Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #3

Sixth Sense – uppljóstrunin stendur ekki í röklegu sambandi við söguþráðinn

Aðalatriðið í draugafræðum aðalpersónunnar, Cole Sear, er að þeir vita ekki sjálfir að þeir eru látnir. Það eitt og sér er nógu einkennileg hugmynd, einsog ég mun útskýra. Í lok myndarinnar uppgötvar geðlæknirinn hans, Dr. Malcolm Crowe, að hann lifði ekki af skotárás sem hann varð fyrir í upphafi myndarinnar, og blóð tekur að vætla út um skotsárið (virðist vera, þar sem skyrtan var annars alltaf hrein). Hann sættir sig við örlög sín og kveður ekkju sína.

Vandamálið
Ekkert upp að þeim hápunkti myndarinnar meikar sens eftir uppljóstrunina. Gefið er í skyn að Crowe birtist umboðslaus og óumbeðinn heim til Coles og gerist geðlæknirinn hans. Enginn bað hann um að koma, móðir drengsins svarar ekki fyrirspurnum hans, og þó situr hann í stofunni með móður hans þegar Cole kemur heim. Hann gat vissulega hringt bjöllunni og þannig komist inn, meðan móðirin svipaðist um fyrir utan, en hvaðan kom umboðið? Geðlæknir sem hegðaði sér svona yrði líklega tilkynntur til lögreglu.

Í annarri senu hleypur Crowe inn á veitingahús þar sem konan hans situr við tvídekkað borð og biðst afsökunar á seinkomu sinni með orðunum: I’m sorry, I thought you meant the other Italian restaurant I asked you to marry me. Hún hefur þó væntanlega ekki nefnt veitingastaðinn við hann, nema hún leggi í vana sinn að tala í annarri persónu út í loftið.

Crowe virðist heldur ekki taka eftir því að frá því hann vaknar á sjúkrahúsinu er ekki nokkur einasti maður sem talar við hann. Ekki læknarnir, hjúkkurnar, konan hans, samstarfsfólk, ættingjar, vinir, „sjúklingarnir“ hans. Hvernig fór hann að í matvörubúðum, í efnalauginni, hjá rakaranum? Hvernig fékk hann upplýsingar um væntanlega sjúklinga? Stalkeraði hann þá bara? Hvað um aðra sjúklinga sem ekki gátu séð hann?

Ekkert af þessu gengur upp. Uppljóstrunin, sem er aðalatriði myndarinnar, stendur ekki í neinu röklegu samhengi við restina af myndinni og rústar þar með allri undangenginni uppbyggingu.