Enn af draumförum

Í nótt dreymdi mig fernt sem ég man.

1. Par sem við þekkjum var ásamt fleiri gestum í litlu boði hjá okkur Eyju. Þau rifust allan tímann og sérstaklega hann, sem ásakaði hana í sífellu um að reyna við mig. Svo lagði hann hönd á öxlina á mér inni á milli og sagði í hughreystandi tón: „Þetta hefur ekkert með ykkur að gera, þetta er bara dálítið sem við erum að útkljá.“ Við hin gátum ekki étið pönnukökurnar okkar fyrir þessu og veltum fyrir okkur hvenær þau færu.

2. Það var partí í kjallaranum á Laugarnesskóla, samt á skólatíma svo það mátti ekki sjást til þess að neitt djamm væri á ferðinni, allt fullt af börnum á skólalóðinni. Í kjallaranum var einskonar dýflissa þar sem allir kennarar við skólann fyrr og síðar áttu sér sitt eigið útskorna dýr (ég tók eftir því að Ármann Jakobsson átti þarna ref, sem var útskýrt fyrir mér þannig að Ármann merkti ‘slóttugur‘ á einhverju tungumáli). Ég þurfti síðan að sækja bjór í aðra byggingu skólans og endaði einhvern veginn sem starfsmaður skólans í anddyrinu.

3. Ég varð gríðarlega skotinn í Justin Bieber, en hann var ofboðslega leiðinlegur við mig og upptekinn af sjálfum sér. Vildi alltaf að ég tæki af sér hreyfimyndir á símann minn sem hann ætlaði svo að eyða löngum tíma í að klippa einhvern veginn saman í tölvu. Ég var farinn að halda að hann vildi kannski bara alls ekkert sofa hjá mér eftir allt saman.

4. Hár sem ég dró úr nefinu á mér breyttist í lítinn, loðinn orm sem vildi ólmur knúsa mig. Hann var nánast einsog kettlingur.

Ojróvisjon

Fólk pirrar sig stundum á því þegar annað fólk (oft þulir Ríkisútvarpsins) tala um Evróvision. Hvers vegna að þýða aðeins fyrri partinn en ekki þann seinni? Annaðhvort skal það vera Evrópusýn eða Eurovision og engar refjar!

Ef við tökum hefðarrökin þá er sannarlega hefð fyrir því í íslensku að setja inn v í stað u í sérhljóðaklasanum eu, þar sem ekki finnst sambærileg stafsetning í íslensku. Í ensku er eu borið fram (eða jeú) og í þýsku er borið fram (gríðarfallegt) oj, sem margir Íslendingar hafa tekið upp á arma sína (sbr. sjónvarpsauglýsingar um nojtralsjampó).

En hefðin kallar á v. Á íslensku er skrifað um Evsebíus þar sem annarsstaðar er talað um Eusebius (Júsebíus). Í íslensku er einnig talað um Evridís en Euridice (Júridisí) í ensku. Seinniparturinn á sér annarskonar hefð í íslensku. Við höfum t.a.m. í meira en 30 ár talað um vídeó (úr latínu: ég sé), enda liggur það beint við, og þá er ekkert svo galið að tala um visíó (úr latínu: sýn) heldur. Það er okkur ekki framandi hugmynd að i sé oft borið fram einsog j (í orðinu video er það nálægð e-sins við tannhljóð sem gerir það að i/j-hljóði), en sérhljóðaklasinn eu þekkist ekki í íslensku. Þess vegna er þetta v sett inn í staðinn (svo má alltaf nefna það að u og v eru sögulega sama hljóðið í latínu).

Það þýðir hinsvegar ekki að réttur framburður á því orði sé evróvision! Það er málvöndun. Stafsetning og framburður njóta ekki nema vafasamra tengsla til að byrja með og því vil ég heldur leggja til við fólk að það tali annaðhvort um Júróvisjon eða Ojróvisjon, jafnvel þótt það skrifi evróvision. Það er ekkert rúm fyrir þetta evró í framburði samsetts tökuorðs, ekki nema það sé Bogi Ágústsson sem talar.

Að því sögðu eru sjálfsagt til faglegri útskýringar á fyrirbrigðinu. Ég er bara að hugsa upphátt (eða í letri fyrir pjúristana). Og vissulega tölum við um Evrópu og evrur, en mér finnst annað prinsíp vera að verki þar.

Samskiptin sem aldrei hefðu orðið

Ég held það megi færa rök fyrir því að a.m.k. tvenns konar aukalög hafi bæst ofan á þegar marglaga veruleika mannlegra samskipta með tilkomu Facebook. Þá á ég við samskipti sem hefðu ekki átt sér stað ella.

Það eru annars vegar þeir sem maður þekkir ekkert í raun en maður af einhverjum löngu gleymdum ástæðum hefur vingast við á Facebook. Stundum þekkir maður svo lítið til viðkomandi að maður kynni ekki einu sinni við að skrifa á vegginn þeirra, en samt sem áður þá verður til nýtt vandamál á götum úti: heilsar maður ókunnuga Facebookvininum eða ekki? Við þær aðstæður gilda almennar heilsreglur, þ.e.a.s. maður heilsar ekki nema hinn heilsi fyrst (sem getur skapað áhugavert vandamál). Oftast endar maður samt á að heilsa að fyrra bragði, eftir flókinn leik augnsambandstengsla , -rofs og endurtengsla. Hvernig sem leikurinn annars endar líður manni alltaf einsog hálfvita eftir á. Vandinn við þessi samskipti er að etableruð heilsregla verður sjaldnast til milli fólks sem varla er málkunnugt og því þarf að endurmeta hvort heilsa eigi sama ókunnuga Facebookvininum í hvert einasta sinn sem maður mætir honum. Þarna hafið þið fengið lýsingu á einni minni verstu hvunndagsmartröð.

Hitt lagið er jákvætt og verður til ofan á kunningjasamskipti, og þetta tengist nokkru sem ég ræddi við Nönnu Hlín letibloggara, Bryndísi sem af óskiljanlegum ástæðum bloggar ekki og Höskuld sem ég veit ekki hvort bloggar eða ekki (við vorum semsé að ræða samskiptareglur og sér í lagi vandræðaleg samskipti). Fólk sem maður annars þekkir lítið og yrði annars kannski feiminn við að tala við er oft svo áberandi á Facebook að maður stendur sig að því að kommenta hjá því, til verða lækbandalög og að lokum getur maður talað við það í kjötheimum einsog ekkert sé; úr verður eins konar æðri kunningsskapur, jafnvel vinátta, við fólk sem maður annars myndi í besta falli segja hæ við á Laugaveginum. Svo eru auðvitað hinir sem maður af einhverjum sökum getur átt skemmtileg samskipti við á Facebook en alls ekki í kjötheimum og vandræðalegra getur það eiginlega ekki orðið.

Bæði aukalög má þannig rekja til fólks sem maður þekkir ýmist ekkert eða lítið en hafa afar ólíkar afleiðingar, neikvæðar og jákvæðar. Svo getur fólk raunar færst um flokk í hvora áttina sem er; ókunnuga Facebookvininum getur maður kynnst og svo ef langt líður milli samskipta getur maður í einhverjum skilningi afkynnst kunningjum svo það hættir að vera sjálfkrafa viðeigandi að heilsa þeim. En það er annað og flóknara mál að rekja það í svo stuttu máli.