Fimm spor til afnáms mannréttinda – drög að úrsögn úr alþjóðasamfélaginu

Síðan ég hóf störf sem pistlahöfundur fyrir Smuguna í september síðastliðnum hef ég birt fjóra pistla, þar af þrjá um stöðu innflytjenda í Danmörku. Á þessum skamma tíma hefur ríkisstjórn íhaldsflokkanna Venstre og Konservative Folkeparti talað fyrir hverju frumvarpinu á fætur öðru sem ætlað er að skerða réttindi innflytjenda. Þau mál sem ég hef rakið í pistlum mínum eru aðeins brot af þeirri haftastefnu sem ríkisstjórnin rekur, og snýst um að halda útlendingum frá Danmörku annarsvegar, Dönum í Danmörku hinsvegar. Þar má nefna eftirfarandi mál:

1. Gettóáætlunin
Rífa á niður heilu og hálfu íbúðarhverfin í hinum ýmsu sveitarfélögum Danmerkur sem ríkisstjórnin hefur skilgreint sem gettó, þvert á mótmæli íbúa og hverfisráða (t.a.m. hverfisráð Vejlåparken í Ishøj, sem hefur ályktað gegn gettóstimpli stjórnvalda) og ráðleggingar fagráða og félagsráðgjafa, sem segja að það að færa vandamálið leysi það ekki. Hvergi í áætluninni er ráðgert að íbúar fái húsnæði annarsstaðar, og sveitarfélögin hafa lýst því yfir að alvarleg vandamál hljótist af nái áætlunin í gegn, þar sem húsnæðismarkaðurinn anni þegar ekki eftirspurn og því eigi íbúar hverfanna ekki í önnur hús að venda. Annar liður í áætluninni er að meina innflytjendum fæddum utan Evrópusambandsins að flytja í þessi hverfi, sem er hljómfegurri leið til að segja að til standi að gera þau hvítari. Áætlunin minnir að mörgu leyti á aðgerðir Suðurafrískra stjórnvalda gegn Hverfi 6 í Höfðaborg árið 1966, sem margir ættu að kannast við úr kvikmyndinni District 9.

2. Stigakerfið
Meina á fólki fæddu utan Evrópusambandsins um dvalarleyfi í Danmörku nema það uppfylli tiltekin skilyrði. Þá er það metið á grundvelli (æskilegrar) menntunar, tungumálakunnáttu og fleiri atriða sem afla því stiga. Makar fá ekki dvalarleyfi sjálfkrafa heldur. Þeir þurfa að gangast undir sömu skilyrði, og maki þeirra í Danmörku þarf hafa unnið samanlagt í tvö og hálft ár á undangengnum þrem árum og eiga 100 þúsund danskar krónur á bankareikningi sínum. Einsog ég lýsti í síðasta pistli er nánast ógjörningur að standast þessi skilyrði.

3. Akademískt vistarband
Námsmenn sem ljúka meistara- eða æðri gráðu í dönskum háskóla mega ekki starfa utan Danmerkur fyrr en að fimm árum liðnum frá útskrift. Kjósi þeir að gera svo skulu þeir endurgreiða þá námsstyrki sem þeir hafa þegið frá ríkinu. Sú upphæð sem hver og einn námsmaður kæmi til með að endurgreiða til ríkisins nemur í hæsta falli 10 ára meðalframfærslu. Það gefur auga leið að þetta er engum fært.

Í sakleysi mínu hélt ég að nú þætti ríkisstjórninni ef til vill nóg komið, enda er með þessum aðgerðum þegar búið að loka landinu fyrir „óæskilegum“ áhrifum og hindra að danskt menntafólk freisti gæfunnar utan Danmerkur, sjálfsagt samkvæmt hugarfarinu að sjaldan launi kálfur ofeldið. Í síðasta pistli minntist ég á þær tvíeggjuðu aðstæður sem hér gætu skapast þegar erlendir styrkhafar yrðu reknir úr landi að loknu námi, fyrir að uppfylla ekki skilyrði stigakerfisins, og samtímis rukkaðir aftur um námsstyrkinn samkvæmt reglugerðum sem ætlað er að halda menntafólki í Danmörku. Ríkisstjórnin virðist hafa áttað sig á þessu líka og hefur núna kynnt til sögunnar tvær aðgerðir til viðbótar:

4. Viðbót 1 – um velferð:
Innflytjendur í Danmörku geti ekki ætlast til að fá aðgang að heimilislækni, grunnskólakerfinu, örorku- eða atvinnuleysisbótum, sem og mögulega annarri grunnþjónustu, fyrr en þeir hafa greitt skatt í nokkur ár. Inger Støjbjerg, atvinnumálaráðherra, segir þetta vera viðbót við stigakerfið, sem hún segir snúast um að „allir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir.“ Frumvarpið nýtur stuðnings beggja ríkisstjórnarflokka auk Dansk Folkeparti og Liberal Alliance, svo það er næsta víst að það kemst óhindrað gegnum þingið.

Danska Starfsgreinasambandið, Dansk Industri, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þessum áformum, ekki vegna þess að þau séu ómanneskjuleg, heldur vegna þess að þau kunni að fæla útlendinga frá Danmörku á tímum sem þörf sé á (ódýru?) aðfluttu vinnuafli. DI segist þó samstíga ráðherra í að herða þurfi reglur. Kristnir demókratar segjast ekki munu styðja frumvarpið eða neitt sem skerðir réttindi til grunnþjónustu, enda stangist það á við stjórnarskrá. Það var þá gott að einhver mundi eftir því að það er stjórnarskrá í Danmörku.

5. Viðbót 2 – um starfsleyfi lækna:
Læknar fæddir utan Evrópusambandsins, jafnt þeir sem þegar starfa í Danmörku og þeir sem sækjast eftir því, þurfi að standast ákveðin skilyrði áður en þeir fái starfsleyfi. Meðal þeirra krafna sem gerðar verða til þeirra eftir áramót er að standast dönskupróf eins fljótt og mögulegt er. Þá þurfa þeir að standast skriflegt og munnlegt læknisfræðipróf og sitja námskeið um og standast próf úr danskri heilbrigðislöggjöf. Standist þeir þessar kröfur verður þeim boðið að starfa til reynslu í tólf mánuði á sjúkrahúsi eða heilsugæslu, þar sem lagt verður mat á getu þeirra og þekkingu. Sérfræðimenntaðir læknar þurfa að þeim tíma loknum að standast reynslutíma til sex mánaða að auki á stofu sem hentar þeirra sérfræðiþekkingu. Meðan á reynslutíma stendur skal yfirlæknir í tvö skipti fylgja lækni náið eftir við dagleg störf innan fyrstu þriggja mánaða reynslutímans, til að leggja faglegt mat á getu læknisins. Mat yfirlæknisins skal svo sent til Heilbrigðisráðuneytisins til frekari úttektar, yfirlegu og mögulegrar samþykktar, áður en læknirinn fær að taka lokaprófin. Bertel Haarder, heilbrigðisráðherra, lýsti yfir í viðtali við DR fyrir nokkru að reglurnar væru til þess settar „að Danir þyrftu ekki lengur að óttast útlenska lækna.“

Það sem helst vekur athygli við hinar nýju viðbætur við hið þegar lygilega áformasafn dönsku ríkisstjórnarinnar er stuðningurinn í þinginu. Stuðningur við lið fjögur um takmörkun á réttindum til grunnþjónustu nýtur stuðnings fjögurra flokka: Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, og Liberal Alliance. Einu mótbárur sem ég hef orðið var við koma úr óvæntri átt, frá Kristnum demókrötum. Liður fimm um starfsleyfi lækna nýtur á hinn bóginn yfirgnæfandi stuðnings í þinginu: frá Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, Socialdemokraterne, Radikale Venstre, og Sosialistisk Folkeparti. Um aðra flokka veit ég ekki, en gaman væri að fræðast um forsendur þeirra.

Hvað varðar lið 4 um velferð
Fyrst innflytjendur fá í framtíðinni ekki notið velferðarkerfisins nema þeir hafi greitt skatta í tiltekið langan tíma, má ætla að skiptinemar og aðrir erlendir nemendur í Danmörku muni í framtíðinni heldur ekki fá notið námsstyrkja frá ríkinu einsog hingað til hefur verið, og þarmeð hefur ríkisstjórnin sparað þeim þá kaldhæðni örlaganna að endurgreiða námsstyrkinn þegar þeim er vísað úr landi að námi loknu. Eitthvað virðist þó ríkisstjórninni heykjast á að setja fram samþætta aðgerðaáætlun þar sem samkvæmt Gettóplani Lars Løkke Rasmussen eru börn innflytjenda skikkuð til að sækja leikskóla með dönskum börnum svo þau læri dönsku, en samkvæmt viðbót samflokkskonu hans Inger Støjbjerg um grunnþjónustu er þeim beinlínis meinað að sækja leikskóla nema foreldrarnir hafi greitt skatt í nokkur ár. Nema þeim finnist bara svona fyndið að setja reglur sem stangast á svo innflytjendur endanlega gefist upp á að reyna að búa hérna.

Á meðan áhyggjur Dansk Industri af löggjöfinni hljóma einsog vangaveltur suðurríkjamanna við Þrælafrumvarpi Lincolns er gagnrýni Kristilegra demókrata þung og krefst allrar athygli, enda er mismunun eftir þjóðerni klárlega brot á dönsku stjórnarskránni og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem stjórnmálaskýrendur velta fyrir sér hvort stefna Danmerkur í innflytjendamálum yfirhöfuð standist reglugerðir Evrópusambandsins. Stuðningur við frumvarpið helgast þó fyrst og síðast af þeirri hægfara þróun sem hefur orðið í Danmörku frá opinberu heilbrigðiskerfi að einkareknu, og að flokkarnir fjórir sem styðja frumvarpið hafa allir einkasjúkratryggingakerfi á stefnuskránni. „Fólk á að greiða sjálft fyrir þá þjónustu sem það fær,“ segir Simon Emil Ammitzbøll, formaður Liberal Alliance, í sömu andrá og hann gleymir hvað skattar eiginlega eru. Stuðningurinn helgast einnig af þjóðernissinnaðri pólitík Dansk Folkeparti, sem rekið hefur eigin stefnu gegnum ríkisstjórnina sem hækja hennar, og ber því óbeina ábyrgð á flestu því sem hér hefur verið reyfað.

Hvað varðar lið 5 um starfsleyfi lækna
Mörgum kann að þykja það sjálfsagt að setja erlendum læknum stíf skilyrði sem þessi, en miðað við stefnuna sem rekin er í Danmörku á öðrum vettvangi líta röksemdirnar út einsog skálkaskjól annarra og hættulegri sjónarmiða. Sá málflutningur heilbrigðisráðherra að Danir beinlínis óttist útlenska lækna er ógeðfelldur en kann, því miður, að vera réttur upp að einhverju marki. Þá er sú hugmynd að setja lækna aftur á skólabekk í allt að átján mánuði, svona til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki að plata, lítillækkandi og þekkist ekki innan fagstétta almennt – enda hafa prófgráður frá viðurkenndum háskólum og starfsreynsla við virt sjúkrahús hingað til þótt duga víðasthvar í heiminum.

Í viðtali við írakska lækninn Alaa El-Hussuna (varúð, hann heitir næstum bæði því Allah og Hussein, og kemur frá Írak!) í Berlingske Tidende frá 2007 kemur fram að danska heilbrigðiskerfið var þegar undirmannað þá, og gæti í raun ekki verið rekið ef ekki væri fyrir „þriðjaheimslækna“. Þá tínir blaðamaður til nokkrar staðreyndir um danska heilbrigðiskerfið: Um 19.000 læknar starfa í Danmörku. Á almenningssjúkrahúsum starfa u.þ.b. 1500 erlendir læknar, sem er um þriðjungur af öllum læknum sem starfa á dönskum sjúkrahúsum, hvort sem er í opinbera- eða einkageiranum. Þriðjungur erlendra lækna á sjúkrahúsunum eru sérfræðingar en hinir eru almennir læknar. 35% allra erlendra lækna koma frá Norðurlöndum eða Evrópusambandinu, en 65% koma á móti frá svonefndum þriðjaheimslöndum. Flestir erlendir læknar koma saman til Danmerkur sem hjón. Á sjúkrahúsunum eru um 3400 ómannaðar læknastöður, þar af 1200 sérfræðingsstöður.

Það virðist því vera ljóst að þetta er gagngert til að grafa undan heilbrigðiskerfinu í núverandi mynd.

Dönsk einangrunarstefna í hnotskurn
Hvaða þýðingu hefur þetta allt saman? Síðan ég flutti til Danmerkur í ágúst hefur ríkisstjórnin ákveðið að rífa niður innflytjendahverfin sem fyrri ríkisstjórnir bera sjálfar ábyrgð á að urðu til – þar með talið stóran hluta af hverfinu mínu, sem talið er með óæskilegri og hættulegri hverfum í Danmörku. Þeim sem missa húsnæði sitt með þessu móti er ekki tryggð búseta annarsstaðar. Þeir sem eru dekkri en meðalsólbekkjasmjörfress fá heldur ekki að flytja í þessi hverfi, enda á að hvítta þau. Atvinna, tungumálakunnátta, æskileg menntun og árslaun framhaldsskólakennara á bankabók eru forsendur dvalar- og atvinnuleyfis einstaklinga og maka þeirra – sem hefur bein áhrif á þegar fallvalta læknastéttina miðað við tölfræði. Aðfluttir öryrkjar missa félagsréttindi sín, börn missa réttindi sín til náms, stúdentar missa frelsi til atvinnu og ferða, háskólasamfélagið missir sinn stærsta styrk sem eru erlendir fræðimenn – stór hluti fólks missir grundvallarréttinn til heilbrigðis. Heilbrigðiskerfinu skal hvort eð er slátrað með því að fæla frá fólkið sem heldur því uppi með Atlasargripi, svona til að „Danir þurfi ekki að óttast“.

Og þetta kerfi alltsaman? Það er sett á fótinn til að „allir þeir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir,“ segir atvinnumálaráðherra. Það er nú aldeilis að maður finnur sig velkominn.

Góðir lesendur, það er búið að loka Danmörku. Hvítt fólk má þó ennþá versla í H&M svo lengi sem það lofar að vera ekki baggi á velferðarkerfinu.

Birtist fyrst á Smugunni þann 30. desember 2010.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *