Samskiptin sem aldrei hefðu orðið

Ég held það megi færa rök fyrir því að a.m.k. tvenns konar aukalög hafi bæst ofan á þegar marglaga veruleika mannlegra samskipta með tilkomu Facebook. Þá á ég við samskipti sem hefðu ekki átt sér stað ella.

Það eru annars vegar þeir sem maður þekkir ekkert í raun en maður af einhverjum löngu gleymdum ástæðum hefur vingast við á Facebook. Stundum þekkir maður svo lítið til viðkomandi að maður kynni ekki einu sinni við að skrifa á vegginn þeirra, en samt sem áður þá verður til nýtt vandamál á götum úti: heilsar maður ókunnuga Facebookvininum eða ekki? Við þær aðstæður gilda almennar heilsreglur, þ.e.a.s. maður heilsar ekki nema hinn heilsi fyrst (sem getur skapað áhugavert vandamál). Oftast endar maður samt á að heilsa að fyrra bragði, eftir flókinn leik augnsambandstengsla , -rofs og endurtengsla. Hvernig sem leikurinn annars endar líður manni alltaf einsog hálfvita eftir á. Vandinn við þessi samskipti er að etableruð heilsregla verður sjaldnast til milli fólks sem varla er málkunnugt og því þarf að endurmeta hvort heilsa eigi sama ókunnuga Facebookvininum í hvert einasta sinn sem maður mætir honum. Þarna hafið þið fengið lýsingu á einni minni verstu hvunndagsmartröð.

Hitt lagið er jákvætt og verður til ofan á kunningjasamskipti, og þetta tengist nokkru sem ég ræddi við Nönnu Hlín letibloggara, Bryndísi sem af óskiljanlegum ástæðum bloggar ekki og Höskuld sem ég veit ekki hvort bloggar eða ekki (við vorum semsé að ræða samskiptareglur og sér í lagi vandræðaleg samskipti). Fólk sem maður annars þekkir lítið og yrði annars kannski feiminn við að tala við er oft svo áberandi á Facebook að maður stendur sig að því að kommenta hjá því, til verða lækbandalög og að lokum getur maður talað við það í kjötheimum einsog ekkert sé; úr verður eins konar æðri kunningsskapur, jafnvel vinátta, við fólk sem maður annars myndi í besta falli segja hæ við á Laugaveginum. Svo eru auðvitað hinir sem maður af einhverjum sökum getur átt skemmtileg samskipti við á Facebook en alls ekki í kjötheimum og vandræðalegra getur það eiginlega ekki orðið.

Bæði aukalög má þannig rekja til fólks sem maður þekkir ýmist ekkert eða lítið en hafa afar ólíkar afleiðingar, neikvæðar og jákvæðar. Svo getur fólk raunar færst um flokk í hvora áttina sem er; ókunnuga Facebookvininum getur maður kynnst og svo ef langt líður milli samskipta getur maður í einhverjum skilningi afkynnst kunningjum svo það hættir að vera sjálfkrafa viðeigandi að heilsa þeim. En það er annað og flóknara mál að rekja það í svo stuttu máli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *