Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Rólegheit – og þó

Dagurinn var frekar rólegur, sú sveimhuga og sú snögga fóru í sína skóla og sá skapmikli var heimavið eins og vanalega.  Eftir hefðbundna þvotta og stúss var farið út á leikvöll, sá skapmikli dró ánamaðk upp úr sandkassanum og var fljótur að losa sig við hann þegar hann áttaði sig á því að hann var lifandi.  Hann hefur aldrei fengist til að koma við svona kvikindi, enda með afbrigðum snyrtilegur.  Hann sest ekki í sandkassann, heldur situr á hækjum sér við leik.

Eftir að hafa sótt stelpur, heimanáms yfirsetu og kaffitíma röltum við niður í bæ þar sem við hittum bóndann og skildum hann eftir í gamla grasagarðinum með barnahjörðina og við amman skunduðum í H&M.

Nokkru síðar (áður en við var litið voru liðnir tveir tímar og plastið að bráðna) snérum við svo heim í graut og Evróvision.

Sullumsull

Þetta var blautur dagur, ekki að það ringdi svo mikið – langt því frá.  Sá skapmikli er í koppaþjálfun eins og komið hefur fram, það skýrir mikinn hluta bleytunnar.   Hins vegar er myndarlegur pollur hér upp við húsið eftir rigningar síðustu kvöld og þar sat drengurinn og hellti yfir sig fötu eftir fötu, svo vinda mátti ÖLL hans föt, þar með talda gúmmískóna.

Annars byrjaði hann morguninn á því að segja, „jæja, fara í skólann!“  Þegar því var neitað öskraði hann „NEI, ég vil fara í leikskóla, ég vil ekki vera heima!“  Ofsalega gaman að vera svona mikið heima með mömmu sinni og ömmu.

Systurnar nutu dagsins í skólanum, þeirri sveimhuga varð að vísu um og ó þegar hún sá verðandi bekkjarsystur sína gráta úti á leikvelli, sú hafði týnt strætókortinu sínu.  Hugsanlega sá hún sjálfa sig í anda, hver veit?

Sú snögga er hress á leikskólanum, tekur þátt í ærslaleik krakkanna, þá aðallega strákanna og hefur kennarinn þurft að hasta á þau – „en þetta er bara svo gaman!“ er viðkvæði hennar.

Við hjónin skruppum svo aðeins aftur í IKEA, keyptum bedda svo nú er nóg gistipláss.

„Stau“ og ekki sund

Venjulega tekur tæpar 15 mínútur að keyra þá sveimhuga í skólann en í dag tók það um 50 mínútur! Ástæðan var „Stau“ eða umferðasulta af verstu gerð, skólastúlkan var því rúmlega 20 mínútum of sein í tíma.

Stærðfræðibókin hennar er fyrir 2. bekk, þar er bæði margföldun og deiling – hún var að byrja að læra margföldun heima, undir lok þriðja bekkjar. Fleiri orð eru óþörf.

Sú snögga var sæl að vanda með leikskólann, að sögn var kennarinn með salat sem var gott fyrir beinin eða hjartað og allir fengu að smakka.

Sá skapmikli pissaði nokkrum sinnum í buxurnar og fannst það agalegt!

Annars fór dagurinn allur í að vera of seinn og að takast ekki það sem átti að gera. Til að setja punktinn yfir i-ið á annalitlum degi röltum við fjölskyldan í næstu sundlaug, til að komast að því að á þriðju- og fimmtudögum er skólasund og almenningur kemst ekki í laugina. Til að toppa það var ekki hægt að fá árskort afgreidd í þessari laug, heldur þurfum við að fara niður í bæ til að leysa það út.

IKEA kjötbollurnar klikkuðu þó ekki og engu er logið um bragðgæði þeirra 😉

Bón og Bebenhausen

Morguninn var erfiður, langur dagur í gær og þreyta í mannskapnum.  Allt hafðist þó að lokum og stelpurnar mættu á réttum tíma.

Heimafyrir var sá skapmikli settur í pollabuxur og stígvél til að leika sér í pollum eftir næturregnið á meðan frúin og amman skúruðu og bónuðu herbergin.

Sú sveimhuga var sótt fyrir hádegið, þá hafði hún teiknað Wilhelmu upp fyrir kennarann til að útskýra í hvað helgin fór.  Síðan var sú snögga sótt og hún fer með stjörnuhóp í skólaverkefni síðar í vikunni.

Eftir hafragrautinn var ekið yfir til Bebenhausen sem er svefnþorp hér í nágrenninu, þar var þetta líka fína nunnuklaustur til forna og er byggingin á við fínasta kastala.  Ekki skemmdi fyrir að í þorpinu fannst forláta leikvöllur.

Krakkar fóru svo snemma í ró og á morgun bíður enn einn spennandi dagur.

Wilhelma í Stuttgart

Ekki er ofsögum sagt af fegurð dýra- og grasagarðsins Wilhelma í Stuttgart en þar eyddum við einmitt deginum í dag.  Allur gróður í miklum blóma og dýralífið blómstraði einnig, aldrei áður hefur fjölskyldan sé jafn margt af ungviði í dýragarði.

Nesti var haft meðferðis og snætt við upphaf skoðunar á garðinum og þótti þeirri snöggu ganga hægt að fara að sjá þessi dýr!

Geiturnar nutu mikilla vinsælda, enda var hægt að gefa þeim fóður fyrir smáaura og líka var fjör að sitja á smáhesti / pony einn hring.

Eftir að við höfðum gengið í gegnum mannapa húsið kom þrumuveður, við fórum út í það á leið heim en þegar veðrið ágerðist stungum við okkur inn í hús þar sem voru górillu ungar.  Skömmu síðar breyttist veðrið aftur, jók heldur í rigninguna og hún breyttist svo í hagl!  Kúlurnar voru á stærð við sykurmola, grein brotnaði af nálægu tré og allt ætlaði vitlaust að verða.  Sem betur fer gekk þetta fljótt yfir, við sáum ríflega eins árs górillur fá pelana sína og gengum svo út í þokkalegt veður út á U-bahn stöðina og svo heim.

Eitthvað af dýrunum fór framhjá fjölskyldunni í þessari ferð, sem er ágætt því þá verður eitthvað nýtt að sjá í næstu ferð líka.

IKEA og koppaþjálfun

Hjónin tóku daginn frekar snemma og lögðu upp í ferð til Sindelfingen en þar eru Mercedes Benz með höfuðstöðvar og IKEA með verslun – ferðinni var að vísu bara heitið í það síðarnefnda og eyddum við nokkrum klukkustundum í skandinavísku andrúmslofti og nokkrum Evrum í leiðinni.

Á heimavígstöðvum stóð amman í stórræðum með krakkaskarann, ferð í bakaríið og hlaup á pallinum stóðu þar upp úr.

Á heimleiðinni var stoppað í stórmarkaði einum sem stóð undir nafni sem slíkur.  Eftir það þurfti að skrúfa saman IKEA dótið og dundast heimavið.

Kvöldverður var snæddur útivið í þrumuveðri, við nýja borðið – sænskur kjúklingur í tilefni dagsins.

Sá skapmikli fékk kopp og eyddi hluta kvöldsins sitjandi á honum, þar með er formleg þjálfun hafin og er ekki seinna vænna því leikskólar hér í Þýskalandi eru víst ekki hrifnir af því að fá bleiubörn.

Þrif og Nokia

Þennan daginn var kennari þeirrar sveimhuga ekki við, svo hún fór ekki í skólann, aðlögun enn í gangi.  Stúlkan byrjar inni í bekk eftir hvítasunnufríið sem verður tveggja vikna langt.  Krakkarnir hér eru að minnsta kosti ári á undan skólanum heima og sveimhuginn fer inn í það námsefni sem hún þekkir.

Sú snögga var svo ánægð á leikskólanum í dag, að það var algjört svekkelsi að komin væri helgi og enginn leikskóli í tvo heila daga!

Sá skapmikli tók smá syrpu á pallinum í dag, hann vildi ekki sitja með sólina í andlitinu en vildi bara sitja í stól sem snéri þannig og allt var ómögulegt!

Frúin og amman þrifu fyrir hádegið í dag og svo gekk hersingin að sækja Unu og þaðan á leikvöllinn í gamla grasagarðinum.  Sú sveimhuga er svo krambúleruð á hnjánum að það var með herkjum að hún gæti leikið sér, en allt hafðist það að lokum.  Sá skapmikli skammaði litla krakka hægri, vinstri og sagðist eiga allt.  Sú snögga skaust um leiksvæðið, af einu tækinu á annað hraðar en augað festi.

Þegar þau voru orðin sveitt af hamaganginum var rölt inn að bestu ísbúð bæjarins og bætt úr því.  Svo röltum við að Stiftskirkjunni þar sem við biðum eftir bóndanum, hann kom með rigninguna og þrumurnar með sér úr vinnunni.  Þar með þurftum við að leita skjóls í H&M!  Á heimleiðinni komum við svo við hjá Deutsche Telekom og fengum okkur farsímanúmer og nýjan Nokia.

Á leiðinni úr strætó litum við inn hjá slátraranum og eftir matinn var loksins komið að Heiðu í sjónvarpinu, sem sú snögga hafði beðið eftir frá því á mánudaginn var.

Skrifræðið ógurlega

Póstur dagsins hljóðaði: „Tollayfirvöld geta ekki samþykkt innihaldslýsingu þína þar sem hún er handskrifuð og ekki á ensku“.  Þess ber að geta að listinn var á íslensku/ensku.

Svo ekki koma kassarnir til okkar í þessari viku.

Sú snögga vakti okkur hjónin um sjö, dró frúna framúr og inn í eldhús og spurði hvernig þetta væri eiginlega, hvenær væri morgunmatur á þessu heimili?!  Hún hlakkaði mjög mikið til að fara í leikskólann.  Sú sveimhuga verður í fríi á morgun, en sú snögga tekur það ekki í mál að húka heima allan daginn.  Það verður sko farið í leikskólann!

Sá skapmikli hamaðist í garðinum sem fyrr, sparkaði bolta og keyrði sjúkrabíl á veröndinni.

Að skóla og leikskóla loknum var farið í gönguferð í nálægan grasagarð, þar var hamagangur í öskjunni við froskatjörn og lætin svo mikil að sá skapmikli hélt fyrir eyrun.  Tré og blóm blöstu alls staðar við og í kaupbæti var hægt að skoða fiskabúr í hitabeltishúsinu.

Sólin skein, nesti var snætt, útiverunnar notið og að lokum fengu allir ís í kjörbúðinni.

Leikskólinn

Þá er sú snögga orðin að leikskólastelpu hér í Þýskalandi, það var vel tekið á móti henni í morgun og krakkarnir farnir að bíða eftir þessum nýja Íslendingi.  Við mæðgur vorum þar fram að hádegi og tók hún fullan þátt í dagskránni, tvær vinkonur drógu hana svo út á leiksvæðið og þar var svo gaman að ekki var hægt að fara heim fyrr en eftir dágóða stund.  Á morgun verður hún ein allan tímann.

Sú sveimhuga var sátt eftir daginn, kom með heimanám eftir daginn, sat svo og reiknaði eftir hádegið – Þjóðverjarnir eru eitthvað aðeins á undan okkur í skólanum sýnist mér.

Sá skapmikli orgaði í morgun yfir því að fá ekki að fara með!  Hann fór svo vopnaður út á pall og skeytti skapi sínu á illgresinu.

Eftir búðarferðina réðst frúin á mosa, fífla og aðra óværu sem liggur hér á milli hellna.  Brakandi blíða var úti, stelpurnar fóru á leikvöllinn að hitta amerísku vinkonur sínar og amman bónaði gólfið.

Setningu dagsins á sú snögga: „eru bara ALLIR góðir hér í Þýskalandi?“

Svo bregðast krosstré …

Aldrei átti þetta nú að gerast, frúin farin að blogga!  En…

Lífið hér í Tübingen er að komast í fastar skorður, sú sveimhuga er búin að vera tvo daga í skólanum, sú snögga byrjar í leikskóla á morgun og sá skapmikli snúllast hér heimavið.  Amman prjónar eins og herforingi, bóndinn óðum að komast inn í hlutina í vinnunni og frúin farin að blogga.

Dótið okkar er væntanlegt í vikulokin, ef allt gengur að óskum.  Bílinn var sóttur í sögulegri ferð í síðustu viku og IKEA verður líklegast heimsótt á næstunni.

Í dag var öllum þrælað út í nokkurra klukkutíma gönguferð, á leiðinni niður í bæ í gegnum skóginn sást íkorni, sá fyrsti í þessari dvöl, en hvorki salamöndrur né sniglar – líklegast of þurrt í veðri fyrir þau.  Svo var arkað upp á kastalahæðina (engar eðlur þar, of svalt) og þaðan niður í eyjuna í miðri Neckar ánni.  Þegar þar var komið var sú snögga að niðurlotum komin og strætó skilaði öllu genginu heim í fiskistauta og kartöflur.

Látum þetta duga sem upphaf bloggferils – njótið vel 😉