Staðið við grunn íslenskra fræða

Ég átti leið framhjá Sögu, leit í leiðinni ofan í grunn íslenskra fræða sem ég hlakka til að sjá verða að húsi. Af mynd arkitektsins að dæma, sem raunar gæti verið af sumarbústað frá því fyrir fáeinum árum, á að hafa feikistórt síki umhverfis húsið. Það verður mikil vatnaparadís þarna á melunum, með vindubrúrkastalann utan um menningararfinn og fræðibönker utan um þjóðmenninguna þar við hliðina. Það er líka komið dálítið stöðuvatn við Þjóðminjasafnið og svo við Erfðagreininguna og Hörpu, einhver tíska.

Ég skil að vísu ekki alveg af hverju Landspítalinn endurspeglast í húsinu eða hvers vegna það virðist standa eitt sér. Kannski felur myndin í sér fyrirheit um að þótt Reykjavík farist muni Hús íslenskra fræða standa af sér allan mótbyr; íslenska þjóðin, eða í öllu falli íslenskufræðingar, víki aldrei. Þeir muni sitja úti á palli í vatni að drekka bjór sama hvað um aðra verður.

Annað sem sennilega hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum er að húsið verður alltaf hluti af íslenskri knattspyrnusögu. Enn eru til þeir sem eru haldnir slíkri nostalgíu að þeir vildu fá aftur Melavöllinn gamla svo veðurbarið fólk geti spilað þar fótbolta í óviðjafnanlegu roki. Nú þegar það er of seint að endurheimta melana geta þeir þó huggað sig við að Hús íslenskra fræða verður ekki einasta á sama reit heldur verður það líka sporöskjulega einsog Melavöllur. Það er sannarlega ein leið til að „viðhalda götumyndinni“, altént úr lofti séð.

Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Af dönsku, ást og jaðrakan

Það er svo margt sem lítið mál væri að bregðast við og hafa skoðun á, en þegar það hefur safnast saman fellur mér allur ketill í eld.

En eitt dæmi: Af hverju gera Íslendingar alltaf ráð fyrir að danska eigi að vera þeim eitthvað skiljanlegri en önnur mál sem þeir hafa ekki lagt metnað sinn í að læra? Það virðist aldrei vera þannig að skilningi þeirra á dönsku sé ábótavant, heldur séu það Danirnir sem tali með einhverjum fáránlegum framburði. Svo halda hrokafullir ráðherrar út í heim og hrósa öðrum ráðherrum fyrir skýran framburð á dönsku (og það á ensku með þykkum íslenskum hreim), en þótt ótrúlegt megi virðast skiptir engu máli hvernig það er meint því það er alltaf háð þegar útlendingur hrósar manneskju fyrir að kunna móðurmál sitt.

Annars er stemningin í Vatnsmýrinni dálítið í anda The Birds nú um stundir þegar varpið stendur sem hæst: kríur halda uppi ógnandi jaðarvörnum og aðrir fuglar (ég held ég hafi séð jaðrakan þeirra á meðal) hafa dreift sér strategískt hér og hvar og senda skilaboð sín á milli um mannaferðir (ef einhver skilur ekki af hverju brýrnar vantar milli Hringbrautar og Norræna hússins þá er það semsé til að vernda varpið fyrir fólki og fólk frá því að fá kríu í hausinn). Og þetta minnir mig allt í einu á ástarljóðasafnið Ást æða varps sem svo oft fékkst gefins með ólíklegustu hlutum að sennilega eignaðist ég í heildina fimm eintök (fyrir utan þau sem ég fann tilefni til að gefa), en nú veit ég ekki hvað orðið hefur um eitt einasta þeirra. Mig minnir þó að í bókinni hafi verið rómantískt ljóð eftir Óttar Norðfjörð um hnefa og rassgat. Það væri nú ekki ónýtt að finna þetta aftur til að rifja upp herlegheitin.

Af ófreskjum, sögu og smjöri

Það tekur því ekki lengur að plögga hluti á bloggsíðum, en þetta Smjörfjall sögunnar hér gleður mig. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað um þetta sama smjörfjall í þeim skilningi sem þau lögðu upp með, sennilega hef ég bara heyrt þetta hjá sjálfum aðstandendum síðunnar einhvern tíma áður, en konan mín er á hinn bóginn þaulkunnug þessu smjörfjalli í 1980 merkingunni og birtir dæmi þarna í athugasemdum.

En nóg um það, þetta er gott framtak. Mig langar að nýta tækifærið og halda áfram að ræða smjör í, kannski ekki sögulegum skilningi strangt til tekið – og þó.

Í ágætu yfirlitsriti sínu um ófreskjur (The Monstrous Races in Medieval Art and Thought) bendir John Block Friedman á að algeng leið til að framandgera andstæðinga, allt frá árdögum mannkyns til okkar daga, er að benda á óvenjulegar matarvenjur þeirra. Það þekkja margir t.d. úr styrjaldarmyndum þegar bandamenn kalla Þjóðverja ‘Krauts’. Með því að nefna þá eftir tiltekinni fæðu, í þessu tilviki súrsuðu káli, þá fara þeir á svig við mennsku Þjóðverjanna. Þeir eru enda ekki menn, heldur sá viðbjóður sem þeir borða: súrkál.

Friedman nefnir mörg dæmi um slíka virka sýnekdókunotkun, en ýmsar þjóðir voru þekktar af fæðu sinni á miðöldum í gegnum hina sívinsælu alfræði Plíníusar eldri (Naturalis historia), t.d. þjóðin sem aðeins át fiska (ichtyophagi) og hinir skelfilegustu anthropophagi sem varla tjóir að skýra hvað merkir. Þessar þjóðir þóttu ekki aðeins óvenjulegar, heldur jafnvel ófreskjum líkar, sakir mataræðis síns eins.

Glöggur lesandi áttar sig nú á því hvert stefnir. Í Ketils sögu hængs segir frá kappanum Katli sem lendir í hrakningum norður af Finnmörk og gistir af þeim orsökum hjá þarlendum manni sem nefnist Brúni. Hann býður Katli að liggja hjá Hrafnhildi dóttur sinni, sem hann þiggur, en þá breiðir Brúni yfir þau uxahúð, og þegar Ketill spyr hvers vegna þá svarar Brúni að bragði:

„Ek hefi hingað boðit Finnum, vinum mínum […] ok vil ek eigi, at þit verðit fyrir sjónum þeirra. Þeir skulu nú koma til smjörlaupa þinna.“

Og viti menn:

Finnar komu ok váru eigi mjóleitir. Þeir mæltu: „Mannfögnuðr er oss at smjöri þessu.“ Síðan fóru þeir í burt.

Lesandinn veit þegar að Finnar eru varhugaverðir. Þetta er undirstrikað með því að Brúni fær þeim smjörið sem Ketill hafði haft með sér; þeir eru smættaðir niður í smjörið eitt, framandgerðir. Í framhaldinu Örvar-Odds sögu kemur svo eftirfarandi í ljós um barnið sem varð undir hjá Katli og Hrafnhildi þessa örlagaríku nótt þegar Finnar sóttu smjörlaupana:

Grímr hét maðr ok var kallaðr loðinkinni. Því var hann svá kallaðr, at hann var með því alinn, en þat kom svá til, at þá þau Ketill hængr, faðir Gríms, ok Hrafnhildr Brúnadóttir gengu í eina sæng, sem fyrr er skrifat, at Brúni breiddi á þau húð eina, er hann hafði boðit til sín Finnum mörgum, ok um nóttina leit Hrafnhildr út undan húðinni ok sá á kinn einum Finninum, en sá var allr loðinn. Ok því hafði Grímr þetta merki síðan, at menn ætla, at hann muni á þeiri stundu getinn hafa verit.

Sterklega er gefið í skyn að þetta eigi sér stað vegna þess að Finnarnir eru yfirnáttúrulegir og ómennskir, ekki ólíkt súrsuðum andstæðingum bandamanna eða hinum kynlegu fiskætum Plíníusar.

Smjör getur þannig á ýmsan hátt verið afdrifaríkt. Þótt það geri okkur ekki öll loðin á kinn hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, eða að við beinlínis föllum í valinn sakir þess líkt og Gunnar á Hlíðarenda, og hvort sem því sjálfu var hlaðið í loðinn stafla af eigin myglu í Skálholti eða ekki þá hefur smjör með ýmsu móti haft áhrif á gang sögunnar. Það er því bara ágætt að blogg um sagnfræði sé kennt við smjör því þegar vel er að gætt er smjörið síst ómerkilegra en sagan: oft er nefnilega engin saga án smjörs.

Þegar Sæmundur lærði tamíl

Það verður ekki af honum Helga Guðmunds tekið að hann heldur manni svoleiðis á snakki að kaffið kólnar í hitabrúsanum á meðan. Ég þekki engan annan sem hefur slíkan samræðumátt að ég gleymi kaffibolla. Hann er einnig þeirri gáfu gæddur að ef hann þarf að mæla á eitthvert annað tungumál þá segir hann „þú skilur þetta“ og þá einsog fyrir galdur skilur maður allt, og þó það væri á tamíl.

Svo tekur alvaran við á kontórnum. Jökulkalt kaffi úr hitabrúsanum og kontóristinn sem er það skyni skroppinn að hann hefur skattstjóralegasta mögulega hringitón, sem málning flagnar undan, á farsímanum sem hann skildi eftir og hringdi auðvitað linnulaust meðan hann gekk örna sinna í lengri tíma. Hinsvegar hringir aldrei neinn í hann í þau fáu skipti sem hann er viðlátinn til að ansa.

Þetta er ekki til að auka á ánægjuna, en til allrar hamingju eru flúrljósin þæg sem stendur svo þetta er ekki sem verst. Dagsverkin vildi ég að gætu orðið drýgri en raunhæft er en þannig er það líka þegar maður vinnur að sjö hlutum í einu meðan hugurinn stefnir í áttundu átt. Sennilega þarf ég bara kaffibolla til en þá á ég á hættu að ramba aftur á Helga og glata þannig restinni af vinnudeginum í Anjou og Sæmund fróða — og kannski smá tamíl í leiðinni.

„Goðafræði“

Bakið mitt hefur ákveðið að sálga sér hvort sem ég er fastur við það eða ekki. Svo ég er lagstur í flet meðan minni stórfjölskyldan situr að veisluborði frammi í stofu. Til allrar hamingju missi ég bara af kjúkling en ekki nautalund.

Á þessum tímapunkti finnst mér ég þurfa að játa það að ég hef algert óþol, jaðrar við ofnæmi, fyrir orðinu goðafræði. Í fyrsta lagi vísar orðið framhjá trúnni sjálfri og þar með vísar það í fyrirbæri sem aldrei hefur raunverulega verið til (heiðið fólk hafði sannarlega sína trú og fróðleik, sem er ekki það sama og fræði). Það má að vísu kalla eftirheimildir á borð við Snorra Eddu „goðafræði“ í því ljósi að Snorri reyndi að setja fram á skipulegan (fræðilegan) hátt tiltekna staðlaða gerð af trú sem þó aldrei var stöðluð og hann þekkti aðeins úr öðrum heimildum en ekki af eigin reynslu.

En, og í öðru lagi, þá eru engar heimildir til um „goðafræði“ sem ekki eru heimildir um trúna sem „goðafræðin“ á að lýsa. Þar sem þetta eru allt sömu heimildir er nærtækast að líta á þær sem heimildir um norræna trú en ekki goðafræði, eða gríska og rómverska trú, o.s.frv.

Í þriðja lagi er „goðafræði“ í reynd aðeins þýðing á orðinu mythology, sem er orð margra merkinga en er einhverra hluta vegna helst haft yfir heimildir um hina ýmsu útdauðu fjölgyðistrú; orðið er algerlega merkingarlaust þannig. Það er líka misvísandi að kalla þetta „fræði“ af nákvæmlega sömu ástæðum og það væri misvísandi að kalla Gamla testamentið fræðirit, eða Kóraninn, eða Bhagavad Gita, eða Gilgameskviðu.

Auk þess fjallar „goðafræðin“ ekki aðeins um goð heldur um allan fjandann annan frá sköpun heimsins til endaloka hans. Þess vegna á fólk að hætta þessari steypu og tala um norræna trú en ekki „goðafræði“.

Nýtt upphaf …

… verður einhvern tíma í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá munum við eiga stóra og fína íbúð og þurfum aldrei að flytja framar. Þá getur maður staðið keikur með ístruna framan í sólinni og dásamað sérhvert tilbrigði við hið kunnuglega lífsstef, og þambarabambað á bumbunni einsog sannur eignamaður, Þríhrossi líkari en Sumarhúsum. Þá verður hvorki grætt né grillað, heldur bara verið til. Þá verður nú gott að vera til. Bara við ástin mín og stelpurnar og ekkert annað í heiminum sem vert verður að gefa gaum (jú, nema brauðstritinu og því öllu).

Eftir þriggja daga sleitulausa flutninga er ekki laust við að manni líði ögn einsog klyfjaklárnum Boxer. Á einhverjum tímapunkti í dag leið mér einsog ég væri við það að fá hjartaáfall, þar sem ég stóð stjarfur inni í svefnherbergi í köldum svita og horfði á eitthvað sem ég áttaði mig ekki lengur alveg á hvað væri. Svo fylgdi verkurinn. Ég þarf þá að tala við lækninn minn aftur og útskýra fyrir honum að þetta sé nú sennilega ekki bakflæði einsog hann hélt, því síður asma einsog ég hélt.

Einhvern tíma hefði ég nú verið liðtækari í svona ofurflutninga en kalla mig þó góðan að hafa enst þetta í þrjá daga, í þessu formleysi og brjósklosi sem ég er. Mig hefur þó langað til að grenja nokkrum sinnum; ekki af sársauka, heldur af tilfinningasemi og þreytu. Þetta er maður nú viðkvæmur. En nú fer að sjá fyrir endann á þessu. Fjórði og vonandi síðasti dagurinn á morgun.

Vitið þið hvað ég mun gera að því loknu? Ekki neitt. Ég mun hverfa inn í og sameinast tómarúminu og hætta að vera til í eitt eilífðar stundarkorn, bara rétt á meðan ég hvíli mig. Þannig að ef ég skrifa einhverja skrýtna hluti á Facebook næstu daga þá er óþarfi að hafa áhyggjur; þetta er bara ég að snappa rétt áður en ég kem aftur til sjálfs mín.

Flutningar

Það er ótrúlegt hvað kemst mikið í eina geymslu, þ.e.a.s. ef ég fæ að vera einráður um hvernig raðað er í hana. Megnið af búslóð úr 120 fermetra íbúð komið saman á tæplega 8 fermetra reit í kjallaraherbergi.

Það er líka ótrúlegt hvað líkaminn leyfir sér ef hann veit að meiri átök eru framundan. Ég vaknaði hress í morgun eftir heljarinnar átök daginn á undan, fékk mér kaffi og hélt áfram með Eyju og stelpunum og Brynjari, sem tók við af Alla frá því í gær, að græja draslið. Það var ekki fyrr en allt var búið og Brynjari hafði verið komið heim að ég fann að bakið öskraði á að verða skilið eftir til að deyja úti á bílaplani. En mér tókst þó að drösla því með mér inn líka.

Fyrsta nóttin á nýjum stað framundan. Það verður eitthvað.