Barátta mín við skrímsli

Nú þegar sumarið hálfna fer held ég að það sé ekki seinna vænna að fara að telja upp þær hremmingar sem ég hef lent í af höndum örsmárra ófreskja á því tæpa ári síðan ég flutti til Danmerkur.

Í september varð ég fyrir árás hundruða geitunga sem leituðu inn í birtuna. Þegar mér tókst að loka dyrunum út í garð þöktu þeir allan gluggann svo sást ekki út. Þeim sem komust inn slátraði ég einum á fætur öðrum. Er svo tíðindalaust um veturinn.

Síðastliðnar tvær vikur hef ég svo verið bitinn tvisvar af sömu könguló, kaldhæðnislega nokk í hásinina þar sem Akkilles fékk örina – og hef í fyrsta sinn á ævinni lagst í hernað gegn köngulóm almennt, enda trúði ég því áður að þær væru vinir mínir. Praktískir vinir til verndar gegn flugum.

Þá var ég bitinn einu sinni í andlitið af bitmýi og nú síðast var ég bitinn af skógarmítli og var öðru sinni húrrað á sjúkrahús. Í þetta skiptið var mér vísað frá svo ég fór til læknis. Honum krossbrá þegar hann sá bitfarið og sagðist ekki hætta á annað en að setja mig á kúr við lymesjúkdómi. Miðað við hraða útbreiðslu sýkingarinnar um fótinn hefur það verið það eina rétta í stöðunni. Skoði maður myndir af lymeútbrotum þá eru þau eins á mér.

Þegar ég fór frá lækninum keypti ég svonefnt safecard og fjarlægði höfuð ókindarinnar úr ristinni á mér þar sem það sat fast. Það var létt verk og löðurmannlegt, en öllu erfiðara var mér að skoða afraksturinn. Þetta eru ófrýnilegar skepnur. Ég veit ekki hvar eða hvenær ég var bitinn svo ég tók allt í gegn þegar ég kom heim. Fann þar afkvæmi þeirra veiðiköngulóa sem ég hef drepið í herberginu og sendi það til föðurhúsanna.

Annars var hér allt pöddufrjálst, svo ég hef verið bitinn á leiðinni heim frá Kaupmannahöfn á mánudaginn. Það er ósniðugt að hafa mítilshaus grafinn svo lengi ofan í ristinni, en hitt veit ég þó að skjót sýklalyfjameðferð við lymesjúkdómi ber undantekningalítið árangur. Ég hef því litlar áhyggjur og bryð mínar pancillintöflur samviskusamlega.

Það má kannski brosa að því að ég, sem varið hefur heilum vetri í rannsóknir á skrímslum, verði fyrir endurteknum árásum þeirra kvikinda sem ég óttast mest. Þær árásir hafa styrkt mig í ótta mínum, sem er kannski bara ágætt ef það er versta afleiðingin.