufugl, lágvaxinn dreng litlu yngri en ég. Hann gekk á milli fólks á stoppistöðinni og tilkynnti þeim nokkuð vandræðalegur að hann hefði ekki náð að pissa áður en hann fór að heiman. Hann hélt sig við sömu iðju í vagninum og hélt sjálfum bílstjóranum nokkrar mínútur á snakki um vandræði sín og hversu vont það væri að pissa.

Þegar bílstjórinn varð þreyttur á honum fór strákurinn aftast í vagninn og hringdi með hátalarann á í einhverja konu sem honum fannst gráupplagt að kvarta í. Þau töluðu saman í svona sjö mínútur. Strák var mikið niðri fyrir og lýsti grafískt sársaukanum sem þvaglát yllu honum og hversu erfitt það væri fyrir sig – bætti því við að hann hefði ekki getað pissað allan daginn sama hvað hann reyndi.

Það var ekki á konunni að heyra að hún áttaði sig á að hún væri að tala við heilan strætisvagn, hvað þá heldur að hún kærði sig sérlega um umræðuefnið. Þegar samtalinu lauk skrækti drengurinn með undarlegasta móti, og þegar ég steig út við Borgarbókasafnið leit ég við og sá hann sitja með ennið upp að höfðalagi sætisins fyrir framan, með einhvern þann ýktasta fýlusvip sem ég hef séð.

Þessi litla saga er tileinkuð Hauki Ingvarssyni, með von um að hún fullnægi þörfum hans í bili.