Af fræðum

Lífið færist áfram með slíkum hraða að erfitt er að halda í við það allt til að gera sér grein fyrir samhengi hlutanna. Andlegi helmingurinn er tvíklofinn persónuleiki sem ýmist er fræðimaður eða rithöfundur og getur aðeins verið annað hvort á hverjum einum tíma.

Í nóvember fór ég til Biskops Arnö sem fræðimaður en kom þaðan rithöfundur, fór fjórum dögum seinna á ráðstefnu eins leynifélagsins sem ég tilheyri í Tartu Ülikool (sem er nokkuð kúl nafn á háskóla) og breyttist þar aftur í fræðimann. Það entist þó skammt og við tók löng skrifstörn. En frá og með febrúar er ég fræðimaður aftur.

Það sem hefur gerst síðan er að ég skrifaði eitt stykki meistaraprófsritgerð sem bíður nú mats við Árósaháskóla. Ég stefni á að birta að minnsta kosti eina grein uppúr henni þegar í vor. Aðra grein hef ég eyrnamerkt greinasafni sem ég sjálfur kem til með að ritstýra ásamt öðrum. Það kemur að líkindum út að ári liðnu. Í dag lauk ég við fyrirlestur um Snorra goða sem ég flyt á málþingi stúdenta í Árósum núna á föstudaginn; ég er þegar með hálfkláraða grein um efnið sem ég hyggst birta í desember í fréttariti annars leynifélags sem ég tilheyri. Ég hef líka verið að skrifa fánýtan fróðleik um miðaldafræði á Smuguna (sjá hér, hér og hér). Ögn um konur og djöfla á miðöldum skrifaði ég svo á Knúz.is.

Þá er ég meðal umsækjenda til doktorsnáms í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands fyrir haustið. Ég er þegar kominn með leiðbeinanda og rannsóknarefnið er hið sama og ég hef fengist við síðasta eina og hálfa árið: yfirnáttúra í bókmenntum og heimsmynd miðalda. Ég get ekki annað sagt en ég hlakki til að „koma aftur heim“ í HÍ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *