Vampírur og skrímsli

Bloggið er hinn nýi tjáskiptamiðill er hinn gamli tjáskiptamiðill. Einu sinni þótti bloggið sjálfhverft. Það var löngu fyrir daga Facebook.

Ég held ég taki Ingólf mér til fyrirmyndar og bloggi hugleiðingar mínar um ýmis viðfangsefni mín. Eða – ég hef lengi ætlað mér að gera það, og var byrjaður að ætla að gera það enn einu sinni í kvöld, þegar ég rambaði á bloggið hans Ingólfs. Og nú er ég búinn að tengja á bloggið hans. Þetta er einsog í gamla daga.

Fyrsta myndin sem ég horfði á í heilu lagi á nýju ári (á nýársnótt raunar eftir að konan mín var sofnuð) var upprifjun, Shadow of the Vampire, sem ég hafði ekki séð í rúman áratug, síðan áður en ég byrjaði að blogga. Hún fjallar um hliðstæðan veruleika þar sem vampíran í Nosferatu Murnaus var í raun og veru vampíra sem þurfti að múta með blóði svo að hægt væri að leikstýra henni. Engin sérstök hugmynd svosem en myndin er góð.

Ég er að lesa um vampírur, bók eftir Tony Thorne, Children of the night: of vampires and vampirism. Ég keypti hana fyrir nær nákvæmlega tólf árum en hef ekki lesið fyrr en nú. Helsti ljóðurinn á þeirri bók er skipulagsleysið, hún er of mikið popp fyrir strúktúr. Annar galli er að hún er ekki nógu fræðilega unnin; fyrir vikið get ég ekki treyst einni einustu heimild nema ég lesi hana sjálfur. Synd hversu margar þeirra eru á slavneskum málum. Þriðji hnökrinn er að höfundur fer út fyrir sérsvið sitt sem eru málvísindi og því er hann ef til vill ekki eins trúverðugur og ella. Þrátt fyrir þessa ljóði á bókinni getur gagnrýninn lesandi grætt mikið á því að lesa hana. Svo kostar hún sama og ekkert á Amazon núorðið.

Af öðrum bókum þá bíð ég nú eftir On monsters: an unnatural history of our worst fears eftir Stephen Asma. Sæborgin hennar Úlfhildar Dagsdóttur mun vera svipað uppbyggð og fjallar um skylt efni og sömuleiðis langar mig að lesa þessa hér eftir David Gilmore (ekki þennan úr Pink Floyd). Á aðventunni sogaðist ég ofan í Dumasarfélagið hans Pérez-Reverte og ætlaði í kjölfarið að slátra Nafni rósarinnar yfir jólin en hef svo ekki nennt að takast á við hana, frestaði henni fyrir vampírur. Sennilega les ég Drakúla í kjölfarið sem ég hef einhverra hluta vegna alltaf litið á sem litlu systur Frankensteins, sem er vel að merkja æðisleg bók. Þá hef ég í hyggju að rifja upp Poe og Lovecraft og, ef ég endist, lesa Paradísarmissi í fyrsta skipti í heild sinni (ég var ekkert sérlega impóneraður þegar ég reyndi stuttlega við hana fyrir nokkrum árum).

Sumar nefndra bóka hafa að gera með doktorsverkefnið mitt, aðrar ekki, eða að minnsta kosti ekki beint, en það eina sem ég endist til að lesa utan skyldunnar þessi misserin er alltaf að einhverju leyti tengt efninu. Ég hef því látið bókaflóðið eiga sig þetta árið og þess í stað lesið um ferðalag heilags Brendans og ævisögu Árna Magnússonar (aftur). Í annarri þeirra eru skrímsli en í hinni brenna handrit. Ég veit ekki hvort er hryllilegra.

Og hverju skilar þessi lestur? Tja, eitthvað er farið að fæðast í höfðinu á mér, og ekki bara eitthvað um ófrýnileg vængjuð dýr, þótt þau eigi stóra hlutdeild í hugsunum mínum. Af öllum klassískum spurningum sem ég fæ um námið („hvað geturðu þá unnið við?“) hefur enginn nokkru sinni spurt mig hvort maður verði ekki skrýtinn af að pæla svona mikið í ófreskjum. Ég þori ekki að fullyrða neitt ennþá. En ég fer að klára vampírustúdíuna bráðum og þá kannski verður skrímslakompendíið komið í póstinum. Þá verður nú gaman að vera til.

Nýársraus

Ég hef aldrei verið mikið fyrir áramótaheit en nú hef ég fundið svo mikið í lífi mínu sem orðið gæti betra að það má kannski taka saman lista.

Meðal fjölmargra áramótaheita minna er að hætta að lesa íslenska fréttamiðla aðra en heimasíðu Ríkisútvarpsins, af því að þeir eru fyrirlitlegt drasl, bæði hvað varðar efnisval og framsetningu.

Óskylt áramótaheit er að liggja minna á skoðunum mínum og losa mig við lamandi átakafælni sem hefur hrjáð mig í rúmt ár. Þrátt fyrir það ætla ég líka að reyna að vera umburðarlyndari (þó ekki í garð hálfvita) og það er líklega snúnasta markmiðið.

Ég gæti ekki horft minna á sjónvarp en ég geri núna svo það getur ekki orðið að heiti, en kannski ég reyni að hlusta meira á útvarp (orðið útvarp í mínum huga merkir Rás1).

Sjálfgefna heitið sem nær því ekki einu sinni að vera markmið er að halda áfram að vera hættur að reykja. Eftir tvær vikur verður hálft ár liðið síðan ég reykti síðast og ég man ekki alveg hvernig það var. Mér finnst ennþá ofboðslega sjarmerandi hugmynd að reykja en ég gleymi því æ oftar og lengur í senn að mig langar alltaf dálítið í sígarettu, svo sú fíkn er að mestu horfin. Líklega með betri ákvörðunum síðasta árs, sem annars þaut hjá í móðu.

Á árinu 2012 ferðaðist ég minna en árið 2011 en þó ferðaðist ég heila gommu. Ég fór til Parísar með Eyju minni, en mig hafði alltaf dreymt um að fara þangað voða ástfanginn, leiðast um gömlu strætin og kyssast undir Eiffelturninum. Champs-Élysées voru vonbrigði sem ég mun seint jafna mig á, eftir allt sem ég hafði heyrt um þá eina frægustu breiðgötu heims. Ég ferðaðist tvisvar til Danmerkur og hitti í bæði skiptin góða vini bæði í Kaupmannahöfn og í Árósum, sem ég sakna ennþá ofboðslega mikið þótt mér finnist líka dálítið erfitt að koma þangað. Ég veit ekki hvaðan sú viðkvæmni kemur. Til Þýskalands fór ég tvisvar, annarsvegar í rútuferð frá Árósum að skoða Heiðabæ og Slésvík og nærliggjandi fornleifauppgröft, hinsvegar til Berlínar frá Kaupmannahöfn að heimsækja Kára Pál.

Um sumarið endurnýjaði ég kynnin við Borgarbókasafn Reykjavíkur, en til þess að geta flust til Árósa þurfti ég fyrst að hætta vinnunni þar og það var talsvert erfitt. Það var því gott að koma aftur „heim“ þótt ekki væri nema í tvo mánuði. Ég lauk meistaraprófi frá Árósaháskóla og hlaut þann fallega titil cand. mag. (sem mér finnst vera margfalt flottari en M.A.). Svo flutti ég minn fyrsta alvöru ráðstefnufyrirlestur við sama skóla og hóf doktorsnám í Háskóla Íslands, sem hefur verið ofboðslega skemmtilegt.

Að undanskildum forsetakosningunum komst held ég alveg hjá því að fylgjast með stjórnmálum á árinu sem leið og ég ætla að halda uppteknum hætti á þessu ári og gera mitt allra besta til að hunsa kosningabaráttuna í vor. Þar mun ekkert koma fram sem orðið gæti mér til upplýsingar um nokkurt einasta mál.

Þetta eru í grófum dráttum stefnumiðin fyrir nýja árið.