Hvenær drepur maður ekki mann? American Psycho og framhald hennar

Ég fór mjög geist í lokasprettinum á doktorsritgerðarskrifunum svo ég hef ekki haft mikla orku til menningarrýni síðan í apríl. Núna langar mig að bæta úr þessu og fjalla sömuleiðis meira um bækur. Hingað til hef ég helst nennt að blogga um kvikmyndir og það verður sömuleiðis gert hér þótt efniviður myndanna sem skoða skyldi sé skáldsaga Brets Easton Ellis, American Psycho, sem ég hef ekki lesið.

Titill sögunnar er afar lýsandi fyrir efniviðinn. Hún gerist í New York á níunda áratugnum og fjallar um uppa innan við þrítugt, Patrick Bateman, sem vinnur við eitthvað óljóst — sennilega viðskipti. Hann hefur ekki unnið sér inn fyrir starfinu, heldur hefur hann fæðst til þess. Hið sama gildir um alla kollega hans. Í raun og veru gerir hann ekkert í vinnunni. Vinnan felst í að sitja við skrifborð í klæðskerasniðnum jakkafötum og þykjast vera mikilvægur. Áhorfandinn fær þegar að vita að honum þykir þetta allt innantómt. Allir í kringum hann eru nákvæmlega eins og hann, fullir af yfirborðshluttekningu hver með öðrum, svo snobbaðir að lífið snýst um hver fær borð á hvaða veitingastað og hver á flottasta nafnspjaldið.

Það sem er einna helst áberandi er fullkomið sinnuleysi allra í garð hver annars. Allir þykjast þekkjast, en persónur myndarinnar fara tíðum mannavillt af því þeir þekkja hver annan ekki í sjón. Þannig nær Bateman færi á vinnufélaga sínum Paul Allen sem heldur að hann sé annar vinnufélagi sinn, Halberstram. Bateman myrðir Allen, að því er virðist af öfund, og það sem eftir lifir myndar myrðir hann enn fleiri. Í lokin játar hann allt saman en vinnufélagarnir hlæja að honum. Þegar Bateman segist hafa myrt Paul Allen segir annar vinnufélagi að það geti ekki verið því hann hafi borðað með Allen í London nokkrum dögum fyrr.

Hérna liggur galdurinn. Í myndinni er nefnilega alveg óljóst hvort Bateman hefur yfirleitt drepið nokkurn og það má skilja myndina á hvorn veginn sem er. Sá kvittur barst mér í eyru eftir að ég hafði séð myndina í bíó á sínum tíma að í bókinni væri alveg ljóst að Bateman hefði engan myrt, þetta hefði allt verið ímyndun. Og flestir vinir mínir hafa viljað túlka myndina þannig sömuleiðis. Mér finnst það bara ekkert skemmtileg túlkun svo ég fór að kanna málið og það kemur í ljós að þessi endalok eru sömuleiðis opin í bókinni. Þá hefur Ellis skrifað fleiri bækur þar sem Bateman kemur við sögu þar sem sömuleiðis er gefið í skyn að hann sé fjöldamorðingi. Og er þetta ekki fullkominn endir? Bateman myrðir Paul Allen en það er ekki tekið mark á því, af því einhver sem þekkir heldur ekki vinnufélaga sína í sundur heldur sig hafa borðað með honum í London. Að lokum skipta örlög Allens engu máli, því þessir menn sinna engum raunverulegum skyldum öðrum en að troða í sig mat og áfengi, bera saman nafnspjöld og þykjast þekkja hverjir aðra. Þannig eru þeir allir amerískir sýkópatar, allir jafn siðblindir og veruleikafirrtir.

Svo kom reyndar út kvikmynd, sem hægt er að taka mark á eða ekki eftir behag, sem gjörbreytir söguheimi myndarinnar. Hægt væri að hafna alveg gildi American Psycho 2 fyrir fyrri myndina. Það hafa bæði Bret Easton Ellis gert og aðalleikkonan Mila Kunis, sem segir að upphaflega hafi þetta átt að vera allt önnur mynd en svo hafi handritinu verið breytt í miðjum tökum. Það sést líka langar leiðir að myndirnar eru fullkomlega óskyldar fyrir utan viðbótina um Patrick Bateman. American Psycho 2 er nefnilega hefðbundin unglingaslógmynd í anda Urban Legend og annarra slíkra mynda sem einkum fjalla um kynlíf og slægða unglinga, en fyrri myndin er töluvert langt frá þeirri stemningu. Sjálfur hef ég nú samt sem áður það prinsíp að sé William Shatner í kvikmynd, þá sé hún kanóna. Svo er leikstjóri myndarinnar Morgan J. Freeman, sem hljómar næstum því eins og annar fremur virðulegur náungi, svo það gefur myndinni aukið gravitas. Svo við skulum taka mark á myndinni.

Í American Psycho 2 er það ljóst frá upphafi að Patrick Bateman er einn þekktasti fjöldamorðingi sögunnar og að aðalpersónan, Rachael Newman, var eitt verðandi fórnarlamba hans þar til hún tók málin í eigin hendur og drap hann. Í kjölfarið ákveður hún að gerast fjöldamorðingjamorðingi og að besti farvegur þeirrar lífsköllunar sé hjá FBI. Við fyrstu sýn eru margir gallar á þessari ráðagerð, en myndinni er alveg sama. Rachael sækir nám í Western Washington University þar sem fyrrum FBI-kempan William Shatner kennir handahófskenndar upplýsingar um fjöldamorðingja. Allir nemendur hans vilja fá að verða aðstoðarkennari hans næsta misseri, því það að verða aðstoðarkennari Williams Shatner jafngildir því að fá að fara í FBI-skólann í Quantico (allir sem þekkja til háskóla vita hverslags þvæla það er, og persóna Shatners í myndinni furðar sig einmitt á því að nemendur haldi að það að vera aðstoðarkennari sinn komi þeim á einhverja framabraut). Rachael drepur því helstu keppinauta sína um hina eftirsóttu stöðu. Einn þeirra kyrkir hún með smokki eftir að hafa ginnt hann í herbergi sitt undir yfirskini um öllu hefðbundnari notkun getnaðarvarna.

Þetta er auðvitað hlaðið alls konar merkingu. Það sem hefði farið utan um harðan lim hans er hið lina sem drepur hann, svo stungið er upp á táknrænni vönun; hann fær heldur ekki hin holdlegu kynni sem hann sóttist eftir. Þá er þetta ábending um að myndin sé meðvituð um stöðu sína meðal slógmynda sem mjög eru uppteknar af kynlífi og vönun. Aðra karla drepur hún með penetrasjón: samnemanda með ísnál í hnakkann (rétt eins og Bateman), ræstingakarl myrðir hún með kústskafti upp í munn og út um hnakka, sem er ekki smuga að framkvæma í alvörunni. Og undir öllum þessum morðum er svo kankvís og glaðleg tónlist að það verður óbærilegt. Er þetta gamanmynd? Ég hallast að því.

Síðan drepur hún William Shatner ooog … hérna virðist ráðagerðin öll vera farin út um gluggann, bókstaflega, því William Shatner dettur út um glugga. William Shatner virðist með öllu ófært að deyja virðulega í kvikmyndum. Hann hafði lifað ótal Star Trek myndir áður en hann varð undir stillansa. Hvað um það, Rachael drepur svo bara aðstoðarkennarann hans og þykist vera hún. Og kemst upp með það. Og fer til Quantico. Myndin búin. Ég hef ekki haft fyrir því að nefna sálfræðinginn einu sinni, því ef hann er klipptur úr myndinni þá breytist framvinda hennar ekki neitt.

Það er engin fágun yfir þessu. Öllu er slengt framan í áhorfandann eins og dauðum skunki og hin óvæntu sögulok eru hvorki óvænt né sögulok. Það er engin saga. American Psycho 2 virðist helst tjá þá hugmynd að of efnaðir háskólanemar séu óttalegt pakk (má e.t.v. til sanns vegar færa) og að fjöldamorðingjum sé ekki treystandi til að myrða eingöngu til góðs. American Psycho er á hinn bóginn afskaplega fáguð athugun á ýmsum sviðum mannlegs samfélags. Hún fjallar um stéttskiptingu, firringu hinna efnaðri, ójöfn valdahlutföll þar sem hinir útvöldu geta framið hvers konar myrkraverk án afleiðinga í krafti stöðu sinnar, en þótt hún sýni þann heim frá sjónarhóli innherja þá er myndin sem dregin er upp svo framandi áhorfandanum að sjónarhornið er samt sem áður upp og utan frá. Þannig dregur hún áhorfandann inn í óhugnanlegan heim þar sem fólki er meira annt um nafnspjöld en annað fólk, veit ekki hvað annað fólk heitir, skilur ekki mannleg samskipti. Hin ráðandi stétt er afmennskuð á sama tíma og fulltrúi hennar, Bateman, afmennskar þá sem eru undir hann settir og ryður öðrum úr vegi — án nokkurra afleiðinga.

Athafnir Batemans eru táknrænar fyrir þá viðskiptahætti sem hann myndi stunda ef hann raunverulega sinnti starfinu sínu. Ef hann væri ekki bókstaflegur morðingi, þá væri hann það óbeint. Hvenær myrðir þá Bateman mann og hvenær ekki? Það er hvers og eins að svara. En forðumst fyrir alla muni þá hugmynd að aðeins sé eitt svar við þeirri spurningu.