A golden star day

Ég fékk svolitla útrás fyrir áðurnefnda Skerjagarðsnostalgíu síðustu helgi. Ég brunaði í húsmæðraorlof í alveg hálfan dag, enginn smá lúxus maður 😉 Fyrst horfði ég á Katrínu vinna nokkra fótboltaleiki í Egilshöll og fékk svo systrastund með skrí-inu mínu. Við fórum í búðir eins og dömur eiga að gera en gleymdum reyndar að hugsa um smáatriði eins og opnunartíma svo þetta varð meira að spretthlaupi í tvær búðir áður en massívum rimlahliðum var rúllað yfir okkur. Afraksturinn varð vetrarhúfa svo nú vona ég að veðurfræðingarnir hætti með þetta það-verður-gott-veður-næstu-þrjá-mánuði rugl og komi með eitthvað alvöru dæmi fyrir mig og húfuna mína.

Nú svo var komið að þeirri stóru stund að keyra framhjá Skerjagarði og í fyrsta skipti síðan ég flutti út var greinilegt lífsmark í íbúðinni. Einhverjar dúllidúll gardínur, punt og lampar, ég veit ekki alveg hvernig íbúðin er að fíla það! Til að kóróna skólafílinginn hitti ég svo mínar yndislegu þjóðbrókar-vinkonur yfir ótrúlega fallegri og góðri haustsúpu a la Lilja. Mmmmm… Svona eiga laugardagar að vera!

Gaga úlala!

Ég elska október. Ég þreytist aldrei á að hrósa þessum fagra og hreina mánuði með ómþýða nafnið, ég skal með glöðu geði tala um október hvenær sem er. Ég hef þjáðst af nokkuð slæmu tilfelli af Skerjagarðssöknuði undanfarnar vikur, ég veit ekki af hverju en það gæti jafnvel verið haustið sem var jú alltaf skólatími. Það er kannski absúrd að sitja í húsfreyjuhægindaleðurstól sínum í einu horni 130 fermetra íbúðar og sakna 29 fermetra stúdíóíbúðar en hey, þeir sem kynntust Skerjagarði skilja hvað ég meina. Ég er jafnvel í stuði til að skella mér í eitt af pilsunum mínum og valhoppa eftir Aragötunni innan um laufblaðahrúgur og mæta í tíma þar sem ég á að vera búin að lesa fimmtán fræðigreinar en náði bara að lesa átta. Keyra svo á Runólfi mínum í Hlíðarnar og borða með Öddu, kaupa myntuís og hlæja að lélegum sjónvarpsþáttum. Ó. Já. Takk.

Ég held samt mínu striki og tekst á við áskoranir hversdagsleikans á Skipaskaga. Ég fangaði deyjandi geitung í gær, skellti yfir hann glasi eftir að hann gaf sjálfum sér dass af steikingu í einni halógenperunni í eldhúsinu. Ég er mjög laus við geitungahræðslu en mér finnst samt alveg óþarfi að þeir séu að upplifa sínar hinstu stundir við hliðina á mér, þeir gætu viljað eyða broddinum í eitthvað sérstakt, hafa smá tilgang með lífinu. En þegar ég var búin að hvolfa yfir hann glasinu fór ég að vorkenna honum. Þetta hefur alla mína ævi verið mitt helsta vandamál, ég vorkenni og vorkenni og vorkenni út í hið óendanlega, öllu og öllum. Ég get í orðanna fyllstu merkingu ekki gert flugu mein. Á sumar lokaði ég óvart á hlaupandi kónguló í vinnunni og mér leið illa allan daginn, hugsandi um hana kramda útaf einhverjum risavöxnum klaufa. Og ég sem er hrædd við kóngulær! En þar sem ég horfði á geitunginn í glasinu áttaði ég mig á því að hann væri reyndar að deyja sama hvar hann væri geymdur og tók einu rökréttu ákvörðunina í stöðunni. Ég gaf honum sykurmola. Og með þann fjársjóð sér við hlið lauk hann jarðvist sinni í gærkvöldi. En lífið heldur áfram og í dag var annar geitungur mættur til að skemmta mér, sem betur fer!