Heima…sögur úr hversdagsleikanum!

Mmmhh… alveg jafngott að vera heima og mig minnti. Þetta hljómar eins og ég hafi ekki farið heim í ár.
Ég skrapp aðeins í bókasafnið með pabba í gær, tók þátt í því erfiða verkefni að reyna að finna bók á norsku fyrir hann til að lesa. Ég lifði mig auðvitað inn í verkefnið og á meðan ég ráfaði milli bóka sá ég eina af þeim konum sem vinnur þarna sitjandi úti í horni að lesa (að sjálfsögðu). Ég hélt áfram ráfinu og þá segir hún allt í einu upp úr bókinni: „Hvar ert þú búin að vera?“ Hmmm… Ég veit ekki til þess að ég þekki þessa konu nema bara í sjón og hef nú ekki verið neinn fastagestur á bókasafninu undanfarin ár svo ég leit í kringum mig og komst að þeirri niðustöðu að annað hvort væri hún að tala við mig eða lesa upphátt. Ég spurði þess vegna mjög sakleysislega: „Uuuu.. ég?“ Og hún leit þá upp úr bókinni og sagði: „Já, hvar ertu eiginlega búin að vera?“ Það er aldeilis að mín er saknað á bókasafninu. Verð að fara að stunda það betur.
Bróðurbörnin mín bestu, Heiður og Hjalti, eru í helgarpössun hérna. Heiður harðneitar að svara nafninu sínu og fullyrðir að hún heiti Viddi. Nema í kvöldmatnum í gær, þá hét hún Grettir því það var lasagna í matinn. Viddi er þó enn með sama persónuleikann því hann tekur það reglulega fram að við séum vinkonur. „Hann“ er mjög ósáttur við þá staðreynd að ég hafi ekki tíma til að leika mér allan daginn. Alveg sama hvaða skemmtiatriði amma og afi „hans“ bjóða upp á, það er ekkert í húsinu jafnspennandi og að fá að sitja við hliðina á mér og horfa á mig læra. Þrátt fyrir að hafa ítrekað lofað að fara ekki inn til mín birtist Viddi alltaf brosandi í dyrunum og kíkir á tölvuna. „Ég má alls ekki trufla þig þegar þú ert að læra… ég er bara að horfa á“…. 5 sekúndum seinna…. „Má ég ýta á H? Ég ætla bara aðeins að æfa mig að skrifa…“ og… „Ertu byrjuð í skóla?“ Erfitt að svara með því að ég sé búin að vera stanslaust í skóla í 18 ár svo ég lét eitt já bara duga. „Hvernig er skólinn þinn á litinn?“ Hmmm… ætti ég að velja aðalbygginguna, Odda eða Árnagarð? Skiptir engu, þær byggingar eru allar í jafn óspennandi litum fyrir 4 ára barn! Eins og staðan er ákkúrat núna langar mig örugglega jafnmikið til að fara bara að leika mér eins og hann Vidda minn langar að læra með mér.