Ferming

Amma mín á Akureyri sagði alltaf við mig áður en við fórum að hátta: „Nú skulum við hvíla lúin bein.“ Það brást ekki að mér fannst ég finna fyrir því hversu lúið hvert bein í líkama mínum var í hvert sinn sem hún sagði þetta og syfjan seig fljótt á. Stundum virkar þetta ennþá ef ég á erfitt um svefn, að hugsa til ömmu minnar, sem nú er 86 ára og þ.a.l. opinberlega drullugömul (hún fæddist og ólst upp í torfkofa). Sú gamla hefur búið ein síðan afi dó fyrir rúmum 20 árum og gerir enn, sem ég held að hljóti að vera einhverslags met.

Þess mun þó ekki þurfa við í kvöld að hugsa til hjónarúmsins hennar ömmu minnar þar sem beinin eru ekki bara lúin, heldur líður mér einsog eftir fjallgöngu og heilinn er gjörsamlega í steik. Það gerir undirbúningur síðustu daga (ekki það að ég hafi gert nema brot af því sem aðrir lögðu til) og loks það sem að var stefnt: ferming Védísar í dag! Ólíkt þeim fermingum sem ég hingað til hef sótt komst ég við í þessari og fylltist bjartsýni og hlýju. Fermingarbörnin sáu sjálf um tónlistar- og ljóðaflutning og hinir fullorðnu skipuleggjendur voru í eins miklu aukahlutverki og hægt var. Mikið var þetta fallegt.

Og fyrir þessu hefur fólk fordóma (það fólk veit hvað það má éta fyrir mér). Þetta er kallað „borgaraleg ferming“. Það er eintómt bull, þetta er ferming og flóknara er það ekki. Þegar ég var á fermingaraldri var „borgaraleg ferming“ representeruð einsog það væri bara fyrir fábjána á sósjalnum og því kom það aldrei til greina. Ég dauðsé eftir því núna. Heldur að fylgja hjartanu og vera talinn fábjáni en að fylgja einhverju sem maður í grundvallaratriðum er ósammála. Ferming er annað og miklu meira en oft er gefið í skyn og það á að una þeim skoðunar sinnar sem kjósa að láta ferma sig, sama með hvaða hætti það er gert.

Svo hljóðar hið mannlega orð.