Afstaða páfa til gyðinga 1120—1593 (gróflega mörkuð)

Það getur verið áhugavert og upplýsandi að fletta í gömlum skjölum. Internetið hefur ekki síst gert það auðveldara og þótt ekki sé hægt að reiða sig á Wikipediu þá eru þar margir gagnlegir listar. Ef við skoðum lista yfir páfabréf á Wikipediu, sem þó er fjarri því að vera tæmandi, getum við til dæmis fengið grófa hugmynd um afstöðu kirkjunnar til tiltekinna mála. Ég hef áhuga á afstöðu hennar til gyðinga. Sjáum hvað fæst út úr því (ártöl eru misnákvæm):

1120, Sicut Judaeis, Callixtus II
Gyðingar sem fóru illa út úr fyrstu krossferðinni njóta nú verndar páfa.

1205, Etsi Judaeos, Innocentius III
Gyðingum leyfist að hafa eigin bænahús og þurfa ekki að taka kristna trú. Gyðingar mega þó ekki snæða með kristnum eða halda kristna þræla.

1218, In generali concilio, Innocentius III
Gyðingum er gert að klæðast auðkennisbúningum til aðgreiningar frá öðrum og greiða tíund.

1233, Etsi Judaeorum, Gregorius IX
Gyðingar skulu njóta sömu virðingar í kristnum löndum og kristnir vilja njóta í heiðnum löndum.

1239, Si vera sunt, Gregorius IX
Gyðingleg rit skulu gerð upptæk, sérstaklega Talmúd, vegna gruns um guðlast.

1244, Impia Judeorum perfidia, Innocentius IV
Gyðingar mega ekki ráða kristnar hjúkrunarkonur.

1247, Lachrymabilem Judaeorum, Innocentius IV
Ofsóknum á hendur gyðingum sakir falskra ásakana um blóðfórnir kristinna barna í ritúölum sínum skal hætt.

1348, Quamvis perfidiam, Clement VI
Tilraun til að stöðva orðróm um að gyðingar hafi valdið Svarta dauða með því að eitra brunna.

1442, Dundum ad nostram audientiam, Evgenius IV
Alger aðskilnaður kristinna og gyðinga.

1442, Super Gregem Dominicum, Evgenius IV
Forréttindi Kastilíugyðinga eru afnumin og ýmis höft sett á þá. Kristnir Kastilíumenn mega ekki snæða, drekka, búa eða baða sig með gyðingum eða múslimum. Sérhver vitnisburður gyðinga eða múslima gegn kristnum er ógildur.

1447, Super Gregem Dominicum, Nikulás V
Ákvæði Evgeniusar endurtilskipað til Ítalíu.

1451, Super Gregem Dominicum, Nikulás V
Ítrekun og endurtilskipun sama ákvæðis.

1555, Cum nimis absurdum, Páll IV
Trúarleg og efnahagsleg höft lögð á gyðinga í umdæmi páfa.

1569, Hebraeorum gens sola, Píus V
Gyðingar í umdæmi páfa mega nú aðeins búa í Róm og Anconu.

1586, Christiana pietas, Sixtus V
Gyðingar mega nú aftur búa sem þeim líkar í umdæmi páfa.

1593, Caeca et obdurata, Clement VIII
Gyðingar gerðir brottrækir á ný úr umdæmi páfa.

Þetta er sem fyrr segir ekki nærri því allt er varðar gyðinga, en gefur ákveðna hugmynd um togstreituna og þá sífelldu jaðarsetningu sem gyðingar hafa mátt búa við í árþúsundir. Mér finnst þetta áhugavert.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *