Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #1

Green Mile – lausnin fylgir ekki forsendunum
Í upphafi myndar sést aðalpersónan, Paul Edgecomb, brotna niður yfir söngvasenu með Fred Astaire þar sem hann syngur Dancing Cheek to Cheek. Hann útskýrir þetta fyrir vinkonu sinni á elliheimilinu með þeim orðum að tiltekinn fortíðardraugur hafi látið á sér kræla, nokkuð sem hann hafði ekki hugsað um í áraraðir, og segir henni söguna af John Coffey.

Vandamálið
Í lok myndarinnar leiðir Edgecomb vinkonu sína inn í skóginn utan við elliheimilið til að sýna henni músina Mr. Jingles, sem hann hefur hugsað um allar götur síðan Coffey var tekinn af lífi. Músin er tæplega sjötug og hann sjálfur er 108 ára – fyrir náðargáfu Coffeys. Það að Edgecomb hafi hugsað um músina í 64 ár ætti að duga honum til þess að vera ætíð minnugur fortíðar sinnar sem böðull Coffeys á dauðadeild; músin, að honum sjálfum ógleymdum, er einfaldlega sterkari minningavaki en Fred Astaire, nema hann hafi svona rækilega gleymt því að sökum langlífisins hefur hann ekki aðeins misst konuna sína heldur börnin líka. Þannig skera lok myndarinnar á allar forsendur þess að sagan var sögð í upphafi.