L'étranger e(s)t le monstre

Að skipta úr Edgar Allan Poe yfir í Rudyard Kipling er einsog að koma ofan af Vatnsskarði í blindbyl niður í Skagafjörð um sumar. Þar á ég við ritstílinn en ekki efnið. Öll viðbrögð ég-sins (allar söguhetjur Poes eru ég) í The Fall of the House of Usher (ekki „tónlistarmannsins“) eru yfirdrifin, úr samhengi við aðstæður; ég-ið er myrkfælin „dramadrottning“. Svo er hann rasisti, sem passar við skrímslateóríuna mína; hinar villtu þjóðir eru, í mannkynssögunni, ófreskjur. Kipling hefur oft verið tengdur við kólóníalisma, ekki síst af eftirlendufræðingum, en þrátt fyrir alla hans hvítu byrði þá finnur maður ekki hjá honum þá skoðun að múslimar séu ómennskir. Þvert á móti gætu hörðustu dómarnir sem finna má í The Man Who Would Be King allt eins verið lýsing hans á Lundúnum ef maður aðeins skiptir út indversku terminólógíunni.

~

Í hryllingsbókmenntum (kvikmyndir teljast þar með) er lausnin alltaf fólgin í einni bók, eða einhverju einu ítemi öðru. Hafið þið tekið eftir þessu? Söguhetja fer til sálfræðings/galdralæknis eftir að hafa lent í yfirnáttúrulegum hremmingum og viðkomandi segir henni að lesa þessa bók. Svo reynist svarið liggja þar. Galdra-Loftur leitar einnar galdrabókar, Rauðskinnu, sem á að leysa öll hans vandræði (lesist: valdafíkn). Jack Nicholson í Wolf er uppálagt að lesa eina tiltekna bók, sem hann afþakkar. Hann fær þá einn tiltekinn verndargrip sem á að afúlfa hann, ef svo má að orði kveða. Hann hættir að nota hann þótt ljóst sé að gripurinn virkar. Í Dumasarfélaginu er það ein bók, sem varðveist hefur í þrem frábrugðnum eintökum af annarri bók, en allt annað er fals. H. P. Lovecraft var auðvitað með Necronomicon.

Þetta sama má svo, sjálfsagt engum til furðu, finna í þeim samfélögum eða undirsamfélögum – líklega má kalla það menningarkima – sem aðhyllast einhverja dulspeki. Sumum nægir einfaldlega að lesa eina uppdiktaða Necronomicon –hverja af þeim mörgu bókum sem ganga undir því heiti sem er – eða nokkrar svoleiðis, til að þykjast hafa höndlað sannleikann. Mér finnst það vera merkileg hugmynd, að telja að sannleikur einhvers máls geti leynst í einni bók, hvað þá heils heims. Kannski finnst mér það ekki síður merkilegt af því að einhvern tíma var ég haldinn þessari sömu ranghugmynd um bækur. Til þess að komast að smávægilegum sögulegum sannleik þarf ég hinsvegar að lesa heil ógrynni af bókum. Framsetningin er auðvitað auðveldari svona, og hugmyndin er heillandi, að finna eina gamla skræðu í gleymdu bókasafni og leysa með henni gátur. Poe var alltaf með þetta „forgotten lore“. En séð utan frá mætti líka segja að hryllingsheiminn hrjái akademísk leti.

2 thoughts on “L'étranger e(s)t le monstre”

  1. Þú ert ekki einn á báti með þessa teóríu um að ósiðmenntaðar þjóðir séu skrímsli:
    „What all these films have in common is their depiction of Voodoo and Haitian culture more generally as dangerous, menacing, and superstitious. Those who study colonial history are keen to note that the messages contained in these films are less than subtle, and present stereotyped versions of Haitian culture aimed largely at satisfying a predominantly white audience. Many of these films also contain an all white cast, with several members in blackface serving as comedic relief for the more “serious” scenes.“ – sjá nánar í þessari ágætu grein hér um þróun zombie kvikmynda http://thesocietypages.org/cyborgology/2012/02/27/the-zombie-in-film-full-essay-parts-i-ii-and-iii/

  2. Snilld, takk fyrir þetta! Ég er að vinna í smá rannsókn á djöflafræði í hryllingsbókmenntum almennt, og þetta tengist efninu. Ég sendi þér sömuleiðis fljótlega skilaboð í tengslum við zombienámskeiðið þitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *