Wilhelma á ný

Fyrsti dagur í sumarfríi byrjaði vel – sofið út, eða svoleiðis, sú snögga kom inn til okkar korter yfir sjö!  Allir komnir á fætur fyrir átta til að vera tilbúnir í dýragarðinn.  Við náðum hálf tíu lestinni, skildum bóndann eftir heima í vinnunni og fórum á vit ævintýranna.

Dagurinn var fallegur og góður – látum myndirnar tala sínu máli.

Fyrir utan eitt atvik sem ekki var fest á filmu – við fórum inn til geitanna, þar má klappa þeim og gefa fóðurköggla sem maður kaupir í þar til gerðum sjálfsala.  Frúin gerði það og geiturnar hópuðust í kringum græjuna, þar sem hún var komin með fulla lúku og umkringd geitum hófu yngri börnin tvö upp harmakvein mikið.

Sá skapmikli var hræddur og sú snögga hafði verið stönguð í afturendann (sennilegast meira hnoð en stönguð) og þá voru góð ráð dýr – losa sig við fóðrið til að geta huggað börnin og losnað við geiturnar.  Allt gekk það upp, sú snögga var þó mun lengur að ná sér, en litli bróðir strauk henni um arminn og tautaði, „allt í lagi, þau eru góð“ aftur og aftur á milli þess sem hann sagði móður sinni að það væri í lagi með hann sjálfan og þetta væri gaman.

Bodensee á morgun, margt að sjá þar.  Næsta blogg á sunnudag eða mánudag, hafið það gott um verslunarmannahelgina.

Jólatréð komið í hús

… eða alla vega út á pall.  En byrjum á byrjuninni.  Á mánudaginn var kom sú sveimhuga heim með umsögn og var hún öll hin besta, framúrskarandi nemandi á alla lund.  Eftir hádegið skruppum við í heimsókn í nálægan bæ, Holzgerlingen.  Þar býr fyrrverandi nágranni minn úr Borgarnesi með amrískum eiginmanni og þremur sonum.  Til að gera langa sögu stutta, eyddum við öllum eftirmiðdeginum þar í góðu yfirlæti og loforð um að hittast sem fyrst aftur var það síðasta sem okkur fór á milli.  Krakkarnir skemmtu sér öll konunglega og verður þetta endurtekið áður en langt um líður.  Myndavélin fór því miður ekki með í ferðina.

Í gær voru steiktar um 60 pönnukökur og svo farið í bæinn.  Frúin og krakkarnir röltu örlítið um, keyptu sængurgjöf sem fer til lítillar stúlku í Kanada og enduðu á leikvellinum í Grasagarðinum gamla.  Bóndinn kom þangað og við gengum svo heim til Siggu til að hjálpa henni að hreinsa út úr íbúðinni, þaðan fórum við tveimur stólum, einum lampa og jólatré ríkari – auk nokkurra annarra smærri hluta.

Í dag var stór dagur hjá systrum, síðasti leik- og skóladagurinn og báðar að kveðja skólana sína.  Þær fóru með pönnsur með sér, hjá þeirri snöggu var haldin kveðjuhátíð, hún fékk ámálaðan bol, „Schultüte“ og alla sína pappíra með sér.  Hátíð þeirrar sveimhuga var haldin í garði eins bekkjarbróður hennar, nokkrar mæður mættu með kökur og kruðerí, þar voru kanínur í búri og mikið gaman.  Í skólanum var fjórðubekkingum hent út úr skólanum, kennarar og foreldrar mynduðu keðju við aðaldyrnar og hentu nemendum á milli sín út á dýnu þar fyrir utan.  Þar með lauk skólagöngu þeirra krakka í Hügelschule.

Eftir hádegið komu amerísku stelpurnar í heimsókn, það var sullað á pallinum.  Mamma þeirra kom og við sátum og skröfuðum um heima og geyma.  Eftir að bóndinn kom heim var kvöldmaturinn undirbúinn, Schwebíska kartöflusalatið tókst býsna vel.  Maðurinn hennar kom svo upp úr klukkan sex og við fórum að borða.  Fullorðna fólkið sat úti fram yfir klukkan tíu og skemmti sér konunglega.  Fyrr um kvöldið kom stúdína út og kvartaði yfir því að krakkarnir væru með hávaða og hún gæti ekki lært, svo þau settust fyrir framan sjónvarpið og horfðu á Mamma Mía.  Kvöldið var yndælt – þau fara heim eftir þrjár vikur.

Á morgun er það ferð til Wilhelma í Stuttgart, frúin og krakkarnir, á föstudaginn er ferðinni heitið að Bodensee í útilegu fram á sunnudag.

Schönbuch og afmælismyndir

Lagt af stað í leiðangur.
Lagt af stað í leiðangur.
Við rákumst á tómstundagaman einhvers skógarhöggsmannsins sem hefur augljóslega haft fjölskyldu okkar í huga þegar hann skar út frúna, bóndann, þá sveimhuga, snöggu og þann skapmikla úr feiknastórum trjábol - í líki villisvína!
Við rákumst á tómstundagaman einhvers skógarhöggsmannsins sem hefur augljóslega haft fjölskyldu okkar í huga þegar hann skar út frúna, bóndann, þá sveimhuga, snöggu og þann skapmikla úr feiknastórum trjábol - í líki villisvína!
Tordýflar í hrossaskít taldir ...
Tordýflar í hrossaskít taldir ...
og þeirri sveimhuga taldist að þeir væru hátt í fjörtíu!
og þeirri sveimhuga taldist að þeir væru hátt í fjörtíu!
Afmælisgestir í leik úti á palli.
Afmælisgestir í leik úti á palli.
Afmælisbarn/húsfreyja og gestir við myndarlegt hlaðborð.
Afmælisbarn/húsfreyja og gestir við myndarlegt hlaðborð.
Gestir úti á palli í miðri Tübingen.
Gestir úti á palli í miðri Tübingen.

Schönbuch og afmæli

Rólegheita dagur framan af – spjallað við frænkur, frænda, ömmur og afa á skype, krakkar léku sér fram eftir, skúffukaka bökuð og svo lagt af stað í gönguferð um Schönbuch.  Gengið stóran hring héðan að heiman með nesti í tösku og svo heim aftur framhjá bóndabænum.

Þegar heim var komið voru allir drifnir í sparigalla og niður í bæ, með kökuna, þar sem við vorum boðin í sextugsafmæli til Siggu, en hún fer heim til Íslands í næstu viku.  Þar enduðum við á söng áður en heim var haldið beint í bólið.

Góð og róleg helgi að baki – framundan eru síðustu þrír skóladagar systra og svo hefst langþráð sex vikna sumarfrí með endalausum uppákomum, eða svo til.

Villisvín

Sú sveimhuga með bekkjarsystrum sínum, frúin og sá skapmikli í baksýn.
Sú sveimhuga með bekkjarsystrum sínum, frúin og sá skapmikli í baksýn.
Nokkur villisvín - og sú snögga.
Nokkur villisvín - og sú snögga.
Séð yfir klaustrið í Bebenhausen.
Séð yfir klaustrið í Bebenhausen.
Myndasmiðurinn (bóndinn) hélt því fram að krakkanir hefðu hreyft sig of hratt fyrir myndavélina.
Myndasmiðurinn (bóndinn) hélt því fram að krakkanir hefðu hreyft sig of hratt fyrir myndavélina.
Krakkarnir og frú Forbrich að syngja fyrir foreldrana.
Krakkarnir og frú Forbrich að syngja fyrir foreldrana.

Fimleikar og sumarhátíð

Í gærmorgun fór bóndinn snemma með sá snöggu í leikskólann því sú sveimhuga mætir seint á föstudögum.  Í morgunsárið komu líka tveir iðnaðarmenn til að laga rimlahlerana okkar, stöngin í stelpnaherberginu brotnaði af í lok maí.  Þeir skrúfuðu eitt stykki úr, kíktu á gluggann á baðherberginu og sögðust hringja síðar.  Svo mikið fyrir þá viðgerð.

Sú sveimhuga fór í skólann, frúin og sá skapmikli í búðarráp, keyptu strigaskó og leituðu að fjölskyldutjaldi – án árangurs.  Eftir hádegið voru fimleikar, á meðan þær skemmtu sér fórum við hin í bæjargöngu, heklunál númer 7 fannst eftir mjög mikla leit.

Eftir heimkomu var hjólað upp að bóndabæ, bjórkassa skilað þangað og svo horft á Önnu í Grænuhlíð í sjónvarpinu.

Í morgun var loksins komið að sumarhátíð þeirrar sveimhuga, hún var haldin fyrir utan Bebenhausen, bílunum var lagt fyrir norðan bæinn og svo gengið um Narturpark Schönbuch, snemma á göngunni komum við að girðingu þar sem villisvín voru haldin og skoðuð.  Eftir það var gengið í rúman klukkutíma áður en við komum að rjóðrinu með eldstæðinu.  Krakkarnir léku sér í læknum og gerðu báta.  Pylsur og sykurpúðar voru grillaðir og kennarinn kvaddur með pompi og prakt áður en gengið var aftur heimleiðis.  Bóndinn og stelpurnar gengu upp fjallið langleiðina heim, en sá skapmikli sofnaði í kerrunni og fór með frúnni í bílnum heim.  Göngugarparnir voru teknir upp í við bóndabæinn uppi á hæðinni.

Skyndiákvörðun var tekin um að skreppa í Rúmfatalagerinn, frúin vissi nokkurn vegin hvar í Pfullingen hann átti að vera – þar fannst fjölskyldutjald, dýnur og ódýrir svefnpokar fyrir hjónin, svo nú erum við sett fyrir útilegur.  Reynt verður á búnaðinn á næstu vikum.

Undir kvöldið var stefnan tekin á miðbæinn þar sem við fórum út að borða á Taj Palace, inversk/ítalskan veitingastað sem er kjörinn fyrir fjölskyldur – krakkarnir fengu pasta á meðan við fengum ekta indverskan mat.  Ljúffengt.

Tásur og múffur

Hádegisverður snæddur í miðri göngu.
Hádegisverður snæddur í miðri göngu.
Haldið áfram eftir matinn.
Haldið áfram eftir matinn.
Að lokum voru fætur þvegnir og skrúbbaðir.
Að lokum voru fætur þvegnir og skrúbbaðir.

Kastalinn Hohenzollern sem við fórum ekki upp að.
Kastalinn Hohenzollern sem við fórum ekki upp að.
Við fórum hins vegar upp að þessum turni sem er svolítið fyrir neðan kastalann.
Við fórum hins vegar upp að þessum turni sem er svolítið fyrir neðan kastalann.
Múffur og mynd.
Múffur og mynd.
Þrílitt góðgæti, gult, brúnt og bleikt.
Þrílitt góðgæti, gult, brúnt og bleikt.

Uppskriftin að múffunum var að hluta til fengin í gegnum Facebook og að hluta upp úr frúnni – tókst ágætlega.