Misjöfn eru morgunverkin og allt það

Klukkan er að nálgast 12 á þessum fagra mánudagsmorgni. Undanfarna klukkutíma er ég búin að…

…. Hoppa í sturtu á methraða

… Klæða mig – einnig á methraða og klæða annan einstakling – aðeins minni

… Panta tíma í smurningu fyrir bílgreyið Rögnvald

… Setja í þvottavél og þurrkara, taka úr þvottavél og þurrkara, hin eilífa hringrás.

… Skipta á tveimur kúkableyjum með glöðu geði og spyrja eiganda þeirra hvort það hafi nú ekki verið gott að losna við þetta. Það var fátt um svör.

… Fylla út og skila skattframtalinu

… Pakka Guðmundi Hrafnkeli í ýmis lög af fötum, stinga honum ofan í vagn og setja hann út á tröppur þar sem hann sefur vært

… Flakka um á netinu og skrifa tvö email

Samt er ég glaðvakandi og hress, frábært að eiga allan daginn eftir en vera samt búin að gera helling. Af einhverjum undarlegum ástæðum hef ég aldrei sofið jafn vel á nóttunni og verið jafn óþreytt á daginn og eftir að ég eignaðist barn! Hef alltaf átt svo erfitt með að sofa en nú er álagið svo jafnt yfir allan daginn að ég steinsofna um leið og ég leggst á koddann. Draumabarnið er líka svo tillitssamt að því finnst best að sofa á nóttunni svo við vöknum bæði hress og kát á morgnana.

Ég er annars alltaf að uppgötva fleiri og fleiri lagatexta sem ég hef sungið vitlaust þegar ég var lítil… já og suma löngu eftir að ég hætti að vera lítil. Á fyrsta lagi hafði ég mikla þörf fyrir að syngja enska texta án þess að skilja neitt í ensku – en það skiptir engu máli þegar maður er svona lagviss eins og ég 😉 eheheh, ég held mér hafi aldrei tekist að raula lag þannig að önnur manneskja fatti hvað það er. En allavega…. ég söng hið frábæra lag „agadjúsei“ villt og galið sem mér fannst vera fagur óður um djús en er víst „I’ve got you babe“ sem er ekki næstum því jafnspennandi. Ég á milljón dæmi um svona enska texta en það eru eiginlega íslensku textarnir sem eru verri.. það er eitthvað svo áberandi að syngja þá vitlaust og þar sem ég þjáist af mjög miklu ímyndunarafli myndskreytti ég lögin oft algjörlega vitlaust. Vögguvísur eru mér kannski óeðlilega ofarlega í huga núna en ég heyrði „Dvel ég í draumahöll“ alltaf mjög vitlaust… „sígur ró á djúp og dal, dýr til hvílu ganga“ heyrði ég „sígur rófa á djúp og dal, býr til hvíluganga“. Ég sá alveg þessa hvíluganga fyrir mér, langir gangar með rúmum… en ég skildi ekki hvernig rófan bjó þá til. Ekki fleiri opinberanir…. ég er farin að gera eitthvað!

donkey kong…..

…. hvar sem er, hvenær sem er!

donk.bmp

Ef bara þessi filma hefði ekki týnst í öll þessi ár… þá hefði ég pottþétt getað auglýst tölvuspil og grætt milllllljónir.. hvar var metnaður fjölskyldunnar? 😉

———-

Jahá! Þessa færslu skrifaði ég í lok janúar en eitthvað klikkaði… mundi eftir henni þegar Óli Gneisti skrifaði um tölvuspil á sínu bloggi 😉 Ég var að dunda mér við að skoða gamlar svarthvítar filmur sem Adda hafði tekið en aldrei framkallað og þar leyndust nokkrar mjög „eðlilegar“ myndir af mér eins og þessi. Það er ekki hægt að tapa dýrmætum tíma þó maður þurfi að fara á klósettið.

Mánuður

Guðmundur Hrafnkell varð mánaðargamall í gær – ótrúlegt en satt! Það hefur væntanlega sjaldan svona margt gerst á einum mánuði í lífi mínu… og ég hef aldrei verið svona mikið innilokuð heldur 😉 Á gær fórum við á rúntinn tvö og það var í fyrsta skipti í tæpa tvo mánuði sem ég keyrði bíl. Þvílíkt frelsi að komast út og geta farið þangað sem ég vil – eða næstum því þangað sem ég vil 😉 Nú er stefnan tekin á fyrsta göngutúrinn, greinilega ekki sniðugt að eignast barn á Áslandi í byrjun febrúar ef mann langar fljótt út að labba… En núna er þetta allt upp á við, barnið að eldast og vorið að koma… 🙂 Næstu mánuðum verður eytt í að hafa það gott, fara í heimsóknir, fá heimsóknir, ferðast og síðast en ekki síst njóta þess að eiga svona fallegan strák 😉

mars1-037b.jpg