Meistaraverk æskunnar VIII: Tveir á toppnum 2

Kannski dag einn nenni ég að skrifa um Lethal Weapon. En staðreyndin er sú að Lethal Weapon var aldrei nema miðlungsmynd, en Tveir á toppnum 2 eins og hún hét á íslensku (sem lýsir myndinni ekki sérlega vel; það er aðallega einn á toppnum, sínum eigin) er í allt öðrum gæðaflokki. Aldrei að vita nema ég reyni næst við Lethal Weapon 3 (sem ég hef aldrei komist í gegnum og var þýdd á Stöð 2 sem Karlar í krapinu, einhverra hluta vegna).

Myndin fjallar um andstæðupar tveggja lögreglumanna, Riggs og Murtaugh (Mel Gibson og Danny Glover), þar sem annar er gangandi reður en hinn er stroðin ímynd hins kvengerða manns, en svo vill til að þeir passa eins vel saman og karlkló inn í kveninnstungu. Svo rífast þeir eins og gömul hjón en finna annars samstöðu í foreldrahlutverkinu, sem er þröngvað upp á þá, gagnvart táknmynd bernskunnar sem birtist í hinum smávaxna Leo Getz (Joe Pesci). Ef lesandinn fær hér á tilfinninguna að konur séu aukaatriði í þessari mynd þá er það hárrétt, þó ekki sé það fyrir skort á tilraun til að láta líta út fyrir að þær skipti máli, en hefndarþorsti Riggs vegna kvennanna í lífi hans snýst fyrst og fremst um að undirstrika karlmennsku hans.

Murtaugh keyrir um á glænýjum skutbíl eiginkonunnar þegar hann er í vinnunni, alveg án þess að ástæða þess sé gefin upp (maður hefði haldið að löggur fengju vinnubíla), og sú staðreynd ein og sér dugar til að kvengera hann. Við þetta bætist að bíllinn verður ítrekað fyrir tjóni í myndinni og er að lokum svo krambúleraður, glugga- og hurðalaus, að freistandi verður að túlka bílinn sem laskaða karlmennskuímynd Murtaughs. Vegna aðstæðna sem skýrast í fyrri myndinni (minnir mig) býr Riggs í hjólhýsi við ströndina og sér því kona Murtaughs um að þvo af honum fötin, sem emaskúlerar enn frekar Murtaugh sem þarf ítrekað að þola ekki aðeins annan karlmann á heimilinu, heldur sjálfa ímynd karlmennskunnar.

Karlmennskuímynd Murtaughs að hruni komin.
Karlmennskuímynd Murtaughs að hruni komin.

Dóttir Murtaughs leikur í sjónvarpsauglýsingu og þetta auglýsir Riggs þvert á mótmæli Murtaughs fyrir allri lögreglustöðinni (sem virðist nær alveg snauð af konum, það mætti halda að myndin hafi verið gerð 1989). Murtaugh óttast að gert verði gys að sér ef dóttir hans verður lúðaleg í sjónvarpinu, en hið gagnstæða verður raunin: allir gera gys að honum vegna þess að í auglýsingunni er hún klædd í bikini í sleik við ungan mann á ströndinni, og í lok hennar fær áhorfandinn að vita að smokkar er varan sem enginn má án vera. Þetta setur Murtaugh í töluvert uppnám, hann er maður sem vill ekki vita af dóttur sinni í kynferðislegu samhengi og er sýnilega brugðið þegar hann kemst að því að börnin hans hljóta kynfræðslu í skóla. Lyklarnir að þessum heimi eiga að vera í hans vörslu, en nú áttar hann sig á því að völd hans sem karlmannsins á heimilinu eru að engu höfð. Hann hótar léttúðlega að skjóta kærasta dótturinnar, sem var hjá þeim að horfa á auglýsinguna, nema hann fari heim. Riggs, sem er þarna líka (eins og hann virðist alltaf vera), segir honum að hafa engar áhyggjur því byssan hans Murtaughs sé gömul og hann sé léleg skytta að auki. Kærastinn og dóttirin hlæja, því þau skilja hvað Riggs raunverulega á við. Riggs er það sem kallað er í fræðunum „helvítis kvikindi.“ Leo Getz hefur orð á því sömuleiðis að sexhleypa Murtaughs sé gamaldags, hann hefði haldið að enginn notaði svoleiðis lengur og að hann væri alveg viss um að hinn ungi Riggs væri með sjálfvirka byssu. Fræg eru sömuleiðis orð Murtaughs, „I’m too old for this shit,“ sem undirstrika að hann er orðinn linur og getulaus í ellinni. Í verðlaun fyrir frammistöðu dótturinnar fær Murtaugh smokkatré á skrifborðið sitt í vinnunni. Hann getur ekki annað en hlegið hjartanlega með vinnufélögum sínum meðan þeir táknrænt gelda hann og plasera dótturina lóðbeint í rúnkminnið (allir sem reyna að hughreysta Murtaugh segja að dóttirin hafi staðið sig vel, þá langi að kaupa smokka þegar þeir sjái auglýsinguna … já).

Líf Rogers Murtaugh í hnotskurn – hann er emaskúlerað athlægi jafningja sinna.
Líf Rogers Murtaugh í hnotskurn – hann er emaskúlerað athlægi jafningja sinna.

Á meðan flæðir karlmennska Riggs yfir lága siðferðisbarma hans án sýnilegs afláts. Hann reykir þar sem honum sýnist, með reðurtáknið dinglandi framan í yfirmanninn á skrifstofu hans og segist vera sama þegar honum er bent á að það megi ekki reykja þarna. Þetta segist Murtaugh þurfa að búa við öllum stundum. Kona Murtaughs finnur svo gullpenna í fötunum hans Riggs, sem ítrekað skal að hún þvær af honum. Riggs hefur ekki hemil á sér og með lítilli viðhöfn segir henni að penninn minni sig á daginn sem konan hans dó. Hann var soddan vinnufíkill að hann gleymdi að hitta hana á veitingastað, og hún lenti í bílslysi og dó á leiðinni heim eftir að hafa beðið á veitingastaðnum í yfir klukkutíma. Þegar hann fékk símtalið sendi hann augun í allar áttir í smástund eins og Mel Gibson myndi gera, lét fallast á kné og sá þá gullpennann undir sófa (hún var ekki merkileg húsmóðir, bætir hann við; góð húsmóðir gætir þess að penni mannsins sé ætíð á vísum stað), svo skrifaði hann undir dánarvottorðið eða hvað það nú var með þessum sama penna. Hann hlær þegar hann segir þessa sögu; sennilega á það að vera taugaveiklaður hlátur alfakarls, en Riggs virðist einlæglega vera skemmt. Karlmennskuna, tákngerða í pennanum, fann hann með dauða konu sinnar. Hana geymir hann í buxunum og þar með neyðast bæði Murtaughhjónin til að fást við hana. Allt sem Riggs gerir er óbeislað og karlmannlegt, eins og hið langa tákn sem undirritaði endalok hjónabands hans og á það til að fara á flakk úr buxunum.

„Gættu þín, allar konur sem þetta snertir deyja, því ég er svona harmþrungin persóna.“
„Gættu þín, allar konur sem þetta snertir deyja, því ég er svona harmþrungin persóna.“

Riggs kann líka að fara úr axlarlið; það er, hann getur losað stífleika lims síns að vild til að koma sér úr erfiðum kringumstæðum, en svo þarf hann að berja hann aftur í réttan stað með hinni mestu hörku. Þetta gerir hann fyrir framan vinnufélaga sína til að vinna veðmál, að hann komist úr spennitreyju á fimm mínútum. Þegar veðmálið er unnið er Riggs ekki fyrr búinn að lemja karlmennskuna í sinn rétta stað þegar hann lítur upp og sér vinnustaðarsálfræðinginn mæna á sig, sem hann ávarpar sem frú Sigmund Freud. Þetta atriði þjónar líka öðrum tilgangi, en það er af þeirri tegund sem nefna mætti „afar tiltekinn hæfileiki söguhetju kynntur til sögunnar,“ sem ávallt fylgir annað atriði af tegundinni „afar tiltekinn hæfileiki söguhetju kemur að góðu haldi fyrir einskæra tilviljun.“

Senan þegar þeir Riggs og Murtaugh hitta fyrst Leo Getz er nánast eins og öfugur getnaður. Fyrst hitta þeir manninn, átta sig svo á því að hann er sem barn, og næst verða átök þar sem vondur flugumaður kemst inn á hótelherbergi til þeirra og þá takast þeir Leo og Riggs á um byssuna við hann, sem lyktar með því að þeir allir eins og sáðlosast út um hótelgluggann og út í sundlaug, þar sem óþokkinn kemst undan en Riggs horfist í augu við afurð þessa undarlega getnaðar, og áttar sig á því að hann situr uppi með þennan mann. Síðar skilur Riggs við þennan sama launmorðingja með því að senda brimbretti líkt og fljúgandi reðurtákn í hausinn á honum, „He’s got a surfboard where his face should be,“ segir einhver.

Riggs heldur á Getz í reifum eins og undir skírn.
Riggs heldur á Getz í reifum eins og undir skírn.

Þrátt fyrir endalausar vísbendingar og suðurafrísk slanguryrði vondukagglanna er aldrei gefið í skyn í myndinni að þeir Riggs og Murtaugh fatti að vondukagglarnir í upphafi myndar séu hinir sömu vondukagglar og þeir þurfa að kljást við vegna Leo Getz. Vondukagglarnir eru nefnilega ógurlegir suðurafrískir rasistar sem elska apartheid nærfellt meir en sitt fullkomna hvíta blóð, en þeir njóta líka diplómatískrar verndar sem sendiráðsstarfsmenn. Aðalvondikagglinn er meira að segja með svona örn hangandi bakvið sætið sitt eins og einhver Hitler (og svo lék sami náungi líka hinna illa nasista HELLSTEIN í kvikmyndinni Spymaker um ævi Ians Fleming).

Hver er EKKI með svona örn á veggnum hjá sér?
Hver er EKKI með svona örn á veggnum hjá sér?

Afskaplega sérstakt atriði í myndinni sýnir Murtaugh hafa Leo Getz með sér beinlínis í suðurafríska sendiráðið að þykjast vera aktívistar gegn apartheid meðan Riggs notar tækifærið til að djöflast einhver ósköp með framlengingu karlmennsku sinnar, af því góðar löggur í þessum heimi stunda það að skjóta sundur sendiráðsskrifstofur án afleiðinga. En það er eins og þeir skilji ekki að þeir eiga að vernda Leo Getz og að það er fólkið í sendiráðinu sem vill drepa hann. Það er eins og fólkið í sendiráðinu viti það ekki sjálft, svo þeir komast einhvern veginn upp með þetta.

Það er bót í máli að yfirmaður þeirra man þetta. Hér skammar hann þá fyrir annað skipti þar sem þeir hafa Getz með sér á vettvang. Getz stendur eins og barn á milli tveggja foreldra.
Það er bót í máli að yfirmaður þeirra man þetta. Hér skammar hann þá fyrir annað skipti þar sem þeir hafa Getz með sér á vettvang. Getz stendur eins og barn á milli tveggja foreldra.

Á einhverjum tímapunkti hafa vondukagglarnir plantað sprengju undir klósett Murtaughs og Riggs og restin af löggunni mætir til bjargar. Enn einu sinni er karlmennska hans fórnarlamb átaka sögunnar, þar sem hann situr fastur við klósettið meðan allir karlkynsvinir hans (og „frú Freud“) bogra yfir honum. Murtaugh hefur setið þarna í um 20 tíma þegar hér er komið sögu og getur sig hvergi hrært, getuleysið er algjört. Hér þarf karlmennið að leiða hinn gelda mann gegnum kringumstæðurnar og bjarga honum. „Hvers vegna settu þeir ekki sprengjuna í ofninn hennar Trishu,“ spyr Murtaugh. „Hugsaðu þér allar þarflausu þjáningarnar sem hefði mátt komast hjá þannig,“ skýtur Riggs tilbaka, og þeir hlæja báðir að þessari fyndni á kostnað eldamennsku eiginkonunnar. Þetta er síðasta hálmstrá karlmennskunnar fyrir Murtaugh, eins gott að halda um það fast.

Riggs bograr yfir klósettinu, en Murtaugh spyr hvort hann sé stroðinn („am I fucked?“), en líkingamál Tveggja á toppnum gefur það sterklega til kynna.
Riggs bograr yfir klósettinu, en Murtaugh spyr hvort hann sé stroðinn („am I fucked?“), en líkingamál Tveggja á toppnum gefur það sterklega til kynna.

Á endanum springur sprengjan og þeir félagar fljúga eitthvert út í loftið fyrir vikið og Murtaugh lendir ofan á Riggs, sem segir: „Get off me man, I don’t want anyone to see us like this.“ Eðlilega vill Riggs ekki virka undirgefinn Murtaugh, í trúboðastellingu fyrir framan félagana. Riggs óttast á hinn bóginn ekki að hóta öðrum mönnum rassaríðingum, en því hótar hann aðalvondakagglinum („I’m gonna fuck your ass“). Mér verður hugsað til greinar Kari Ellenar Gade um nauðgun karlmanna á miðöldum (sem ég hef þýtt lesendum til hægðarauka), þar sem skýr niðurstaða er að sá sem er undirgefinn í slíku sambandi er sá sem er argur, en gerandinn bíður engan álitshnekki. Ef til vill hefur Riggs lesið þessa sömu grein. Aðalvondikagglinn svarar með: „Get out of here, kaffir-lover“ (kaffir er suðurafrískt slangur fyrir svarta), og mögulega hefur hann eitthvað til síns máls í bókstaflegri skilningi, miðað við kvíðaþrungin, hómófóbísk viðbrögð Riggs við því að liggja undir Murtaugh.

Screen Shot 2017-01-22 at 16.15.35

Murtaugh smám saman endurheimtir karlmennskuna; fyrst þegar tveir karlmenn ráðast að honum í tómstundaherbergi hans – sem áhorfandanum skilst að sé honum einum ætlað en engum öðrum úr fjölskyldunni, svo hér má skilja herbergið sem hans umráðasvæði, síðasta vígi karlmennsku hans. Murtaugh vegur báða menn með naglabyssu, og ef áhorfendur náðu ekki myndmálinu þar þá tekur Murtaugh af allan vafa: „Nailed them both.“ Næst nær Murtaugh honum upp þegar hann skýtur sjálfan aðalvondakagglinn í ennið í lokin af löngu færi. Gamla byssan virkar vel og Murtaugh er sannarlega góð skytta.

Screen Shot 2017-01-22 at 16.36.04

Fram að því óttast aðalvondikagglinn ekki hið karlmannlega vald sem felst í byssu; byssur hrífa ekki á diplómata (ekki fyrr en Murtaugh treður valdi sínu þar sem það á ekki heima). Þegar Riggs og Murtaugh mæta honum fyrst hefur hann af þeim hin voldugu tákn og sópar þeim út um dyrnar með einu saman vegabréfinu. Riggs er hálfur kominn upp um pilsið á einhverri konu fyrir utan þegar aðalvondikagglinn mætir í dyrnar og hefur hana frá honum líka, enda sé hún starfsmaður hans og gögnin sem hún hefur séu sömuleiðis trúnaðarmál. Rika heitir hún og aðalvondikagglinn er í laumi skotinn í henni. Rika er í laumi skotin í Riggs en Riggs gerir ekki eitt eða neitt í laumi og eltir hana út í matvörubúð, rífur hana þaðan út, hefur heim með sér í hjólhýsið, flekar og ríður minnst fjórum sinnum. Áður hefur Leo þrifið karlmennskuhellinn hans, en það er Riggs á móti skapi því hann vill hafa allt löðrandi í rusli, bjór og testósteróni. Þegar hér er komið sögu ræður Gibson ekki lengur við ástralska framburðinn sem flýgur þvers og kruss um skjáinn og nemur hlustir áhorfenda, sem allajafna myndi vekja þeim unað enda ástralskur framburður kynngimagnaður, en vekur þeim óhug hér því Riggs er hættur að sýnka við veruleika myndarinnar.

Eins og Mel Gibson átti eftir að gera síðar.
Eins og Mel Gibson átti eftir að gera síðar.

Nú koma skyndilega menn á þyrlum og skjóta sundur hjólhýsi Riggs, en Riggs tekst með karlmennsku sinni að drepa þá alla og sleppa með Riku og hund ósködduð. Riggs skilur ekki ennþá að vondu kagglarnir eru verulega vondir kagglar svo hann fer með hana heim til hennar þar sem þau eru snarlega handsömuð af vondu kögglunum – nema fokkíng hvað? Og þessi maður á að heita lögga. Svo drekkja þeir Riku og tjá Riggs að þeir séu þeir hinir sömu vondu kagglar og þvinguðu konuna hans út af veginum þarna í den og drápu, sem Riggs hafði ekki haft neina hugmynd um. Svo Riggs verður voða reiður við þetta en neyðist til að losa um karlmennsku sína andartak enda stendur til að drekkja honum í spennitreyju. Hann er snöggur að losa sig úr henni úti í sjónum og finnur í leiðinni Riku þar niðri, en hana hefur hann með sér aftur upp á yfirborð og fer svo í göngutúr með lík hennar um fjöruna og með hundinn, sem allt í einu er kominn, í eftirdragi.

Annað stig sorgar: fara í spássitúr með hinn látna.
Annað stig sorgar: fara í spássitúr með hinn látna.

Þegar hér er komið sögu hefur hann skellt karlmennskunni aftur á sinn stað og tekur til óspilltra málanna að kála skúrkum. Hús vondukagglanna stendur á stólpum í fjallshlíð (á sandi byggði heimskur maður …), og Riggs bindur kaðal milli þessara reðurstoða og dráttarkúlu pallbíls síns – annarrar framlengingar karlmennskunnar – og fellir hið uppreista hús niður með eldsumbrotum og látum, hoppar svo og húar eins og hellismaður meðan allt brennur. Riggs er allt fært. Hann getur jafnvel rúllað sér á jörðinni eins og maðkur og skotið svona einhvern veginn og hæft alla sem hann miðar á meðan enginn hæfir hann, iðandi þarna flötum beinum eins og fífl. Riggs lendir svo í handalögmálum við vondakagglinn sem myrti konuna hans, en sá hefur leik á að stinga hníf í lærlegg Riggs – tákn í tákn. Svo penetrerar Riggs hann með sama hníf og lætur gám falla ofan á hann, af því Riggs er svona heldur í siðblindara lagi.

Reður hins illa svignar og brotnar og þar með hrynur allt veldi aðalvondakagglsins.
Reður hins illa svignar og brotnar og þar með hrynur allt veldi aðalvondakagglsins.

Eftir að aðalvondikagglinn hefur skotið Riggs einhver ótal sinnum og Murtaugh hefur skotið aðalvondakagglinn í hausinn með „byssunni sinni“ þá liggur Riggs í örmum Murtaugh og biður hann um að sækja sígarettu í vasann. Svo segir hann: „Fleygðu þessu, þetta drepur þig hraðar en þú veist.“ Þar með hafnar Riggs reðurtákninu; hér er það gamla byssan sem blífur. Áður hefur Murtaugh játað ást sína til Riggs á klósettinu, og nú tekur Riggs við: „Ég drapst ekki á klósettinu þínu, svo ég ætla ekki að deyja í fanginu á þér.“ Nú hlæja þeir saman, og Riggs bætir við: „Þú ert í alvörunni fallegur maður, gefðu mér einn koss áður en þeir koma.“ Íróníska fjarlægðin í raddblænum dulbýr hinar raunverulegu væntingar að baki yrðingunni. Myndavélin þysjar út og við sjáum að lögreglan hefur umkringt staðinn. Um samband Riggs og Murtaugh vitum við ekki héðan af, en sem fyrr smella þeir saman eins og kló í innstungu, kjassast og rífast eins og gömul hjón. Murtaugh hefur öðlast karlmennsku sem áður hann skorti, en Riggs er ef til vill reiðubúinn að gefa eitthvað eftir af sinni. Kannski verða þeir þá tveir á toppnum þegar upp er staðið.

Seint verður tekið af Danny Glover að hann er með fallegri mönnum.
Seint verður tekið af Danny Glover að hann er með fallegri mönnum.

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi
VI. Gremlins
VII. Good Will Hunting

Meistaraverk æskuáranna VII: Good Will Hunting

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi
VI. Gremlins

Alltaf svíkst ég um, ég gæti eins viðurkennt að þessi færsluflokkur fjallar bara um bíómyndir almennt en ekki lauslega skilgreindan flokk bíómynda sem ég ólst upp við. Ég held ég hafi verið kominn í menntaskóla þegar ég sá Good Will Hunting. Það er mynd sem þykist fjalla um ábyrga beitingu þekkingar og það að vera trúr sjálfum sér. Til þess að ná fram þeim áhrifum þarf myndin að beita frásagnarlegu andstæðupari sem í raun kallar á allt aðra merkingu. Ég áttaði mig ekki á því þá en í rauninni stillir Good Will Hunting stærðfræði upp sem andstæðu mennskunnar. Mennskan er það sem skal rækta en stærðfræðin færir fólk fjær mennskunni. Frásagnarformgerð myndarinnar mætti lýsa samkvæmt táknferningi Greimas svona:

greimas-good-will

S1: Good Will Hunting fjallar um Matt Damon sem er svo ofboðslega góður í stærðfræði að lífið leikur við hann, enda þótt hann hagnýti sér ekki þekkingu sína. Það nægir að vinir hans viti um gáfur hans. Stærðfræðiheili hans gerir honum einnig kleift að læra utanbókar gríðarlegt magn texta án þess að greina hann neitt nánar. Þetta á að sýna hversu gáfaður Matt Damon er, en gáfur sínar notar hann í myndinni aðeins til að niðurlægja Harvardnema (og þar með næla sér í Minnie Driver) og svo til þess að laumast til að svara flóknum stærðfræðidæmum á töflu í MIT þar sem hann vinnur við skúringar. Stærðfræði er það sem Matt Damon er og orsök allrar hans hamingju. Þó togast á í honum löngunin til að vera „venjulegur“, svo hann hangir með verkamannavinum sínum úr Southie og lendir með þeim í áflogum við aðra lágstéttardrengi.

–S1: Svo gerist það að Matt Damon er uppgötvaður af nóbelsverðlaunahafanum Stellan Skarsgård sem stundar stærðfræði við MIT. En til að fá Matt Damon úr haldi lögreglunnar (fyrir áflog) þarf að fallast á að hann hitti sálfræðing til að hann verði meira eins og fólk á að vera. En Matt Damon hefur ekki í hyggju að vera eins og fólk á að vera; hann vill vera á sínum eigin forsendum. Því niðurlægir hann hvern sálfræðing, geðlækni, sálgreinanda og dávald á fætur öðrum meðan hann iðkar stærðfræði í MIT með Stellan Skarsgård. Þar fylgir eina stærðfræðimontage kvikmyndasögunnar svo ég viti til, sem fær mig til að óska þess að Good Will Hunting hefði heldur verið gerð 1987 svo það hefði getað verið einhver hármetall undir.

Andstæðupar myndarinnar: Mennskan og stærðfræðin
Andstæðupar myndarinnar: Mennskan og stærðfræðin

S2: Þess utan sýnir Matt Damon kærustunni Minnie Driver alþýðlega vini sína Ben Affleck og félaga og alþýðlega bari í Southie, milli þess sem hann gerir lítið úr henni með því að reikna fyrir hana öll heimadæmin hennar úr Harvard. Því meiri stærðfræði sem Matt Damon iðkar því hrokafyllri og ómanneskjulegri verður hann. Stærðfræði er andstæða mennskunnar. Ben Affleck segir Matt Damon að sér þyki ekkert skemmtilegt að keyra hann í vinnuna á morgnana; Matt Damon sé ætlað annað og meira í lífinu en að vinna með Ben Affleck (þetta fattaði Hollywood líka á endanum). Matt Damon heldur að stærðfræði sé markið sem hann skuli stefna að, en í rauninni er honum ætlað að verða betri manneskja. Þannig glatar Matt Damon á einu bretti vinum sínum og Minnie Driver. Stærðfræði er orsök allrar hans óhamingju. Og Minnie Driver er fullkomið aukaatriði í því öllu saman. Það er Ben Affleck sem ýtir Matt Damon á braut mennskunnar.

Matt Damon á mótum stærðfræði og mennsku, en stærðfræðin á eftir að koma upp á milli Minnie Driver og Matts Damon.
Matt Damon á mótum stærðfræði og mennsku, en stærðfræðin á eftir að koma upp á milli Minnie Driver og Matts Damon.

–S2: Robin Williams er sálfræðingurinn sem kemst undir skrápinn á Matt Damon og sýnir honum hvað það er að vera manneskja. Í ljós kemur að þeir Stellan Skarsgård og Robin Williams voru vinir áður en stærðfræðin gerði hann að hrokafullu varmenni. Og nú er ljóst að Stellan Skarsgård misnotar í raun samband sitt við Matt Damon í vofveiflegum stærðfræðilegum tilgangi. En Matt Damon sér við honum og hættir að reikna með honum, skilur Stellan eftir grátandi á skrifstofunni með þá vitneskju að Matt Damon er betri en hann í stærðfræði. Stellan getur ekki skilið stærðfræði eins og Matt Damon. Það er af því Matt Damon hefur líka innsæi manneskjunnar, nokkuð sem hinn kaldi Stellan Skarsgård með sinn fína trefil getur aldrei skilið. Aðrir sem hagnast vilja á stærðfræði Matts Damon er til dæmis hin illa leyniþjónusta NSA, en Matt Damon segir þeim hvert þeir megi troða áhuga sínum. Í lokin færist Matt Damon aftur að hinu hárfína stærðfræðilega jafnvægi í lífinu (S1), en nú með aukna vitneskju um það hvað það þýðir að vera manneskja. Þá vitneskju getur hann ef til vill notað til að vinna Minnie Driver aftur á sitt band, en vinina þarf hann að skilja eftir af því stærðfræði – siðblinda = stéttskipting. Boston er borg stéttskiptingar, haganlega symbólskt klofin í tvennt eftir Charlesánni í háskólaborgina Cambridge og rest, og því þarf Matt Damon að fara annað að leita uppi ástina.

Þessi sena er sönnun þess að höfundar Good Will Hunting vita minna en ég um stærðfræði
Þessi sena er sönnun þess að höfundar Good Will Hunting vita minna en ég um stærðfræði

Í rauninni er Good Will Hunting ekki um annað en þetta: þegar Matt Damon slítur vinskap við Stellan Skarsgård af því hann er betri en hann í stærðfræði, um það þegar Ben Affleck hættir að nenna að skutla Matt Damon í vinnuna af því hann er betri en hann í stærðfræði, um það hvernig Robin Williams er lélegri en flestir í stærðfræði en betri en allir í að vera fólk og að það sé betra að vera góður í að vera fólk en að vera góður í stærðfræði. Inn í þetta fléttast svo þráðurinn um sambandsslit Matts Damon og Minnie Driver sakir þess að hann er betri en hún í stærðfræði en lélegri en hún í að vera fólk. Því þarf Matt Damon að slíta böndin við þá sem halda stærðfræði hans á lofti en hlýða þeim eina sem vill kenna honum að vera fólk – og yfirgefa hann svo líka.

Með enn öðrum orðum fjallar Good Will Hunting um það að ekkert gott getur hlotist af stærðfræði. Það skýrir ef til vill að hluta til hvers vegna stærðfræðikennarinn minn í MR neitaði þráföldum beiðnum okkar nemendanna um að horfa á Good Will Hunting í tíma.