Póststrúktúralíski stíllinn

Ég er að lesa Bodies that Matter eftir Judith Butler, bók sem ég hafði lesið stóra glefsu úr í grunnnámskeiði um strauma og stefnur í bókmenntafræði. Mér fannst lítið mál á sínum tíma að lesa þetta en núna hnýt ég frekar um ýmis atriði í textanum. Það er þetta einkenni póststrúktúralískrar heimspeki að nefna alltaf ákveðinn greini ákveðins greinis samhengislaust í texta.

Nokkur uppdiktuð dæmi: einstigi sjálfsverundarinnar, the feudal essence of the id, the unspeakable condition of figuration. Úps, þetta síðasta var ekki skáldað. Vandinn er að samhengislaus eru hugtökin merkingarlaus (ég hef áður fjallað um the primary sadistic eroticism of the infant), það þarf að kynna þau til sögunnar áður en þeim er varpað fram og það þarf að skilgreina hvernig þau eru notuð í því samhengi sem þau eru notuð, jafnvel þótt – þess þá heldur jafnvel – það rjúfi flæðið í textanum. Flæði er gagnslaust í óskiljanlegum texta. Og það er óþarft að flétta saman flókin hugtök til að lýsa hlutum, hvað þá einföldum hlutum.

Ólíkt ýmsum bókmenntafræðingum hef ég lesið hrafl í Derrida og þykist á engan hátt hafa skilið það allt þótt ég hafi skilið samhengið. Hann er talsvert mikið í því að segja einfalda hluti í ónauðsynlega löngu máli og óþarflega flóknum setningum og tilvísunarsetningum á ofan, sjálfur sagði hann að hann kynni einfaldlega ekki að tjá sig með öðru móti. Butler, sem ég vil taka fram að er mikill töffari, byggir töluvert á Derrida og á þetta því stundum til líka.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað er grætt á því að vera óskýr í orðavali og hugtakanotkun þegar það er tiltölulega einfalt að tjá jafnvel flóknar heimspekilegar hugmyndir í stuttu máli hafi maður á annað borð skilning á þeim, sem fær mig því alltaf til að velta því fyrir mér þegar ég skil ekki texta hvort höfundur hans hafi sjálfur skilið hvað hann ætlaði sér að segja. Það má halda því fram að stíllinn sé sjálfur afbygging, eða einsog oft er sagt að markmiðið sé að hver skilji textann sínum eigin skilningi, og að essayisminn liggi í hjarta póststrúktúralismans. En það er fullkomlega galið því í fræðimennsku verður að draga mörkin við merkingarbærni, textinn þarf að vera skiljanlegur því annars er hann ónothæfur.

Þannig hef ég upplifað það litla sem ég hef lesið eftir Juliu Kristevu, sem allt í senn misskilur Bakhtín, gerir skýrar hugmyndir hans óskiljanlegar, og er ófær um að skýra eigin fræðilegu hugsun á merkingarbæru máli. Lengi vel hélt ég að þetta væri þýðingin en nú er mér sagt að Kristeva sé alveg jafn óskiljanleg á frummálinu. Ef ég skil Kristevu á annan hátt en annar bókmenntafræðingur og svo koll af kolli, þá er komið upp vandamál, þá er textinn ónothæfur. Og það er hið versta mál ef góðar hugmyndir fara forgörðum vegna þess að höfundur þeirra gat ekki gert þær skiljanlegar.

Pawel í hnotskurn

Einn af mínum uppáhaldshamborgurum var keyptur á McDonald’s árið 2007. Hamborgarinn er úr svona rauðu kjötlími sem rotnar ekki. Ef ég set hann í þvottavél þá kemur hann gott sem þurr út. Árið 2007 voru menn nefnilega með metnað. Það var það ár sem þáverandi Ólympíumeistari í kappáti, Ítalinn Stefano Baldini, át sig í annað sætið í hamborgarakappáti á móti Davíð Oddssyni. Svo góður var McDonald’s 2007. Ólympíumeistarinn náði ekki einu sinni að vinna.

En já, þarna var nýbyrjað að gefa svona fína hamborgara úr kjötlími. Eftir hrunið margumrædda var því tímabundið hætt. Árin 2009 og 2010 fengum við aftur hamborgara úr gamaldags hakki.

Bónusborgarinn frá 2010 endaði fljótt í söfnunargámi Fjölskylduhjálparinnar enda margir aðrir hamborgarar honum fremri. Ég hef vonandi gert líf einhverrar manneskju í stærð L örlítið bærilegra. En þannig geta orð eins og „bruðl“ verið mistæk. McDonaldsbruðlborgarinn frá 2007 hefur enst ómyglaður í bráðum sex ár.

Ég skal játa: Ég myndi helst vilja búa í landi þar sem fólk fær gefins rakadræga pólýesterboli. Ekki endilega vegna þess að ég dýrka þá út af lífinu heldur vegna þess að ég held að pólýesterbolir séu vísbending um að efnahagsumhverfið sé sæmilega heilbrigt. Ég vil sjá mynd af Bjarna Ben brosandi í pólýesterbol sem sýgur af honum hamborgarasvitann. Þá mun ég vita að við erum hættir í ruglinu.

Sjá: Fáum 2007 aftur.

1. maí

Þegar maður hefur ekki geð í sér til að fylgja kröfugöngunni alla leið út á Ingólfstorg til að hlusta á sturlaðar ræður um kjarasamninga sem eru í engu samræmi við veruleikann, þá er orðið ljóst að annarleg öfl hafa rænt þessum degi. Mín græna ganga, sem var ásökuð um að ræna þessum degi í gær af „verkalýðsfélögunum“, sveigði af leið inn á Austurvöll. Þaðan þurfti ég frá að hverfa þegar dagskráin reyndist of þjóðernisleg fyrir minn smekk. Barátta fyrir náttúru á fjandakornið ekki að vera barátta fyrir „þjóðlegum gildum“. Það á að heyja hana með rökum.

Mér fannst ég ekki almennilega staddur í veruleikanum í afbeygju göngunnar í Pósthússtræti því þaðan sást vel að yfir Ingólfstorgi hékk risastór rauður borði, ég man ekki áletrunina nákvæmlega en eftir minni var hún svona:

VELFERÐ – HAGVÖXTUR – ATVINNA

Skilaboðin frá spilltu kapítalistasamtökunum ASÍ eru semsagt þau að launafólk sé heimskur múgur sem þurfi að sefja með orwellskum frösum. Í frægri skýrslu (sem þó enginn man eftir), sem unnin var um ímynd Íslands kortér í Hrun, hljóðaði frasinn svona:

KRAFTUR – FRELSI – FRIÐUR

Þetta er ekkert annað en daður við fasisma, og þegar markaðssetningarteymi hins meinta alþýðusambands er farið að strengja svona skilaboð ásamt sovéskum hnefa sem geislar af yfir kröfugönguna á 1. maí, þá hafa annarleg öfl ekki aðeins rænt deginum heldur pakkað honum inn í plast og selt hann. Einsog Che Guevara bol. Svona fyrst það tókst ekki að færa daginn í Húsdýragarðinn einsog eitt sinn var reynt að gera. Krepptir hnefar eru líka mikið teknir eftir Hrun, sem er það andartak í Íslandssögunni – einsog hún verður umrituð – þegar fólkið taldi sig hafa eitthvert raunverulegt vald yfir ákvarðanatöku í landinu.

ÚTRÝMUM KYNBUNDNUM LAUNAMUN

Þetta stóð á öðrum borða frá ASÍ. Þetta getur alþýðusambandið látið framleiða fyrir sig svo það geti bægt frá sér hugsuninni og þurfi ekki raunverulega að gera neitt í málunum. Ef það raunverulega hefði áhuga á þessu baráttumáli þá hefði nú kannski eitthvað þokast til í þeim efnum. En þess í stað snýst 1. maí um að orga eitthvert bull um kjarasamninga yfir hausamótunum á norpandi fólki á Ingólfstorgi, það snýst um fólk á háum launum sem árlega þarf að þykjast hafa staðið í eldlínunni, lyft grettistaki í launamálum alþýðunnar. Mestur hluti dagskrárinnar fer þó í einhverja hljómsveit sem var vinsæl í fyrra svona til að undirstrika það að þetta er ekki baráttufundur og að verkalýðsfélaginu þínu er drullusama um þig. Fyrir þeim er þetta næsti frídagur við 17. júní.

Gylfi Arnbjörnsson var púaður niður úr ræðupúlti á 1. maí 2009. Ég er hissa á því að hann mæti ekki eggjum núna, fjórum árum síðar þegar enn hefur ekkert gerst og alþýðusambandið hefur engan gaum gefið þeim málefnum sem það þykist standa fyrir. Hafi þeir skömm fyrir þessir skíthælar og vogi sér ekki að ásaka aðra um að ræna af sér alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.

VINNA ER VELFERÐ

Stóð á enn einum borðanum. Þetta er ógeðslegt.

Bloggað í áratug – litið um öxl

Ég gleymdi því víst alveg þar til það hvarflaði óvænt að mér í dag, að í gær voru tíu ár frá því ég byrjaði að blogga. Það sem verra er: þetta er allt til ennþá, hér á þessari síðu. Hér er hægt að lesa vissa þætti ævi minnar frá því ég var rúmlega 18 ára fábjáni í MR til dagsins í dag. Fátt af því að vísu er sérlega persónulegt; ég hef alltaf gætt þess að bera ekki eymd mína á torg þó af henni væri sannarlega nóg þessi fyrstu ár sem ég bloggaði.

Þessi tíu ár mynda líka vissan ramma. Manneskjunni er eðlislægt að hugsa í tímabilum og Bloggið um veginn er, einsog það er varðveitt og eftir mínum eigin skilningi, ramminn um mikilvægasta tímabil ævi minnar. Tímabilið frá því rétt eftir að ég tók ákvörðun um hvert ég ætlaði mér í lífinu og fram að deginum í gær þegar ég var kominn á þann stað sem ég hafði ætlað mér, sat óþreyjufullur við skrifborðið mitt og barðist við grein sem vildi ekki falla saman á samskeytunum, grein sem ég skilaði loksins í dag. Á blogginu eru einnig skrásett ýmis tímabil efasemda inni á milli; ýmsir draumar sem ég ákvað að elta í stað þess gamla, draumar sem ég að lokum gaf aftur upp á bátinn í stað þess gamla.

Nær ekkert er fjallað um fjölskylduhagi, eða ástarævintýri. Það er semsagt ekkert djúsí. Bloggið er sjálfhverft. Það er sjálfsmynd garðyrkjumanns, menntskælings, IKEAstarfsmanns, ungskálds, háskólanema, bókavarðar, fræðimanns – sem á tilgerðarlegan hátt hefur stundum breytt stafsetningu sinni, og bloggað um það! Eitt sinn breytti ég tímafærslunum í árið eftir fæðingu Þórbergs að gamni mínu, sem olli mér miklum höfuðverk þegar ég svo skipti um vefumsjónarkefi. Síðustu misseri hefur bloggið endrum og sinnum verið farvegur til tjáningar á sjálfsmynd stjúpföður. Afar lítið þó. En það helgast fyrst og fremst af því að síðustu misseri hefur bloggið sigið svolítið undan öðrum skyldum.

Litlu ævintýrin sem maður efnir til eiga það stundum til að leysast upp fyrir augunum á manni. Maður gleðst yfir því sem maður hefur, berst fyrir því sem maður ekki hefur, og sættir sig við allt þar á milli. Allt þetta er varðveitt í 2918 færslum sem birtar eru á tíu árum; sumar þeirra voru teknar aftur úr birtingu og á sumum þeirra var beðist velvirðingar.

Nú þegar tíu ár eru liðin frá því ég byrjaði, og rétti tíminn kominn til að hnýta slaufuna og hætta, finnst mér það ómöguleg tilhugsun og finn mig þess heldur knúinn til að halda áfram. En kannski með eitthvað breyttu sniði. Vandinn við bloggið er að undir eins og maður hefur fundið því eitthvert tiltekið snið þá snýst það við í höndunum á manni og umbreytist jafnharðan. Það er eitt af því sem gerir bloggið að krefjandi miðli, eitt af því sem heldur því fersku, og það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að halda því áfram.

Kannski verð ég hérna áfram eftir tíu ár til viðbótar.