Meistaraverk æskuáranna VII: Good Will Hunting

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi
VI. Gremlins

Alltaf svíkst ég um, ég gæti eins viðurkennt að þessi færsluflokkur fjallar bara um bíómyndir almennt en ekki lauslega skilgreindan flokk bíómynda sem ég ólst upp við. Ég held ég hafi verið kominn í menntaskóla þegar ég sá Good Will Hunting. Það er mynd sem þykist fjalla um ábyrga beitingu þekkingar og það að vera trúr sjálfum sér. Til þess að ná fram þeim áhrifum þarf myndin að beita frásagnarlegu andstæðupari sem í raun kallar á allt aðra merkingu. Ég áttaði mig ekki á því þá en í rauninni stillir Good Will Hunting stærðfræði upp sem andstæðu mennskunnar. Mennskan er það sem skal rækta en stærðfræðin færir fólk fjær mennskunni. Frásagnarformgerð myndarinnar mætti lýsa samkvæmt táknferningi Greimas svona:

greimas-good-will

S1: Good Will Hunting fjallar um Matt Damon sem er svo ofboðslega góður í stærðfræði að lífið leikur við hann, enda þótt hann hagnýti sér ekki þekkingu sína. Það nægir að vinir hans viti um gáfur hans. Stærðfræðiheili hans gerir honum einnig kleift að læra utanbókar gríðarlegt magn texta án þess að greina hann neitt nánar. Þetta á að sýna hversu gáfaður Matt Damon er, en gáfur sínar notar hann í myndinni aðeins til að niðurlægja Harvardnema (og þar með næla sér í Minnie Driver) og svo til þess að laumast til að svara flóknum stærðfræðidæmum á töflu í MIT þar sem hann vinnur við skúringar. Stærðfræði er það sem Matt Damon er og orsök allrar hans hamingju. Þó togast á í honum löngunin til að vera „venjulegur“, svo hann hangir með verkamannavinum sínum úr Southie og lendir með þeim í áflogum við aðra lágstéttardrengi.

–S1: Svo gerist það að Matt Damon er uppgötvaður af nóbelsverðlaunahafanum Stellan Skarsgård sem stundar stærðfræði við MIT. En til að fá Matt Damon úr haldi lögreglunnar (fyrir áflog) þarf að fallast á að hann hitti sálfræðing til að hann verði meira eins og fólk á að vera. En Matt Damon hefur ekki í hyggju að vera eins og fólk á að vera; hann vill vera á sínum eigin forsendum. Því niðurlægir hann hvern sálfræðing, geðlækni, sálgreinanda og dávald á fætur öðrum meðan hann iðkar stærðfræði í MIT með Stellan Skarsgård. Þar fylgir eina stærðfræðimontage kvikmyndasögunnar svo ég viti til, sem fær mig til að óska þess að Good Will Hunting hefði heldur verið gerð 1987 svo það hefði getað verið einhver hármetall undir.

Andstæðupar myndarinnar: Mennskan og stærðfræðin
Andstæðupar myndarinnar: Mennskan og stærðfræðin

S2: Þess utan sýnir Matt Damon kærustunni Minnie Driver alþýðlega vini sína Ben Affleck og félaga og alþýðlega bari í Southie, milli þess sem hann gerir lítið úr henni með því að reikna fyrir hana öll heimadæmin hennar úr Harvard. Því meiri stærðfræði sem Matt Damon iðkar því hrokafyllri og ómanneskjulegri verður hann. Stærðfræði er andstæða mennskunnar. Ben Affleck segir Matt Damon að sér þyki ekkert skemmtilegt að keyra hann í vinnuna á morgnana; Matt Damon sé ætlað annað og meira í lífinu en að vinna með Ben Affleck (þetta fattaði Hollywood líka á endanum). Matt Damon heldur að stærðfræði sé markið sem hann skuli stefna að, en í rauninni er honum ætlað að verða betri manneskja. Þannig glatar Matt Damon á einu bretti vinum sínum og Minnie Driver. Stærðfræði er orsök allrar hans óhamingju. Og Minnie Driver er fullkomið aukaatriði í því öllu saman. Það er Ben Affleck sem ýtir Matt Damon á braut mennskunnar.

Matt Damon á mótum stærðfræði og mennsku, en stærðfræðin á eftir að koma upp á milli Minnie Driver og Matts Damon.
Matt Damon á mótum stærðfræði og mennsku, en stærðfræðin á eftir að koma upp á milli Minnie Driver og Matts Damon.

–S2: Robin Williams er sálfræðingurinn sem kemst undir skrápinn á Matt Damon og sýnir honum hvað það er að vera manneskja. Í ljós kemur að þeir Stellan Skarsgård og Robin Williams voru vinir áður en stærðfræðin gerði hann að hrokafullu varmenni. Og nú er ljóst að Stellan Skarsgård misnotar í raun samband sitt við Matt Damon í vofveiflegum stærðfræðilegum tilgangi. En Matt Damon sér við honum og hættir að reikna með honum, skilur Stellan eftir grátandi á skrifstofunni með þá vitneskju að Matt Damon er betri en hann í stærðfræði. Stellan getur ekki skilið stærðfræði eins og Matt Damon. Það er af því Matt Damon hefur líka innsæi manneskjunnar, nokkuð sem hinn kaldi Stellan Skarsgård með sinn fína trefil getur aldrei skilið. Aðrir sem hagnast vilja á stærðfræði Matts Damon er til dæmis hin illa leyniþjónusta NSA, en Matt Damon segir þeim hvert þeir megi troða áhuga sínum. Í lokin færist Matt Damon aftur að hinu hárfína stærðfræðilega jafnvægi í lífinu (S1), en nú með aukna vitneskju um það hvað það þýðir að vera manneskja. Þá vitneskju getur hann ef til vill notað til að vinna Minnie Driver aftur á sitt band, en vinina þarf hann að skilja eftir af því stærðfræði – siðblinda = stéttskipting. Boston er borg stéttskiptingar, haganlega symbólskt klofin í tvennt eftir Charlesánni í háskólaborgina Cambridge og rest, og því þarf Matt Damon að fara annað að leita uppi ástina.

Þessi sena er sönnun þess að höfundar Good Will Hunting vita minna en ég um stærðfræði
Þessi sena er sönnun þess að höfundar Good Will Hunting vita minna en ég um stærðfræði

Í rauninni er Good Will Hunting ekki um annað en þetta: þegar Matt Damon slítur vinskap við Stellan Skarsgård af því hann er betri en hann í stærðfræði, um það þegar Ben Affleck hættir að nenna að skutla Matt Damon í vinnuna af því hann er betri en hann í stærðfræði, um það hvernig Robin Williams er lélegri en flestir í stærðfræði en betri en allir í að vera fólk og að það sé betra að vera góður í að vera fólk en að vera góður í stærðfræði. Inn í þetta fléttast svo þráðurinn um sambandsslit Matts Damon og Minnie Driver sakir þess að hann er betri en hún í stærðfræði en lélegri en hún í að vera fólk. Því þarf Matt Damon að slíta böndin við þá sem halda stærðfræði hans á lofti en hlýða þeim eina sem vill kenna honum að vera fólk – og yfirgefa hann svo líka.

Með enn öðrum orðum fjallar Good Will Hunting um það að ekkert gott getur hlotist af stærðfræði. Það skýrir ef til vill að hluta til hvers vegna stærðfræðikennarinn minn í MR neitaði þráföldum beiðnum okkar nemendanna um að horfa á Good Will Hunting í tíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *