Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Gleðilegt ár – á Íslandi (varúð – lööööng færsla)

Á miðvikudegi lagaðist vaskurinn – mikið hvað það getur glatt mann að geta vaskað upp í vaski!  Seinnipartinn tókum við lest til Reutlingen þar sem við fórum að sjá Jólasirkus með fyrrverandi nágrannanum og fjölskyldu.  Stelpurnar fengu að sitja á kameldýrum, en sá skapmikli hætti ekki á að sitja á dýri sem gæti spýtt á hann.  Þegar sirkusinn var búinn fóru þau þó öll á fílsbak.  Allir skemmtu sér ljómandi vel og var trúðurinn ekki minnsta ástæðan fyrir því.

Á fimmtudegi fórum við niður í bæ og röltum þar um og skiptum þeim jólagjöfum sem þurfti og enduðum svo á Bella Roma með sænsk/þýsk/ítölsku kunningjafjölskyldunni okkar.  Áttum við þar yndælis stund saman.

Á föstudegi var slakað á fram eftir degi og Maultaschen borðað í síðasta skiptið í þessari dvöl – maturinn var með fyrra fallinu því vinnufélagar bóndans voru heimsóttir um það leiti sem hátíðin gekk í garð.  Þar vorum við í góðum félagsskap, spiluðum morðingja og fleiri leiki með börnunum og skutum upp flugeldum öðru hvoru.  Við tókum strætó heim um kl. 1 og vorum heppin að fá sæti, því hann var fullur – voru börnin mjög misjafnlega vakandi þegar heim var komið.

Á nýjársdag var klárað að pakka því sem eftir var, viktað og endurraðað, fyrrverandi nágrannin kom með fjölskylduna til að kveðja.

Að morgni 2. janúar fóru síðurstu hlutirnir niður, sængur og koddar og fórum við út úr húsi um hádegið.  Tókum strætó pinklum hlaðin og fengum aðstoð við að koma öllu bæði inn í bílinn og inn á lestarstöðina niðri í bæ.  Við þurftun að skipta um lest í Stuttgart og taka aðra þaðan beint á flugstöðina í Frankfurt.  Við komumst um borð – með aðstoð og út úr lestinni aftur í Stuttgart, þar var smá bið eftir næstu lest.  Þegar hún átti að renna inn á stöðina kom í ljós að þessi ferð hafði verið felld niður!

Því voru góð ráð dýr – eftirgrennslan leiddi í ljós að best væri að hlaupa yfir 6 brautarpalla og komast í lest til Mannheim og skipta þar – að hlaupa á milli brautarpalla með 17 pinkla og 3 börn er ekki létt! Þegar við komum að lestinni var skellt í lás því allt var fullt.  Næsta plan var að taka lest sem færi í gegnum Frankfurt flugvöllinn á leið eitthvert norðar – en svo kom í ljós að hún var svo full að ekki nema þeir sem áttu bókað sæti komust í hana. Lokamöguleikinn var að taka lest á aðallestarstöðina í Frankfurt og skipta þar – eftir töluverðan troðning komumst við inn á gang þar – börnin settust á nokkra pinkla og við hjónin stóðum.

Í hátalarakerfinu var tilkynnt að lestin væri 200% setin, þar sem teknir höfðu verið farþegar úr þremur öðrum lestum!  (Okkur flaug í hug fréttir frá Filipseyjum þegar 100 manna ferjur sökkva með 300 farþegum). Þegar leiðin var ríflega hálfnum fækkaði í vagninum okkar og börnin komust í sæti og hluti farangurs á þar til gerða staði.  Í Frankfurt voru allar farangursgrindur uppteknar svo hlaðið var á alla handleggi og axlir og dröslast á milli palla.

Loksins komumst við þó á flugvöllinn, ríflega 2 tímum á eftir áætlun.  Við áttum bókað herbergi í klúbbhluta Sheraton með sér afgreiðslu á 9. hæð – við þangað upp til þess að koma þangað að læstum dyrum!  Aftur rúllað niður og í almennu afgreiðsluna – hótelið er í endurnýjun og álman sem við áttum pantað á var lokuð!  Við fengum þó herbergi á því verði sem við höfðum bókað – þó þau ættu að kosta ríflega helmingi meira – og öll þau fríðindi sem áttu að fylgja.

Börnin voru himinlifandi að fá loksins að gista á hóteli! Baðsloppar á baðherbergjum og sjónvarp í báðum herbergjum – algjör lúxus.  Stóra M-ið á flugvellinum sá fyrir kvöldmat og svo var horft á sjónvarp fram eftir.

Á mánudagsmorgni fengum við algjöran lúxus morgunverð og leiddist engum að velja allt sem hugurinn girntist, gengið frá öllu og gert upp – þar átti að vísu að rukka okkur fyrir morgunmatinn, en útprentað tilboðið bjargaði því.  Við kvöddum svo bóndann við vegabréfaeftirlitið (eftir „örlítil“ fjárútlát vegna yfirvigtar!). Sú sveimhuga var með skuggalegt Nintendo í töskunni sem reyndist þó ekki innihalda sprengiefni eftir nána skoðun.

Við fórum beint út að vél og komumst í loftið á réttum tíma – farþegar voru enn að ganga um borð þegar sá skapmikli sofnaði.

Í Keflavík beið móttökunefnd – afinn, mágkona og þrjú frændsystkini tóku á móti okkur og heima hjá afa og ömmu var slegið upp sláturveislu.  Jólagjafir sem enn lágu undir tré voru opnaðar og erfitt að sofna þetta kvöldið.

Á þriðjudegi fóru systur í skólann og sú snögga í gæslu.  Sá skapmikli fór í aðlögun í nýjum leikskóla, eftir heimsóknir á hagstofuna, umferðarstofu, Tryggingastofnun og vinnuna var litið á gamla leikskólann – þar var víst pláss, en ákaflega mikið vesen að koma drengnum í það!  Sú sveimhuga fór á æfingu í frjálsum.

Á miðvikudegi fór sá skapmikli aftur í aðlögun og á meðan á henni stóð tókst að koma honum inn í gamla leikskólann, bíllinn fékk útbúnar númeraplötur og komst í gegnum tollinn.  Systur voru ofsalega ánægðar í skólanum, smullu inn í sína hópa eins og þær hefðu varla farið í burtu.  Frúin skrapp til vinkonu sinnar um kvöldið.

Á fimmtudegi fór sá skapmikli í gamla leikskólann sinn og var einn þar í  tæpa 5 tíma og bíllinn var sóttur á höfnina.  Sú sveimhuga fór á æfingu og sú snögga fékk að vita hvar ein vinkvennanna ætti heima – hvað stúlkan héti fylgdi þó ekki sögunni.

Á föstudegi komst bíllinn aftur á íslensk númer, fékk tryggingar og frændsystkinin komu í gistingu.

Á laugardegi tóku systur þátt í handknattleiksmóti Fjölnis í Grafarvogi og skemmtu sér konunglega, um kvöldið var slegið upp litlujólum, hangikjet og hamborgarhryggur með öllu!

Á sunnudegi skrapp sú snögga til vinkonu sinnar (eftir að nafn hennar hafði verið grafið upp á Mentor), sú sveimhuga til sinnar vinkonu og sá skapmikli lék hér heima.

Á mánudegi var lúðrasveitaræfing hjá þeirri sveimhuga, frjálsar hjá báðum systrunum og frúin byrjaði að vinna!  Akstur og þvælingur byrjaður!  Skemmtu þær sér konunglega og drengurinn mjög sáttur við leikskólann – ekki síst við að eiga nafna á deildinni!

Á þriðjudegi fór frúin í skólann – sem og börnin, sú sveimhuga sést varla heimavið, þvælist með vinkonum sínum eftir skóla og við mæðurnar skiptumst á að keyra á æfingar.  Frúin skrapp með ömmunni í Zúmbu og verða þær æfingar stundaðar næstu vikurnar, tvisvar í viku.

Á miðvikudegi voru engar íþróttir!  Leikið og leikið fram að kvöldmat og enn svaka ánægja með skóla, leikskóla og vinnu.

Á fimmtudegi kom vinkona þeirrar snöggu í heimsókn og voru fagnaðarfundir þar – um kvöldið leit föðurbróðirinn við með gjafir og börn sem gaman var að sjá.

Á föstudegi gekk allt vel, búslóðin fór í gegnum tollun og kom heim á brettum, bílskúrinn orðinn smekkfullur.  Um kvöldið fór sú sveimhuga til vinkonu sinnar að gista, sú snögga vildi ekki vera minni manneskja og fékk að gista ein hjá frænda sínum og frænku.  Sá skapmikli vildi bara sofa hjá mömmu.

Á laugardagsmorgni hófst þýskunámskeið á bókasafninu í Hafnafirði – sú sveimhuga er kl 11, sú snögga kl 12 og sá skapmikli kl 13 – langur dagur í Hafnafirði næstu 14 laugardaga!  Sá skapmikli ætlaði ekki á neitt þýskunámskeið, hann væri ekki búinn að gleyma neinni þýsku og þyrfti ekki á þessu að halda!  Eftir að hafa setið með hendur í skauti og steinþegið fyrsta hálftímann brast þó stíflan hjá honum og er svaka spenna yfir því að fara aftur um næstu helgi hjá þeim öllum.

Jól og flutningar

Á þriðjudeginum var síðasti skóladagur systranna, þær komu klyfjaðar heim, meðal annars með afspyrnu fallegar minningabækur frá bekkjarfélögunum.  Sá skapmikli fór í síðustu heimsóknina til besta vinarins og verður mikill söknuður af því að hitta hann ekki oftar. Eftir hádegið voru bakaðar piparkökur (í annað sinn) og um kvöldið var tekið forskot á sæluna og jólatréð skreytt – þar sem það stoppar stutt við þessi jólin.  Síðustu dagatalssokkarnir kláruðust fyrir háttinn.

Á miðvikudagsmorgni komu bekkjarsystur þeirrar sveimhuga í heimsókn, með þeim voru piparkökur skreyttar, horft á Söguna endalausu og pizzum sporðrennt, að lokum voru þær kvaddar með virktum.  Eftir hádegið var útréttað og haldið áfram með jólaundirbúning.

Á Þorláksmessu fór sá skapmikli með pönnsur í leikskólann og kvaddi alla þar, frúin skrapp til fyrrverandi nágrannans að sækja þorsk í kvöldmatinn og þvo bílinn, þar sem allur snjór var farinn og hitinn skreið upp fyrir frostmark.  Eftir hádegið fórum við til þýskra vina í Glühwein og Kinderpunsch.  Fyrrverandi nágranninn og fjölskylda hennar komu í þorskinn og svo var restin af piparkökunum skreytt.

Á Aðfangadag byrjaði að snjóa, jólamaturinn var sóttur til kjötkaupmannsins og síðustu innkaupin kláruð – rétt um lokun verslana þegar uppgötvaðist að gleymst hafði að kaupa blómkálssúpuna í forrétt!  Amerísku vinir okkar eyddu jólunum með okkur og þau fóru líka með okkur í kirkjuna – börnin voru dregin á sleða, því það hafði kyngt niður snjó allan daginn.

Villisvínið smakkaðist dásamlega og gleðin sveimaði yfir öllum – allt of margir pakkar voru undir trénu miðað við fyrri áætlanir!  Þegar vaskað var upp eftir kvöldið stíflaðist eldhúsvaskurinn, svo allt jólauppvask var þvegið í bala.

Á jóladag hélt áfram að snjóa, við fórum út í stóru brekku en þar vær næstum því of mikill snjór til að hægt væri að renna – en gaman var þar.  Hamborgarhryggur (eða Kasseler Rucken eins og hann heitir hér) var eldaður, Tübingen Monopoly spilað, leikið í tölvum, horft á Pólarhraðlestina og almenn slökun.

Á annan í jólum skruppum við á skauta í Reutlingen með fyrrverandi nágrannanum og fjölskyldu, afgangar í matinn og dund.

Á mánudagsmorgni (kl. 4:30) lagði frúin af stað í langferð mikla, akandi til Rotterdam – ferðin gekk eins og í sögu og bíllinn var skilinn eftir á höfninni þar upp úr hádegi – flutningar hafnir.  Heimleiðin gekk vel, eftir ferð með 6 lestum og þremur strætóum skreið frúin í bælið um miðnætti.  Hér heima hafði allt gengið sinn vanagang, pakkað í kassa og dundað.

Á þriðjudegi kvaddi frúin þriðjudagskonurnar sínar og pakkað var í síðustu kassana – allt borið úr á svalir og áætlað að fara upp tröppurnar þar upp á götu með allt.  Trukkurinn sem kom var ekki á vetrardekkjum (frekar en aðrir trukkar hérlendis) og treysti sér ekki til að snúa við í götunni í öllum snjónum.  Hann lagði bílnum því neðan við húsið (á Nord Ring), svo bera þurfti allt niður um 20 tröppur (sem betur fer nýttist lyftan í hinar 20).  Ríflega 1 1/2 tíma tók að hlaða bílinn og þar með er búslóðin farin.  Ameríska vinkonan hjálpaði til og kínverska bekkjasystir þeirrar sveimhuga og pabbi hennar bættust í hópinn.  Sleði og lítil trilla léttu vinnuna töluvert.

Á miðvikudagsmorgni kom píparinn, vonandi verður hægt að vaska upp í eldhúsvaskanum næstu daga!  Íbúðin er tómleg – en sem betur fer (fyrir krakkana) lánuðu amerísku vinirnir okkur auka sjónvarp, svo hægt er að horfa á barnaefni.  Hér þarf að skúra, þrífa og ganga frá eftir flutningsvinnuna og verður það verkefni dagsins í dag (og næstu daga).

Veikindavika

Á þriðjudegi var sá skapmikil heima, frekar hress fram eftir degi en hélt svo áfram að kasta upp seinni partinn og aðfararnótt miðvikudags.  Sú sveimhuga fór í sína leikfimi, annars var dagurinn rólegur.

Á miðvikudegi vaknaði sú sveimhuga með magaverki, svo hún var heima og hélt bróður sínum og móður selskap á meðan sú snögga skottaðist í skólann.  Heldur hægt var yfir mannskapnum, en frúin fór að heiman og söng fyrir húðlækna með kórnum sínum fyrir kvöldmatinn.

Á fimmtudegi fóru yngri börnin tvö í fylgd föður síns, þar sem frúin var frekar sloj, sú sveimhuga var heima líka þar sem hún hafði fengið hita kvöldið áður.  Sú snögga fór til Reutlingen í leikhús með skólanum, þar sáu þau Jólaævintýri Dickens.  Frúin var of slöpp til að syngja fyrir gömlu frúrnar í franska félaginu.

Á föstudeginum voru loks allir hressir, það snjóaði all hressilega og seinnipartinn dreif frúin sig í húsmæðraorlof með búlgörsku vinkonu sinni til Reutlingen í verslunarferð.  Krakkarnir léku sér úti í snjónum.

Á laugardegi var liðið drifin yfir til Ulm og gamla vinkonan heimsótt – hún er á hækjum  og því hægt að hitta þau hjónaleysin.  Vorum við þar í góðu yfirlæti fram á kvöld, dundað við spilamennsku, útiveru og almenn huggulegheit.

Á sunnudegi var tekið pökkunarátak mikið – sá skapmikli skrapp til vinar síns og á meðan var herbergið hans og systra hans tæmt – eftir að horft var á Söguna endalausu sem systurnar fengu í skóinn.  Seinnipartinn sáum við brúðuleikrit um félagana Pétur og Brand og röltum um í miðbænun með búlgörsku vinunum.

Á mánudegi fóru systur með hrúgur af pönnukökum, kveðjustund í skólanum.  Eftir hádegið var okkur boðið í kaffi til móður bekkjarsystur þeirrar sveimhuga og yngri krakkarnir fóru í leikfimi.  Um morguninn rigndi um stund, sem breyttist svo í algjöra hundslappadrífu og hér kyngdi niður snjónum fram yfir kaffi en þá fór aftur að rigna.  Þannig er spáin næstu daga.

Meiri jólaundirbúningur er framundan – og síðustu 5 sokkarnir!

Íslandsferð?

Á mánudegi var hringt úr skólanum og frúin beðin um að sækja þá snöggu, hún var slöpp, en ekki beint veik.  Því varð lítið úr íþróttum þann daginn.

Á þriðjudaginn var stúlkan hress og fór í skólann – fyrir utan að hún vaknaði fyrir klukkan 7  með blóðnasir., sá skapmikli heimsótti vin sinn seinnipartinn en stelpurnar lærðu og léku sér.  Frúin mundi eftir því að fara á kóræfingu, aðra vikuna í röð!

Aðfararnótt miðvikudags vaknaði sú snögga um 4 með blóðnasir – að öðru leiti hress og kát og fór í skólann.  Seinnipartinn var lært og dundað, aftur komu blóðnasir um kvöldið.

Á fimmtudegi fékk snótin enn einu sinni blóðnasir – á leiðinni í skólann þennan daginn! Læknirinn var heimsóttur og fengið sprey til að draga úr blæðingunum.  Eftir hádegið komu leikfélagar þess skapmikla í vöfflur og kakó og mamma þeirra í spjall.

Á föstudegi skrapp sá skapmikli aftur til vinar síns en kvenpeningurinn kíkti á jólamarkaðinn í bænum, það var ekki búið að setja allt upp, en samt ákaflega jólalegt og fallegt.  Eftir að jólaskórnir höfðu verið keyptir var mætt í alþjóðlega jólaboðið í kjallaranum.  Þar voru um 60 manns, góður matur og eftirréttir víða að úr heiminum – og jólasveinninn mætti með glaðning handa börnunum.

Á laugardegi ókum við í Europapark í norður Svartaskógi – sá skapmikli var hálf slappur á leiðinni og vildi snúa við – en hresstist heldur betur þegar við komum á staðinn!  Þar heimsóttum við Ísland, sem er ekki hluti af Norðurlöndunum.  Fórum í alls konar rússíbana og tæki – lítið sem ekkert af biðröðum en ákaflega mikið af fallegum ljósum.  Á heimleiðinni í gegnum Svartaskóg var tilfinningin svipuð því að aka Öxnadalsheiðina að vetri, frostþoka, myrkur, skafrenningur og þæfingur – allt gekk það vel.

Á sunnudegi var slakað á fram eftir degi en seinnipartinn fórum við til vinnufélaga bóndans þar sem smákökur voru bakaðar og skreyttar, mikið fjör – alltaf gaman að kíkja á kettlingana sem búa þar.

Aðfararnótt mánudags fékk sá skapmikli magakveisu, svo nóttin var svefnlítil – hann var veikur allan mánudaginn og fékk hita þegar leið á daginn.  Systurnar fóru í skóla og íþróttir en þar fyrir utan var lítið afrekað – nema sokkur 53 kláraðist fyrir kvöldmat!

Þá eru 3 vikur í dag þangað til við fljúgum til Íslands – tíminn líður hratt og hér þarf að gefa í við pökkun.

Aðventan í myndum

Búlgarska afmælisbarnið 2. des.
Búlgarska afmælisbarnið 2. des.
Sölufólk á Malibasar.
Sölufólk á Malibasar.
Á heimleið af súkkulaðimarkaði.
Á heimleið af súkkulaðimarkaði.
Skorið út af kappi.
Skorið út af kappi.
Steikjarar.
Steikjarar.
Föndrað í stofunni.
Föndrað í stofunni.

Malí, súkkulaði og laufabrauð

Snjónum kyngir niður, allt hvítt og loðið af snjó, krákurnar nauðlenda með útbreidda vængi svo þær sökkvi ekki og krakkarnir renna sér með bros á vör – eru að koma jól???? 😉

Á þriðjudegi léku krakkar sér úti í snjónum og á miðvikudegi fórum við í stóru brekkuna hinum megin við engið.  Á fimmtudegi fórum við í bæinn og þaðan í búlgarskt barnaafmæli.  Á föstudegi var frostið tæp 10 stig svo við vorum bara inni.  Vikan snérist að mestu um snjó og meiri snjó, sá skapmikli er dreginn á sleða í leikskólann upp á hvurn dag og systur ganga dúðaðar í skólann.  Nógu vel klæddar til að geta dólað sér á heimleiðinni við að hrista yfir sig snjó af trjánum, gera engla og leika sér.

Leikskólakrakkarnir koma flestir með sleða eða þotur í leikskólann og allt liðið fer út í 1-2 klst á dag að renna sér í brekkunni utan við leikskólalóðina, svaka fjör.  Í skólanum fara krakkarnir í snjókast og aðra leiki í frímínútum – alla vega þau sem koma nægilega vel klædd í skólann.

Frúin var hálf slöpp þessa vikuna, kvefpest – ekkert alvarlegt.

Á laugardegi byrjaði dagurinn á undirbúningi fyrir Mali basar þeirrar sveimhuga.  Hennar bekkur heldur markað árlega þar sem peningum er safnað fyrir barnaskóla og munaðarleysingjahæli í Mali, undanfarna daga hefur mikið verið föndrað í skólanum og á mánudaginn var tóku foreldrar þátt í föndrinu.  Methagnaður var þetta árið, ríflega €1.100!

Eftir markaðinn fór fjölskyldan í bæinn, hér var súkkulaðimarkaður þar sem krakkarnir hlustuðu á sögu um súkkulaði álfkonuna og fengu að gera sitt eigið Ritter Sport.

Á sunnudegi var laufabrauðsgerð – kvöldin 3 á undan flöttu hjónin út um 70 kökur, sem skornar voru í góðum félagsskap.  Íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan kom, amerísk vinkona úr næsta húsi og fyrrverandi nágranninn kom með fjölskylduna í mat.  Verulega notalegur sunnudagseftirmiðdagur, nóg að bíta og brenna og samvera sem toppaði allt.  Líklegast var þetta í síðasta skipti sem við hittum þau íslensk/þýsk/amerísku í bili – þangað til þau koma næst til Íslands eða við hingað.

Það er víst komið að því að við þurfum að fara að kveðja vini, nú fer að fækka þeim stundum sem við höfum til að umgangast þetta yndælisfólk sem við höfum kynnst hér undanfarna 20 mánuði.

Frúin skrifar þetta sötrandi nýja uppáhaldsdrykkinn sinn, heitt vatnskakó með einum piparmyntumola frá Ritter Sport (After Eight virkar örugglega líka), mæli með því að þið fáið ykkur svona bolla og horfið út um gluggann á jólaljósin á meðan þið njótið drykkjarins.

Ríkidæmi

Við hjónin ræðum stundum ríkidæmi okkar, að eiga þessi yndælu börn okkar, hvort annað, fjölskyldur okkar og vini – það er algjörlega ómetanlegt! Nauðsynlegt að hafa smá væmni með öllum þessum jólasnjó hérna úti. 🙂

Á þriðjudegi bökuðum við piparkökur, bæði engiferkökur og kökur til að mála, svo allt yrði nú tilbúið fyrir miðvikudaginn.

Því á miðvikudegi komu 4 vinir krakkanna hingað eftir skóla og hér var skellt upp verkstæði jólasveinsins, yfir 200 piparkökur skreyttar, föndrað, leikið og pizzur etnar – allt með jólalög í bakgrunni.  Yndislegur dagur!

Á fimmtudegi var dúllað og dundað að venju, föndrað fyrir skólaverkefni þeirrar sveimhuga og leikið.

Á föstudegi vöknuðum við í óvanalegri birtu – hér var alhvít jörð!  Um 10 sm snjór og það snjóaði meiripart dagsins.  Eftir skóla fóru krakkar út í brekku og þaðan aftur niður í skóla þar sem var lestrareftirmiðdagur og föndur.

Á laugardagsmorgni var gerður myndarstafli af pönnsum, krakkar fóru út að renna í tæpa 3 klukkutíma!  Eftir hádegið keyrðum við niður til Mössingen þar sem íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan hafði boðið okkur til Þakkargjörðar.  Áttum við þar yndislegan seinnipart og kvöld í faðmi góðra vina.

Á sunnudegi var ekið austur til Ulm að heimsækja kæra vini, var dagurinn þar ekki síðri þar sem var etið, spilað, jólamarkaður heimsóttur, börnin út að leika og etið og spilað svolítið meira.

Unaðsleg helgi í faðmi vina og fjölskyldu að baki – enn snjóar og samkvæmt spánni verður ekkert lát á því næstu tvær vikurnar.

Á mánudagsmorgni var sú snögga sótt úr skólanum hálf sloj – líklegast bara þreyta sem þjakar hana – svefn var það eina sem ekki var nóg af nýliðna helgi!

Njótið aðventunnar kæru vinir og fjölskylda – það ætlum við að gera hér, þó við teljum dagana í heimflutning í leiðinni.

Hversdagurinn líður

Þá er enn kominn mánudagur, bloggið hætt að birtast á sunnudögum í bili, einhver ægileg sunnudagskvöldsleti í gangi! Jamm.

Á þriðjudegi var sú sveimhuga í leikfimi og sú snögga hjá vinkonu sinni.  Þeim skapmikla leiddist ekki að fá að dúllast einn með mömmu sinni í smá stund.  Um kvöldið tókst hjónunum að gleyma því að þeim hafði verið boðið að koma á kóræfingu, annað hvort saman eða annað þeirra.

Á miðvikudegi mundum við eftir æfingunni. Heimalærdómur þeirrar sveimhuga var föndur, svo hér var föndrað fram eftir degi.  Foreldrafundur vegna þeirrar snöggu var um hádegið svo hún passaði bróður sinn á meðan henni var hrósað í hástert í skólanum, er ein af þeim betri í bekknum í þýsku! (Á mánudeginum hafði verið foreldrafundur hjá þeirri sveimhuga þar sem hún fékk líka mikið hrós fyrir stórkostlegar framfarir í þýsku).

Á fimmtudegi skrapp sá skapmikli til vinar síns og kvenpeningurinn föndraði svolítið meira, bóndinn var á ráðstefnu og kom ekki heim fyrr en eftir kvöldmat.

Á föstudegi fórum við í smá hjólatúr, stelpurnar á nýju og ekki svo nýju hjóli sem gáfust vel.  Sá skapmikli vildi samt drífa sig heim áður en nóttin kæmi, svo við rötuðum örugglega.  Bóndinn kom heim fyrir kvöldmat en var sendur út aftur til að taka þátt í hátíðarkvöldverði ráðstefnunnar.

Á laugardegi var bóndinn áfram að ráðstefnast, en frúin dreif sig með börnin í fylgd bekkjarkennara þeirrar sveimhuga (sem er líka stærðfræðikennari þeirrar snöggu), móður og dóttur hennar, á markað í Buttenhausen.  Það er þorp sem er mikið til þjónustuþorp fyrir aldraða og hreifihamlaða og þar selja heimamenn afurðir sínar fyrir jólin ár hvert.  Var þetta ákaflega skemmtileg ferð í Schwebísku Albana.  Bíllinn var að vísu með smá stæla.

Á sunnudegi kom fyrrverandi nágranninn með fjölskylduna í hádegissnarl og gönguferð í rigningunni um miðborgina og kastalann.  Skúffuköku og vöfflum var sporðrennt eftir göngutúrinn og Þorláksmessa plönuð.  Um kvöldið tóku hjónin forskot á jólasæluna og horfðu á „White Christmas“ til að koma sér í gírinn!

Á mánudagsmorgni var slydda sem breyttist í smá snjókomu, nóg til að gera grá/hvíta föl á allt annað en malbikið – svona í tilefni myndar sunnudagskvöldsins!  Spáð er slyddu/snjókomu næstu tvær vikurnar í það minnsta.  Krakkarnir bíða spennt eftir að það frysti svo snjóinn festi og hægt verði að fara út að renna!

Bíllinn fer í viðgerð – já, einu sinni enn, í næstu viku.  Hann hefur aldeilis séð fyrir því að ekki er mikið lagt fyrir á þessum bæ þetta árið!

Heilagur Martin

Enn ein vikan þotin hjá.

Mánudagur eins og vanalega með íþróttaskammti og sofandi skapmiklum dreng þegar ekið var frá íþróttasvæði stelpnanna seinnipartinn.

Á þriðjudegi var dundast í jólakortagerð eftir skóla.

Á miðvikudegi var ljóskerjaganga hjá þeim skapmikla, kennararnir byrjuðu á því að sýna stuttan leikþátt og svo var gengið í gegnum skóginn og sungnar Marteins vísur.  Af þessu tilefni var fyrsta jólaskrautið tekið upp, sem er útskorið englaspil (án engla) en með krökkum í ljóskerjagöngu.  Heim var komið seint og um síðir.

Á fimmtudegi fór sá skapmikli í heimsókn til vinar síns en systur fengu að horfa á mynd í friði á meðan.

Á föstudegi var reiðtími eftir skóla, sú sveimhuga lenti í ævintýri – hún missti hrossið svo hrikalega undan sér þegar hún átti að fara á brokk.  Hann hálf prjónaði og rauk á stökki yfir þvera reiðhöllina, stelpan hékk á baki, datt samt úr ístöðum en náði að ríghalda í taumana og hrossið stoppaði svo í hinum endanum!  Hún var nokkuð slegin en kláraði þó tímann á baki.  Er þá reiðtímum hérlendis lokið.

Á laugardegi skrapp frúin í verslunarferð fyrir hádegið og í sænskan samsöng seinni partinn.  Þar voru sungin lög Bellmans í útsetningu ensks stjórnanda – hríðlækkaði meðalaldur söngvara við innkomu frúarinnar!  En ákaflega var þetta skemmtileg stund.

Á sunnudegi komu góðir gestir í kaffi, ný fjölskylda í borginni – sonur þeirra er á deild með þeim skapmikla.  Faðirinn er Ítali en móðirin sænsk/þýsk.  Áttum við ákaflega góðar stundir og sýndum þeim sleðabrekkuna og bóndabæinn.  Um kvöldið skrapp frúin til fyrrverandi nágrannans og sótti hjól sem hún hafði keypt fyrir þá sveimhuga.  Sátu þær stöllur úti á palli á peysunum fram yfir miðnætti!  Hugsanlega verður keypt annað hjól fyrir þá snöggu.

Á mánudegi var leikfimi og íþróttir auk foreldrafundar hjá þeirri sveimhuga, kennaranum finnst leitt að við flytjum aftur heim þar sem stúlkan er að ná svo góðum tökum á tungumálinu.

Ferðast í haustfríi

Á þriðjudegi skrapp frúin með börnin og ameríska vinkonu til Sinsheim en þar er bíla og tækjasafn eitt mikið og merkilegt.  Voru þar til sýnis alls konar farartæki, fyrir loft og láð – á friðartímum og stríðs.  Þótti öllum mikið til koma, hægt var að fara inn í margar flugvélar, þar á meðal Concord – bæði franska og rússneska!

Á miðvikudegi var mikil verslunarferð í íþróttavörubúð – krakkarnir græjuð upp til næstu mánaða.  Frúin fór svo um kvöldið og keypti kassa og annað sem til þarf vegna flutninga og byrjaði að pakka – 5 kassar eru frágengnir, ekki verður upplýst hvað eigi eftir að pakka niður í marga til viðbótar!

Á fimmtudegi fórum við í bæinn, keyptum jólagjafir, pappír fyrir kortagerð og fórum á leikvöll uppi á Österberg.

Á föstudegi var lagt af stað í ferðalag, Kehl var fyrsti áfangastaðurinn, en það er systraborg Strasbourg – Þýskalands megin við Rín, vestan við Svartaskóg.  Gistum við þar á farfuglaheimili.

Á laugardegi ókum við yfir brúna til Frakklands, fórum í síkjasiglingu í Strasbourg – það var ein besta síkjasigling sem við höfum prófað.  Mjög skemmtileg og fróðleg ferð.  Við gengum um miðborgina og ókum svo aðeins um sveitir Elsass héraðs þar sem flestar borgirnar heita þýskum nöfnum.

Á sunnudegi ókum við aftur yfir til Strasbourg, fórum í Evrópuhverfið og stoppuðum við Evrópuráðið, keyrðum þaðan í suður í Hunawir (Húnaver) þar sem við kíktum í lítinn en frábæran dýragarð.  Þar voru otrar sem þurftu að veiða sér til matar (fengu lifandi fiska í vatnið hjá sér) og einhverjar bjórrottur sem voru ákaflega sprækar.  Þaðan keyrðum við að minningarreit um Maginot línuna og svo heim.  Um kvöldið vorum við boðin í mat til Ameríkananna í nr. 11.

Á mánudegi fór lífið aftur í sínar venjulegu skorður, en þegar sá skapmikli var sóttur stóðu yfir björgunaraðgerðir við leikskólann, ein móðir og einn faðir voru að bjarga eldsalamöndrum úr sjálfheldu við kjallarainngang.  Sex stykkjum var bjargað í nestisbox og sleppt út í skóg.

Þá eru víst bara 8 vikur eftir hér í landi!