Ruslakall á Akureyri

Þá erum við komin í vinnuferð norður. Margt sem rifjast upp fyrir mér einsog endranær þegar ég kem hingað. Til dæmis sameiginleg ást okkar Arnars æskuvinar míns á bænum. Okkur báðum fannst Akureyri langtum betri bær en Reykjavík, og dag einn höfðu hann og bekkjarbróðir hans Siggi ákveðið að gerast ruslakallar á Akureyri þegar þeir yrðu stórir, af því þeir fengju svo vel borgað. Þá yrðu þeir kóngar hér nyrðra og gætu alltaf farið í bestu sundlaugina á landinu. Þetta fannst mér gott plan.

Síðar átti Arnar raunar eftir að flytja norður en hann gerðist ekki ruslakall heldur vann hann í Slippnum og átti hæð í húsi við Ráðhústorgið. Ekki var gert ráð fyrir húsinu í næsta aðalskipulagi (komst hann að eftir að hann keypti), en hann seldi fyrir nokkrum árum og býr nú á Akranesi eftir því sem ég kemst næst.

Siggi, sem allur Laugalækjarskóli fylgdist með í hryllingi þegar hann var nærri kafnaður til dauða á eplaköku, fór eftir því er ég best veit í Verzló og síðan hef ég ekkert spurt af honum. Núna þegar báðir eru orðnir stórir hefur hvorugur unnið sem ruslakall á Akureyri. Svona breytast nú ambisjónirnar.

Sjálfur hefði ég á ýmsum tímum getað hugsað mér að flytja hingað en það er alveg úr myndinni í dag. Akureyri er kósý nokk fyrir skottúra en harðir vetur og fásinni er ekki beinlínis neitt sem ég sækist eftir. Það hefði verið öðruvísi fyrir tuttugu árum, en þegar eitt ógeðslegasta fyrirtæki Íslands er með skjöldinn sinn þar sem merki KEA sat áður er lítið sem heillar. Afi sjálfsagt hringsnýst í gröfinni. Flest annað hérna er farið sömu leið og það er einsog ekkert sé einsog það áður var, meira einsog líki af fortíð. En það er nú alltaf gott að koma hingað samt, inni á milli.