Rassaköst

Ég upplifði það áðan að missa alla tilfinningu í rassinum hægra megin (sbr. þetta). Til allrar hamingju hélt ég tilfinningu í fótunum, annars hefði ég steypst í gólfið fyrir framan 7781 manneskju á Háskólatorgi. Annars er ég mun betri en fyrir tveim vikum.

Svo slökkti einhver ljósið á karlaklósettinu í Gimli meðan ég sat inni á bás. Þeim bjálfa hugsaði ég þegjandi þörfina en veit þó að ég get kannski ekki eins hæglega áfellst viðkomandi og fíflið sem ákvað að ljósrofinn yrði frammi. Sá fyrrnefndi starfaði líka í skjóli nafnleyndar. Gimlungar geta því hvenær sem er átt von á því að huldumaðurinn komi og slökkvi ljósið meðan þeir ganga örna sinna, því hann er meðal vor. Hann er einn af oss. Er það nóg til að skjóta hraustustu mönnum skelk í bringu.

Hin skatólógísku málefni voru einnig í hávegum höfð í kennslustund í morgun, þar sem bar á góma fræðigreinarnar „Einarr Þambarskelfir’s last shot“ og „Gone with the wind“, sem báðar fjalla um sama atvik í Morkinskinnu. Þessa dagana er mér einnig mjög hugleikinn sá verknaður að stinga haus látinna upp í þjó, en það töldu menn á öldum áður að hindraði afturgöngur. Svo það voru ýmsar rasstengdar sögur í dag.

Svikaraheilkennið í lágmarki þessa dagana. Áreiðanlega á það þó eftir að snúa aftur með hefnd einsog Klaufi afturganga í Svarfdælasögu sem barði á mönnum með afskornu höfði sínu, sem áður hafði verið stungið í þjó honum, og má það hafa verið sérlega úlekkert að fá það í fötin og hárið.

Það er nóg af ófreskjum á borðinu mínu. Ég þarf svo að muna eftir að hafa Dofrafjallsvasann minn með á skrifstofuna og kaupa blóm í hann. Mesta synd að það passi ekki kaktus í hann.

Samabók ÍE

Íslendingabók Kára hefur ekki efni á því að vera kresin á heimildir þegar kemur að allra elstu ættartengslum á Íslandi. Á bláþræði framætta strandar allt að lokum á einni heimild og þess vegna eru fornaldarsögur Norðurlanda til dæmis á meðal heimilda Íslendingabókar. Þar af leiðandi leyfir ættfræðin mér sitthvað sem sagnfræðin gerir ekki: til dæmis að kalla mig afkomanda Ketils hængs og Hrafnistumanna.

Ketill hængur var sonur Hallbjarnar hálftrölls, sem var mjög í nöp við tröll en átti þó eintóm tröll að vinum, enda var hann sjálfur af tröllum kominn. Hugmynd Hermanns Pálssonar um samskipti Hrafnistumanna og trölla (hinir fyrrnefndu eru fæddir tröllabanar) er sú að hér sé um að ræða samskipti Norrænna manna við Sama; hugtakið tröll nái nefnilega yfir galdramenn, jötna og Finna – það er að segja Sama – allt í einu. Sem er að mörgu leyti skynsamleg ályktun. Hún leiðir engu að síður að því, með hjálp ættfræðinnar, að ég sé af samískum ættum (sem af jojki má heyra). Það er kannski ágætt dæmi um hversu hættulegt það getur verið að taka svona hluti of bókstaflega.

Brjóskrof

Ég hef ekki lent í neinu sérstöku áfalli. Þess vegna líður mér dálítið kjánalega þegar ég segi þetta. Engu að síður: það er fyrst þegar eitthvað kemur upp á að maður áttar sig á því hversu viðkvæmur maður er, hversu lítið þarf til. Ég er lítillega skaðaður í mjóbaki, ég veit ekki hvernig það gerðist, en þetta heitir brjóskrof eða brjósklos, það er ekki alveg á hreinu hversu langt það er gengið eða hvers vegna.

Ég hef takmarkaða hreyfigetu sökum þessa. Stundum gefur annar fóturinn sig undan mér, þar sem ég stend eða geng, stundum við ökkla en oftast við hné. Í dag við mjöðm í ein tvö skipti. Þetta ætlar að stefna í hægri hliðina. Það er sársaukafullt að liggja. Þá finn ég ekki fyrir fótunum. Verst er samt að sitja, það leiðir upp í herðar, axlir og handleggi, stundum höfuð. Í náminu stend ég á herðum risa en á skrifstofunni er stundum sem risarnir standi á herðum mér, svo mikið er líkamlega álagið sem þessu fylgir. Stundum er sem allt stoðkerfið sé við það að gefa sig. Öðrum stundum líður mér prýðilega, til dæmis núna.

Fyrir eitthvað um áratug datt ég í stiga og fékk höggið einmitt þarna. Kannski er það þess vegna. Hryggjarliðir geta verið heila eilífð að gliðna, og sjúkraþjálfarinn minn segist sjá bókstaflega það, gliðnun. En ég veit það ekki, ég hef oft fengið högg einhversstaðar á þetta svæði og man bara óljóst eftir þessu síðasta skipti. Kannski er ástæðan öll önnur. Öll boð frá heila til fóta fara í gegnum mænuna, og skaðinn þarf ekki að vera nema rétt þetta lítilfjörlegur til að þau boð raskist. Það þarf ekki nema þetta, en þá sér maður líka hversu berskjaldaður maður er.

Það vissi ég svosem alltaf. Maður leiðir bara ekki hugann sérlega mikið að því sem tilheyrir ekki reynsluheiminum, af því maður skilur það ekki í raun fyrr en maður reynir það á eigin skinni. Það lagar þetta enginn nema ég sjálfur og nú þegar ég hef upplifað þetta er ég staðráðinn í að sigrast á þessu fljótt og örugglega. Næstu skref eru að læra betur inn á líkamann og hvernig hann virkar; ég lærði til dæmis í fyrsta sinn fyrir nokkrum dögum hvernig ég get slakað á herðunum. Það tók ekki nema 28 ár að fatta. Svo þetta er allt á réttri leið. Ég er brattur í öllu falli og tek þessu bara sem hverju öðru verkefni.