Blackface í Jungle Book?

Sumt er svo augljóst að það er ómögulegt annað en að fullt af fólki hafi komið það til hugar á undan manni sjálfum. Það vill þó óneitanlega flækja málin að sumt sem virðist augljóst er alls ekki rétt, eða í besta falli umdeilanlegt. Þannig kom mér í hug fyrir nokkru, þegar ég rifjaði upp það sem að mínu mati er besta kvikmyndaatriði allra tíma, að ábyggilega væri til fullt af fólki sem vildi túlka það á versta veg. Atriðið sem um ræðir er söngatriðið í höll apakóngsins í Jungle Book, nánar tiltekið þegar bangsinn Balú æðir inn í apadulargervi til að bjarga Móglí. Tengingin er sú að apar eru augljóslega staðgengill svartra í dýraheiminum eins og dæmin sanna, og þegar bjarndýr setur upp apagrímu úr kókoshnetu hlýtur það að vera táknrænt blackface.

Og viti menn: auðvitað fann ég snarlega greinarkorn um nákvæmlega þetta. Greiningin hangir raunar á einni forsendu: „While the animation of monkeys would clearly not be racist, specifically representing those monkeys as African American puts the innocence of intentions a little more into question.“ Apar eru semsagt ekki nauðsynlega svartir, en þessir apar eru látnir líkja eftir talshætti og menningu svartra í Bandaríkjum þess tíma (1967). En hvernig stenst greiningin forsenduna?

Höldum áfram á braut hins augljósa: Apakóngurinn heitir Louie, eins og frægur svartur tónlistarmaður, getur beitt höndunum eins og trompet, sem er einkennishljóðfæri sama tónlistarmanns, og ennfremur hafði sú hugmynd komið upp að sjálfur Louis Armstrong yrði beðinn um að talsetja apakónginn. Það var þó fljótlega slegið út af borðinu af ótta við að það yrði gagnrýnt að svartur maður yrði látinn leika apa. Í hans stað gerðist hinn skjannahvíti, ítalskættaði söngvari Louis Prima apakóngur í þágu barnamenningar. Apinn hélt nafninu í hvoru tilvikinu sem var en hann er teiknaður í líking Prima. Prima var engu síðri trompetleikari og djassgeggjari en Armstrong, báðir voru þeir frá New Orleans og Prima meira að segja sótti ein sín fyrstu tónlistaráhrif til Armstrong. Tónlistin í höll apakóngsins endurspeglar með öðrum orðum sömu menningu hvort sem hann sjálfur er svartur eða hvítur. En það varð ofan á að apinn er hvítur.

Greinarhöfundur gerir sér raunar mat úr því að Louie apakóngur sé talsettur af hvítum manni, því það sé eitt að setja á svið slíkar kynþáttabundnar staðalmyndir en jafnvel enn verra sé að láta þá hvítan mann talsetja þær. Það er gilt sjónarmið, en það er þá og því aðeins gilt að staðalmyndin sé til staðar.

Þrír aðrir apar eiga sér rödd í myndinni og allir koma þeir fyrir í sama atriði. Þeir voru annars vegar talsettir af félögunum Pete Henderson og Bill Skiles, sem báðir voru hvítir, og svo af Hal Smith sem einnig talsetur einn fílinn í myndinni, en hann var sömuleiðis hvítur. Það er því ekki einn svartur leikari í hlutverki apa í myndinni (á þeim tíma hefði Disney semsagt verið gagnrýnt fyrir það sem það er nú gagnrýnt fyrir að hafa ekki gert, fyrst það á annað borð urðu að vera apar). Aparnir eru sömuleiðis flestir með sömu George Harrison hárgreiðsluna og falla almennt illa að karikatúr sem sýnir svarta í gervi apa (hrægammarnir sem síðar koma eru með nokkurn veginn sömu hárgreiðslu, og það var ætlunin að sjálfir Bítlarnir talsettu þá). Swingdans þeirra sem slíkur á sér vissulega rætur í svartri menningu, en á sjöunda áratugnum endurspeglar hann ekkert frekar svarta menningu en hvíta þar sem þessi dans var áratugum á undan orðinn almennur. Þessi tenging milli apanna í Jungle Book og svartra er þannig ekki útilokuð, en hún er að minnsta kosti ekki augljós.

Tengingin milli apa og svartra er samt svo augljós í vestrænni menningu að það er ekkert óeðlilegt þótt fólk á öðrum áratug 21. aldar hugsi strax um blackface þegar það sér Balú dansandi og syngjandi eins og fífl í apabúningi. Þvert á móti ber það vott um nauðsynlega færni til menningarlæsis í heimi þar sem kynþáttabundnar staðalmyndir eru oft lúmskar og flóknar. En manni fyrirgæfist sömuleiðis fyrir að halda að það hafi helst vakað fyrir Disney að fá tengingu við hinn óviðjafnanlega Louisianadjass inn í myndina frekar en að ala á staðalmyndum um svarta, gera þá að öpum og niðra þá svo með blackface. Það þarf að gæta að því sömuleiðis að þótt Louie apakóngur sé valdasjúkur og þannig á meðal neikvæðari persóna myndarinnar, þá er hann ekki beint vondur heldur, og aparnir almennt eru ekki sýndir í neikvæðu ljósi. Þeir líkjast að mörgu leyti Móglí og Balú sem helst hafa það lífsmarkmið að syngja og skemmta sér, en það er valdagræðgi kóngsins sem gerir þeim óvært að dvelja meðal þeirra. Hér mætti á móti benda á hina sígildu amerísku staðalmynd að svartir séu húðlatir, en sami björn og klæðist apabúningi hefur skömmu áður sungið heilmikinn lofsöng um gildi letinnar, svo innra samræmi skortir ef það er tilfellið.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Louie apakóngur valdapersóna innan frásagnarinnar. Það er aðeins í stærra samhengi, utan sögunnar sjálfrar, sem má líta á hann sem undirokaðan; þá ekki í dýraheiminum heldur gagnvart mannheimum. Hann vill að Móglí gerist sinn Prómeþeifur og færi sér eldinn að vopni, svo hann geti gert sig gildandi meðal manna, staðið uppréttur, talað eins og þeir. Um það snýst allt tónlistaratriðið. Það er þarna sem greiningin sækir allt sitt púður: Aparnir eru eins og minni menn, ekki viðurkenndir sem menn; aparnir endurspegla stöðu svartra.

Þessi rök eru ágæt en því er ósvarað hvers vegna sama kvikmynd myndi draga upp mynd af félagslegri stöðu hins undirokaða, vekja samúð með og gera lítið úr honum um leið. Hvað þá um að okkur eigi að skiljast að api eigi ekkert erindi í mannheima, að löngun hans í eld sé aðeins hybris, en hinn dulkóðaði api merki í raun hinn svarta mann? Þetta er ekki útilokað, en því fer fjarri miðað heimildir að þetta hafi vakað fyrir þeim sem gerðu myndina. En er þetta upplifun fólks af myndinni? Styrkir þessi sena staðalmyndir sumra áhorfenda um svarta? Það gæti vel verið. Eftir sem áður er ekki mikill fótur fyrir því að túlka senuna þannig, óháð því hvaða menningarlegu skírskotanir við viljum heimfæra upp á hana, því einu rökin fyrir því að aparnir séu svartir er í raun sú staðreynd að þeir eru apar. Það eru ekki góð rök.

Hugmyndin er með öðrum orðum ekki alveg galin en greiningin er jafnveik og forsendan. Nú á dögum þykir í öllum tilfellum afkáralegt og niðrandi að klæðast dulargervi sem tákna á einhvern hóp sem maður ekki tilheyrir, og að því leyti má alveg hugsa sér fimmtíu árum síðar að það hafi ekki verið voða pc að sýna björn í apabúningi, síst af öllu þegar Disney vissi fullvel að fólk myndi tengja apa við svarta. En ef það er ekkert sem bendir til að aparnir hafi átt að endurspegla svarta á nokkurn hátt – fremur, eins og allt virðist benda til, að það hafi verið forðast með öllum tiltækum ráðum – er þá hægt að segja að Balú í apagervi sé blackface? Varla. Ómeðvitað, þrátt fyrir að Disney hafi gætt sín vandlega á að gerast ekki sek um nákvæmlega það sem þeim er nú núið um nasir fyrir? Kannski. En í þessu tilviki er greining byggð á augljósum forsendum heldur þunn, því hið augljósa er ekki alltaf eins augljóst og maður gæti haldið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *