Hugmynd að góðri helgi

Hlutir sem ég ætla EKKI að gera um helgina

 • Hugsa um Icesave
 • Hugsa um Haga, 1998, Jón Ásgeir eða bara eitthvað sem tengist afskriftum skulda
 • Hanga inni of mikið
 • Vakna of snemma
 • Vakna of seint
 • Læra of lítið og fá samviskubit á mánudaginn
 • Eyða heilum degi í óminnishegrann

Hlutir sem ég ÆTLA að gera um helgina

 • Lesa um bernskulæsi og barnabókmenntir
 • Vinna í ritgerð um áðurnefnd efni (fyrst og fremst læsið þó)
 • Fara út að taka myndir
 • Fara í ræktina
 • Horfa á fótbolta
 • Smakka fleiri jólabjóra
 • Kverúlantast á internetinu

Nokkuð viss um að þetta verður bara fínasta helgi.

Selurinn Snorri og nasistarnir

Í barnalæsis og bókmenntaáfanga sem ég er í var minnst á að Silja Aðalsteinnsdóttir telur víst betra að barnabækur hafi meiningar og séu jafnvel pólitískar. Sem dæmi um slíka bók var nefnt stórvirkið um Snorra Sel. Ég veit ekki hvort það er til dæmis um barnslega einfeldni mína á yngri árum eða stíflað bóklæsisnef í seinni tíð en mér hafði bara aldrei dottið í hug að sagan um Snorra væri eitthvað annað en saga um sel sem sigrast á erfiðum aðstæðum. Í mesta lagi væri í bókinni verið að sýna börnum að hægt sé að sigrast á erfiðum aðstæðum. En nei.

 

Höfundur Snorra, Frithjof Sælen, var að rita allegoríu um hernám nasista í Noregi. Selurinn Snorri er norska þjóðin og háhyrningurinn Glefsir og ísbjörninn Voði eru nasistar. Bókin hafði upphaflega undirtitilinn „Dæmisaga í litum fyrir börn og fullorðna“ og fljótlega eftir að hún kom út bönnuðu nasistar hana hreinlega. Hér er smá pistill um bókina og sögu hennar.

 

Ég er svolítið búinn að vera að velta þessu fyrir mér með pólitískan undirtón í barnabókmenntum og hvort og hvernig hann skilar sér. Ég hef heyrt frá nokkrum sem lásu (eða heyrðu) söguna um Snorra á yngri árum en engin kannast við að hafa tengt hana við baráttuna gegn nasisma. Allir eru þó á því að sagan sé góð og málstaðurinn líka. En hvað með málstað sem ekki allir eru jafn hrifnir af?

 

Í Dýrunum í Hálsaskógi, sem hefur fylgt íslenskum börnum í áratugi, er undirtónninn sósíalismi/jafnaðarstefna. Hefur það haft einhver áhrif á börn í gegnum tíðina? Það held ég ekki. Sá boðskapur sem flestir taka frá félögunum í Hálsaskógi er fyrst og fremst sá að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.

 

Virkar pólitískur áróður í barnabókum? Ég á voðalega erfitt með að ímynda mér það. Fyrir það fyrsta held ég að það sé ekkert líklegt að börn á leikskólaaldri (sem ég miða fyrst og fremst við í þessum pælingum vegna eigin náms og starfs) tengi yfirhöfuð það sem fram er fært við einhverja pólitík. Eða bara að þau hefðu yfirhöfuð áhuga á því jafnvel ef svo væri.

 

Það er auðvitað sjálfsagt og jafnvel æskilegt að barnabókmenntir hafi meiningar og reyni að koma til skila góðum gildum. En það er hætt við að flóknari pólitískar meiningar fari einfaldlega fyrir ofan garð og neðan hjá börnum, kannski sem betur fer því börn eiga finnst mér rétt á því að fá að njóta þess að vera börn en ekki pólitískar verur.

 

Sögur eins og Selurinn Snorri og Dýrin í Hálsaskógi lifa áfram af því að þær eru skemmtilegar og vel skrifaðar. Og með fallegan boðskap, jafnvel þó að hann sé ekki alltaf sá sem höfundarnir ætluðu í upphafi.

Iphone og annað dót

Ég á ekki Apple/Mac tölvu og hef aldrei átt. Ég á heldur ekki Ipod. Og fyrr gerist ég styrktaraðili Sjöunda dags aðventista en að ég eyði mínum eigin pening í Iphone á hátt í 150.000. kr.

Þetta er ekki bara af því að mér finnst þetta hipp og kúl hype í kringum Apple seinustu ár ákaflega kjánalegt, þó að það sé reyndar alveg næg ástæða. Mér hefur bara aldrei fundist vörurnar frá þessu fyrirtæki það góðar að verðið á þeim, ömurleg þjónusta og varahlutir og jaðartæki sem kosta álíka mikið og bílavarahlutir  séu ásættanlegur fórnarkostnaður.

Ég hef átt nokkrar PC tölvur og alltaf hafa þær verið alveg nógu góðar fyrir það sem ég þurfti að gera. Ég hef átt mp3 spilara frá Creative sem var bara svona líka fínn og kostaði innan við þriðjung af því sem ódýrasta týpa af Ipod kostaði á þeim tíma. Hann var auk þess með SD kortum sem þýddi að ég gat skipt út minninu í honum eftir eigin geðþótta. Seinustu tveir símar sem ég hef átt hafa svo líka gegnt hlutverki tónlistarspilara.

Ég fatta alveg græjulosta. Ég þarf að beita sjálfan mig hörðu til þess að fara ekki fram úr mér þegar kemur að myndavélum og dóti þeim tengdum. En þá að því sem þessi færsla átti nú að fjalla um:

Hvað í jörðinni er að gerast í hausnum á þeim sem ætlar að selja Iphone á Íslandi á hærra verði en kostar að fljúga til útlanda og kaupa hann þar? Eru ekki þeir sem á annað borð eru það illa haldnir af græjulosta/Appleblæti að þeir bara ÞURFI að eiga Iphone að þeir myndu borga svona verð fyrir hann löngu búnir að útvega sér svoleiðis græju?

Kvöldið mitt – myndasaga

Þar sem ég var óvænt í þeirri stöðu að vera búin að klára allt það sem ég hafði ætlað mér að gera nokkuð snemma í kvöld ákvað ég að kíkja út og taka nokkrar myndir. Það var bæði kalt og leiðinda vindur á stöku stað þannig að ferðin var kannski ekki jafn fengsæl og ég hafði ætlað mér. Eða sjáum til.

Fór fyrst niður að sjó við Kópavoginn. Ætlaði að taka myndir af tunglinu yfir Arnarnesinu en gekk það eitthvað hálf illa. Svo flaug flugvél yfir:

Flugvél

Þegar ég svo gafst endanlega upp á tunglinu sá ég að rétt hjá mér hafði einhver gleymt hjólinu sínu:

Eftirlitslaust hjól

Þegar þarna var komið við sögu var mér bæði orðið kalt og svo mundi ég að ég þurfti að skreppa í búð. Svo ég gerði það:

Hagkaup

Þegar ég var svo að keyra út úr Garðabænum sá ég að þeir eru búnir að setja upp jólaskrautið svo ég smellti mynd af því líka:

Jólaljós í Garðabæ

Því næst keyrði ég Vífilstaðaleiðina áleiðis inn í Kópavog en ákvað að stoppa hjá hesthúsunum og reyna að ná myndum af einhverju þar. Sá strax friðarkertið hennar Ono og ætlaði að reyna að ná því. Því miður er viewfinderinn í vélinni minni engan vegin nógu góður þegar birtan er lítil þannig að ég var lengi að finna rétta fókus og ramma inn myndirnar. Svo fóru bílarnir að keyra framhjá:

Friðarsúlan og bíllinn

Til að gæta að samkeppnissjónarmiðum stoppaði ég á leiðinni heim líka:

Krónan

Því næst fór ég bara heim. Kaldur en nokkuð sáttur.