Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.

Grunnur að skrímslafræðum

Leslistar eru merkileg fyrirbæri. Ég get sett saman svoleiðis lista og fundist alveg augljóst samhengi á milli verkanna, jafnvel að rannsóknarefnið hljóti öllum að vera dagljóst sem sjá hvað ég les, en þannig er það auðvitað ekki. Fyrir hverjum og einum hafa slíkir listar ólíka merkingu, jafnvel enga merkingu. Ef ég segði að ég hefði nú keypt skrímslabókina eftir David Gilmore í regnskógi alnetsins Amazon, og Annál pláguársins eftir Defoe, ofan í allt hitt sem ég nefndi í gær, hvað ætli það segði lesendum þessa bloggs um viðfangsefni mín? Ætli það kæmist nálægt einhverri svipaðri hugmynd, eða myndi reynsla þess og áhugamál vekja með þeim einhverjar aðrar, óskyldar hugmyndir sem mér hefðu ekki hugkvæmst? Ég held það. Þetta eru líka tvö verkefni sem ég vinn að, annað er markvisst en hitt snýst eingöngu um að rekja almenn þemu. Þegar allt kemur til alls reynist þetta svo kannski vera sama verkefnið. Grunnur að skrímslafræðum. Kannski munu einhverjir fleiri en ég hafa áhuga á þessu áður en yfir lýkur.