Konur, skrímsli og kvenskrímsli

Jöðrun er grundvallarhugtak í hinseginfræðum og femíniskum fræðum. Í bók sinni Bodies that Matter fjallar Judith Butler um jöðrun á þeim nótum (minnir mig, ég hef ekki bókina hjá mér) að hin jöðruðu markist af sjálfskilgreindu félagslegu normi, og tekur dæmi af ýmsum jöðruðum þjóðfélagshópum. Útfrá skilgreiningu Butlers má orða þetta sem svo að hvítir miðaldra karlar séu hið samfélagslega viðurkennda norm, og sem slíkir verða aðrir hópar – ekki síst konur – óeðlilegir í samanburði. Konur séu þannig jaðraðar innan feðraveldisins. Í þeim skilningi mætti segja að feminísk réttindabarátta grundvallist á að samþykkja þá jöðrun þar til hún hefur verið jöfnuð út inn að samfélagslega ásættanlegri miðju – konur samþykkja með öðrum orðum ekki að þær séu líka menn, ekki fyrren þær njóta réttinda til jafns við þá.

Þessi jöðrun felur einnig í sér einhverskonar ónáttúru. Í heterónormatífu samfélagi jaðrast hinsegin fólk gagnvart norminu og verður í augum miðjunnar að viðrinum. Útfrá sama sjónarmiði er hinsegin baráttan meðvitað „hinsegin“ þar til hinsegin fólk verður samþykkt til jafns á við aðra. Ein birtingarmynd þeirrar baráttu er Gaypride, karnivalískur fögnuður fjölbreytileika mannfólksins sem hefur upp réttinn til frjálsra ásta, manngildi óháð lífsgildum og það sem er „öðruvísi“ andspænis hinu viðurkennda – og hið viðurkennda mætti segja að sé gagnkynhneigður, miðaldra, hvítur karl í jakkafötum með háskólapróf upp á vasann. Þar með er jöðrunin staðfest til að benda á aðstöðumun milli ólíkra þjóðfélagshópa og hið hrópandi ójafnrétti sem barist er gegn. Miðjan verður ekki skilgreind án jaðarsins, og þetta er ein leið til að berjast fyrir því að jaðarinn verði færður nær miðjunni, og að á endanum verði hvorutveggja miðjunni og jaðarnum tortímt með allsherjar jafnrétti.

Útfrá svipuðum hugmyndum um óhjákvæmilega jöðrun útfrá skilgreindri miðju spretta hugtökin heimsmynd og siðmenning, einsog þau eru notuð í miðaldafræðum, nema þar er miðjunni skipt út fyrir sjálfið, og jaðrinum skipt út fyrir hugmyndina um „hinn“. Hér gengur semsé aftur hugmyndin um okkur andspænis hinum, hugmynd sem enn á sér talsmenn í nútímanum á meðal öfgahægrimanna, ekki síst nýnasista. Hér er því um að ræða tvennskonar jöðrun: Sjálfskipuð jöðrun fyrrnefndra baráttuhópa beinist frá jaðrinum inn að miðju, í viðleitni til að breyta úreldu samfélagi innan frá með því að benda á það sem skilur ólíka þjóðfélagshópa að. Sú jöðrun sem nú er nefnd til sögunnar beinist hinsvegar frá skilgreindu sjálfi út á jaðarinn, gegn hinum, í viðleitni til að viðhalda samfélagsgerðinni og sjálfsmyndinni, með því einmitt að benda á það sem skilur ólík þjóðarbrot að. „Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu með þeim“ hefur stundum heyrst sagt í stjórnmálaumræðu samtímans, á svipaðan hátt og nasistar líktu gyðingum við rottufaraldur berandi með sér pestina.

Slíkra hugmynda finnst áhugavert merki á miðöldum. Þjóðríki voru sannarlega ekki eins rótgróin þá einsog nú og hugmyndafræði þar að lútandi var að langstærstu leyti ómótuð. Í heimsmynd miðalda finnst engu að síður mjög sterk hugmynd um heild, skilgreinda miðju, sem kalla mætti „okkur“. Í miðju hins þekkta heims stóð Jerúsalem, hin heilaga borg almáttugs Guðs, og þaðan frá í radíus breiddust aðrar óæðri byggðir úteftir kringlu heimsins. Í háaustri lá Paradís, aldingarðurinn Eden. Enda þótt mannskepnan væri að eilífu útlæg þaðan þá átti hún sér sinn stað á heimskortinu. En á jaðri heimsins, sérstaklega í hánorðri og hásuðri, fundust ófreskar þjóðir sem ekki höfðu hlotið náð Guðs.

Meðal margra vera sem finna má á heimskortum frá miðöldum, sem með raun og sanni voru skilgreindur hluti kristinnar heimsmyndar af ekki ómerkilegri kanónum en Ísidór frá Sevilla og heilögum Ágústínusi, má nefna einfótunga, höfuðlausa menn með andlit á bringunni, sjálfan andkrist í búri í Síberíu og ýmis tröll. Um þessar skepnur er gríðarmargt að segja sem því miður rúmast ekki í svo stuttum pistli sem þessum. En í ljósi þeirra hugmynda um jöðrun sem ég hef vakið máls á hér langar mig að benda á eina áhugaverða hliðstæðu við hugmyndir Judithar Butler sem finnst í ferðasögum og bókmenntum frá miðöldum: nefnilega Amazónur.

Skrímsli voru ógn sem búist var við að venjulegur ferðalangur gæti mætt á leið sinni. Drekar voru þar á meðal, auk finngálkna og þeirra skepna sem ég hef þegar minnst á. Skrímsli voru svo hversdagsleg ógn á miðöldum að bera mætti hana saman við möguleikann á sprungnu dekki á hringveginum nútildags. Meðal þessara skrímsla voru Amazónurnar. Þær skera sig fyrst og fremst úr hópi annarra skrímsla fyrir þær sakir að þær voru ekki ófreskar útlits. Hið ófreska í fari Amazónanna voru þær hugmyndir sem um þær gengu, að þær tældu karlmenn til lags við sig og rækju þá svo brott, og dræpu öll sveinbörn sem þær ólu. Þannig hefðu þær í árhundruð byggt upp heilan þjóðflokk herskárra kvenna sem bjuggu í samfélagi mæðraveldis.

Öll skrímsli lágu sannarlega við jaðar þess þekkta, og hið óþekkta er ávallt nokkuð sem óttast er á hverjum tíma fyrir sig – skrímsli eru vansköpuð börn Guðs og því að öllu leyti óæðri. Amazónurnar eru kannski sjálfar ekki skrímsli, en samfélagsgerð þeirra er ófresk; hún stendur í berhöggi við viðtekin gildi hinna réttbornu þjóða Guðs. Þá gengu þær sögur að þær limlestu sjálfar sig til þess að berjast til heimsyfirráða og sneiddu í þeim tilgangi af sér annað brjóstið svo þær gætu betur skotið af boga. Þess vegna voru þær skrímsli – þetta þótti algjörlega ótækt, og ófreskt. Svipað og það þykir ótækt nú á dögum að konur njóti réttinda til jafns við menn, miðað við efndir í öllu falli. Þetta er burtséð frá því hvort Amazónur voru í raun og sann til, en fyrir því eru hæpnar sögulegar forsendur.

Hugmynd Judithar Butler um jöðrun virðist því ekki eingöngu eiga við rök að styðjast í nútímasamfélagi, heldur má færa rök fyrir því að jöðrun hafi alltaf átt sér stað í karlmiðuðu, heterónormatífu samfélagi. Konur eru ekki álitin skrímsli lengur fyrir að berjast gegn eigin jöðrun, en konur hafa enda þurft að þjást til að ná fram þeim markmiðum sínum að vera eitthvað annað og meira en stofustáss og eldavél. Konur eru hinsvegar enn jaðarhópur í nútímasamfélagi, auk annarra ófreskra aðilja á borð við hinsegin fólk. Það er því ekki af handahófi að ég gríp til líkingar við miðaldirnar, því hvar eiginlega liggur munurinn milli kvenna, skrímsla og kvenskrímsla?

Kannski þeirri spurningu skyldi beina til þess miðaldafólks sem enn hefur ítök í vestrænu samfélagi.

Birtist fyrst á Smugunni þann 3. júní 2011.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *