Á málþingi

Síðastliðinn föstudag brá ég mér á málþing Miðaldaleshringsins sem bar yfirskriftina „Alkoholkultur i middelalderen“. Þar fræddist ég meðal annars um það að á 15. öld þótti drykkja keyra svo úr hófi í danskri þinghelgi að brugðið var á það ráð að flytja bæði Héraðs- og Landsþing úr borg í sveit, svo þau gætu starfað í friði fyrir linnulausu fylleríi þinggesta.

Þetta ráð brást allhrapalega, þar sem vertshúsin fluttu hreinlega með og veittu áfengi frá morgni og fram á nótt. Svo rammt kvað að djammi þinggesta að í byrjun 16. aldar fundu menn sig loks knúna til að leiða í lög algjört bann við meðferð áfengis á og í næsta nágrenni þingstaðar, ásamt ákvæði sem mælti svo fyrir að mætti maður drukkinn fyrir dómara hlyti hann ekki áheyrn.

Af heimildum þess ágæta fræðimanns, sem og þeirra hinna sem héldu erindi þarna, má nokkuð ljóst heita að drykkjuskapur Dana hafi verið nokkuð alræmdur á miðöldum. Jafnvel Saxo Grammaticus skammaðist sín fyrir. Svo er aftur spurningin hvort þetta hafi nokkuð breyst að ráði. Í öðru erindi sem haldið var kom fram að alstaðar í Evrópu þótti ekki til siðs að drepa fólk í veislum, nema í Danmörku. Það fannst mér fyndið. En því miður hefur sá siður ekki lagst af, sbr. morðið í Valby í fyrradag.