Hommar, lesbíur og prestar

Þessa dagana fer víst fram eitthvað sem heitir prestastefna. Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvaða samkunda það er en sýnist svona á flestu að þetta sé einhverskonar rabb- og röflsamkoma presta um hin og þessi málefni. Þetta er ekki það sama og kirkjuþing, svo mikið veit ég. Í hverju munurinn felst veit ég hins vegar ekki og mér er eiginlega sama.

Það sem vakti athygli mína varðandi þessa samkundu prestanna er að af einhverjum ástæðum vildi hluti þeirra álykta um þá ráðagerð Alþingis að ætla að drífa loksins í því að sameina hjúskaparlögin sem ríkja í landingu í ein lög. Það var s.s. lögð fram tillaga um að prestastefna lýsti sig samþykka þessari breytingu. Það gátu svartstakkar í sveit presta ekki sætt sig við og lögðu fram sína eigin tillögu sem hljóðaði á þá leið að yrðu lögin samþykkt þá myndu þeir fara fram á það við ríkið að lögformlegu vígsluhlutverki yrði létt af þeim.

Seinni tillagan er auðvitað fullkomlega rétt, algjörlega óháð hjúskaparlögum. Það að ganga í hjónaband er út frá lögum ekki trúarlegur gjörningur og því ætti lögformleg staðfesting á honum ekki að vera á valdi trúarleiðtoga. Fyrri tillagan er, þrátt fyrir að ég sé efnislega sammála því að hjúskaparlögin verði sameinuð, fáránleg. Kirkjunni bara kemur þetta ekki við.

Lúthersk Evangelíska kirkjan á Íslandi má auðvitað hafa hvaða skoðanir og túlkanir sem hún vill í heiðri líkt og önnur trúfélög. En henni kemur ekki við hvernig lagaumgjörð utan um veraldlegar stofnanir eins og hjónaband er úr garði gerð, frekar en henni kemur við hver hámarkshraði er á þjóðvegi 1.

Það sem er svo eiginlega meira sorglegt en nokkuð annað er ruglið í Séra Halldóri Gunnarssyni. Enn einu sinni detta prestar þjóðkirkjunnar í þann daunilla pytt að gera lítið úr samböndum samkynhneigðra. Í þetta skiptið með sögu um eitthvert sóknarbarn sem á í öngum sínum að hafa lýst því yfir að hjónabandi sitt sé eyðilagt verði ein lítil orðalagsbreyting gerð í núverandi hjúskaparlögum þannig að þau gildi ekki lengur bara fyrir karl og konu heldur geri ráð fyrir því að fólk kjósi af fúsum og frjálsum vilja að ganga að eiga aðila af sama kyni.

Ég vona að Séra Halldór hafi rækt hlutverk sitt sem hjónabandsráðgjafi (já, prestar gegna víst slíku hlutverki af einhverjum ástæðum), eða sem betra væri, sent fólkið til einhvers sérfræðings í þeim efnum. Þarna var augljóslega á ferðinni maður í ansi fallvöltu hjónabandi sem ekki má við miklum skakkaföllum eigi ekki illa að fara. Því varla getur það haft svona mikil áhrif á hjónabönd ráðsetts kirkjunefndarfólks að sömu lög gildi um hjónaband þess og hjónaband Felix Bergssonar og Baldurs Þórhallssonar.

Það þarf svo ekki að koma neinum þeim sem hefur fylgst með íslensku ríkiskirkjunni seinustu árin að afstaðan sem tekin var reyndist vera einhverskonar and-afstaða. Þ.e. málinu var vísað til einhvers apparats sem heitir „Kenninganefnd“ kirkjunnar og svo biskubbs. Sem eins og frægt er orðið telur það jafngilda því að henda hjónabandinu á ruslahaugana að sömu lög gildi um alla fullveðja einstaklinga í landinu.

UTN

Já! Ég þarf víst að láta í mér heyra varðandi Upplýsingatæknina öðru hverju.

Var að klára seinni hlutann af verkefni 2 svona bara af því að ég hafði ekkert betra að gera. Er ennþá aðeins að melta með mér hugmyndir um hvað ég á að gera í verkefni 5. Er nokkurn veginn búinn að móta mér hugmynd um hvernig mig langar að vinna verkefnið en ætlar að gefa mér smá tíma í viðbót að íhuga hvaða viðfangsefni ég ætla að velja mér.

Fyrir þá lesendur sem eru svo óheppnir að vera ekki nemendur í UTN0153 við Háskólann á Akureyri þessa önn þá snerist seinni hluti verkefnis 2 um að skrifa um úttekt einhvers samnemanda á grein um upplýsingatækni í skólastarfi (fyrri hlutinn snerist s.s. um að gera svona úttekt). Í verkefni 5 eigum við að gera myndband, helst fræðandi, um eitthvað viðfangsefni að eigin vali. Þetta er nokkuð frjálst, myndbandið má t.d. vera stop-motion eða samsett af myndum.

Mér finnst lang líklegast að ég noti EOS Utility forritið sem fylgir með EOS myndavélum frá Canon og láti það taka myndir af mér með föstu millibili við að gera eitthvað sem áhorfendur muni hafa gagn, og jafnvel gaman, að. Hvað það verður veit nú engin, vandi er um slíkt að forspá. En eitt er víst! Og svo framvegis.

Af kökum og frönskum drottningum

Mig langar, af gefnu tilefni, að benda á að Marie Antoinette sagði aldrei neitt í líkingu við þau ‘frægu ummæli’ sem höfð eru eftir henni. Við getum nokkurn vegin fullyrt þetta út frá tveimur forsendum. Sú fyrri er að ummælin komu í seinasta lagi fram þegar hún var 13 ára (og alls ekki orðin drottning) en jafnvel fyrr. Seinni forsendan er sú að Marie Antionette virðist þvert á móti hafa verið nokkuð hugað um hag þeirra sem áttu minna undir sér (og þá alveg sérstaklega miðað við franskt aðalsfólk gæti maður ímyndað sér).

Þetta er orðin nokkuð útbreidd vitneskja. Frú gúgúl skilar helling af niðurstöðum um þetta, þar af sérstakri wikipedia-grein um þessi ummæli. Þess vegna finnst manni frekar skrýtið að fólk skuli ennþá halda þessari vitleysu á lofti.

Ef ykkur finnst þetta full mikill kverúlantsháttur þá ættuð þið að prófa að lifa með þessu.

Að hallmæla bankastarfsmanni

Bubbi kallinn Morhens skrifaði pistil á Pressuna í gær. Að einhverju leyti er þessi pistill hans skrifaður til að skerpa enn frekar á öðrum pistli sem hann skrifaði um daginn þar sem hann hélt því fram að Jón Ásgeir Jóhannesson bæri ekki ábyrgð á hruninu heldur miklu frekar Davíð Oddsson og menn honum handgengnir. Bubbi notar einnig tækifærið til að segja okkur að hann sé sko ekki hræddur við Davíð eða skósveina hans.

Látum nú liggja á milli hluta hvernig maður sem byggði upp viðskiptaveldi sem skuldar upphæðir sem láta framkvæmdirnar við Kárahnjúka líta út eins og matarkostnað hjá einyrkjafyrirtæki anorexíusjúklings hafði engin áhrif á bankahrunið. Látum liggja á milli hluta að það er alltaf hálf kjánalegt að sjá fullorðna karlmenn gera lítið úr typpastærð annara. Við skulum meira að segja ekki velta okkur upp úr því að Bubba finnst að Samkeppnisstofnun eigi ekki að skipta sér af því hvort að skipta megi eða eigi upp fyrirtækjablokkum.

Það sem mér finnst magnaðast í þessum pistli hans Bubba, og það sem varð nú kveikjan að mínu eigin væli, er það hvernig Bubbi byrjar pistilinn.

„Ef þú hallmælir ekki bankastarfsmanni í það minnsta einu sinni í viku, þá ertu ekki með okkur hinum í liði. “

Hver eruð þið og hver skipti í lið? Er það einmitt það sem okkur vantar í dag, lið sem uppfylla þarf sérstakar haturskröfur til að tilheyra?

Hitt er kannski ennþá hallærislegra. Hvað í ósköpunum hafa bankastarfsmenn gert mér? Og hvar á ég að byrja? Á ég að fara og rífast svolítið við gjaldkera? Á ég að pönkast aðeins á þjónustufulltrúanum mínum? Útibússtjóranum?

Það er rosalega algengt að fólk hrauni yfir þá sem vinna eða hafa unnið í bönkum án þess að geta á nokkurn hátt útskýrt almennilega af hverju. Bubbi naglfestir sig kyrfilega í þann hóp með þessum pistli sínum. Og kannski er það fínt, við erum þá allavega ekki að pæla í því hvað HANN gerði árin fyrir hrunið.