Í léttri sveiflu (PAW)

Pabbi og bræður mínir fengu allt í einu ógurlegan áhuga fyrir golfi. Tók nokkrar myndir af þeim að leika sér en af einhverjum ástæðum vilja fælarnir fyrir alla mynd nema þessa ekki hlýða mér.

Þannig að mynd-á-viku mynd númer 22 er kannski ekkert spes, hefði allavega átt að vera betri.

Mynd-á-viku mynd númer 22. Allar myndirnar hingað til eru hér.

Jón Gnarr, SHS og útsvarið á Seltjarnarnesi

Í seinasta Reykjavík Grapevine er viðtal við Jón Gnarr. Þetta er eins konar kosningaviðtal þar sem reynt er að fá svör frá honum við spurningum sem gætu, eða ættu allavega, að skipta kjósendur máli fyrir kjördag eftir tæpa viku. Mér finnst reyndar að það hefði mátt krefja Jón ennþá innihaldsmeiri svara en hann gefur í viðtalinu en þess var kannski ekki kostur. Illugi Jökulsson snaraði viðtalinu yfir á íslensku og birti á bloggi sínu. Þar sem ég hafði ekki enn orðið mér úti um Grapevine þá sá ég viðtalið fyrst þar og rak strax augun í eftirfarandi ummæli Jóns.

„Hvað snertir það að leggja toll á fólk af Seltjarnarnesi þegar það vill koma til Reykjavíkur, þá finnst mér ekkert nema eðlilegt að þetta fólk leggi eitthvað af mörkum til borgarsjóðs, því það notar fullt af þjónustu frá okkur – við slökkvum eldana þar til dæmis. Nú þegar þarf að skera niður af því það vantar peninga, þá grobba Seltirningar – ríkasta sveitarfélag landsins – sig af því að borga lægsta útsvar landsins.“

Nú veit ég að það er ekki beinlínis vinsælt að gagnrýna Besta-flokkinn eða Jón Gnarr en fyrst að flokkurinn er nú á annað borð í kosningabaráttu þá hreinlega verð ég að fá að benda á hversu mikla vanþekkingu þessi ummæli afhjúpa. Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins er rekið sameiginlega af sveitarfélögunum sem mynda höfuðborgarsvæðið (hintið er í nafninu sjáið til). Kostnaðinum er skipt eftir íbúafjölda. Reykvíkingar eru ca. 60% af íbúum höfuðborgarsvæðisins og hlutur þeirra er eftir því. Á móti kemur að formaður stjórnar SHS kemur ávallt frá borginni. Seltirningar borga hlutfallslega jafn mikið og Reykvíkingar til SHS. Það að Seltirningar geti tekið þátt í þessum kostnaði en samt haldið útsvari lágu er auðvitað þeirra einkamál (þessi setning gleymdist í upphaflegri útgáfu færslunnar). Ég er kannski bara gamaldags og púkó en mér finnst að þetta sé akkúrat svona hlutur sem maður sem er jafnvel að verða borgarstjóri eftir tæpa viku eigi að vita.

Annars óska ég Jóni og Besta flokknum góðs gengis í kosningunum og vona að þeir borgarfulltrúar sem flokkurinn fær setji sig vel inn í öll mál. Vonandi standa þeir sig betur en núverandi borgarfulltrúar hafa almennt staðið sig, sem er þó líklega ekki erfitt.

Ógn við mannlegt samfélag

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna. Og viðurkenna að þegar allt kemur til alls sé einfaldlega ekkert vit í því að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni. Eða hvað?“ – Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar, 1. janúar 2003.

Kristinn Theodórsson er skemmtilegur bloggari. Hann er trúlaus og er eftir því sem ég best veit meðlimur í Vantrú. Hann notaði tækifærið á Uppstigningardag og rifjaði upp nokkur fleyg ummæli Karls Sigurbjörnssonar um trúleysi/trúleysingja frá liðnum árum. Þar á meðal þau sem eru hér fyrir ofan. Í nýjasta blogginu sínu kemur Kristinn svo eilítið inn á lög um guðlast á Íslandi.

Þetta tvennt tengdist svo á einhvern hátt saman í hausnum á mér og eftirfarandi hugleiðingar urðu til.

Fyrir 13 árum síðan varð uppi fótur og fit vegna þess að Spaugstofumenn leyfðu sér að grínast örlítið með biblíusögur laugardaginn fyrir páska. Aðallega voru það tvö atriði sem fóru fyrir brjóstið á strangtrúuðum, útúrsnúningur á seinustu kvöldmáltíðinni og atriði þar sem Jesú hjálpar blindum manni með áskrift að sjónvarpstöðinni Sýn. Þetta fannst kirkjunnar mönnum svo ofboðslegt að þáverandi biskup, Ólafur Skúlason, lét Ríkissaksóknara vita af glæpnum og hann fól Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsaka málið. Spaugstofumenn voru þá kallaðir til yfirheyrslu. Einnig sendi biskup formlegt kvörtunarbréf til RÚV sem gerði þó ekkert með það. Á endanum var ákveðið að ákæra ekki, tjáningarfrelsi á Íslandi til heilla.

Þjóðkirkjunni íslensku finnst s.s. ekki alveg í lagi (eða fannst það í það minnsta á þessum tíma) að menn grínist aðeins með helgisögurnar. Það er algjört nónó og engu skiptir þó að grínið sé góðlátlegt og saklaust. Það er enda hálfgert tabú að grínast með eða rökræða trúarskoðanir fólks. Það er nóg að skoða umræðurnar sem skapast á vef Vantrúar til að sjá dæmi um það.

En þetta gildir greinilega ekki um trúleysingja. Hvað eftir annað koma leiðindaskot og dylgjur í garð þeirra frá bæði biskupi og prestum. Og menn hika ekki við að nota tækifærið í nýársávörpum og páskapredikunum til að reyna að sannfæra fólk um að trúleysi sé ömurlegt ástand að vera í og leiði ekkert gott af sér. Þetta er ekki hugsað sem grín og hvað þá góðlátlegt. Saklaust er þetta auk þess ekki.

Samt sem áður hefur aldrei komið til tals að rannsaka ummæli biskups eða presta og ég veit ekki til þess að trúleysingjar hafi formlega farið fram á slíkt. Enda væri það fáránlegt. Það er miklu betra að benda á hversu siðferðislega röng þessu ummæli flest eru og takast á við trúaða í rökræðum (eins langt og það nú nær) en að hringja kjökrandi í vælubílinn.

Nælurnar hans afa (PAW)

Afi safnaði nælum. Ég er með slatta af þeim heima og var aðeins að skoða þær í gær og fann nokkrar merkilgar og flottar.

Þarna eru merki frá lýðveldishátíðinni 1944, tveir sjálfstæðisfálkar (sá hægra megin er úr gulli) og styrktarmerki Styrktarfélags Vangefinna.

Það seinasta er kannski ekki neitt sérstaklega merkilegt en mér finnst það skondið merki um hvernig tímarnir breytast.

Mynd-á-viku mynd númer 19. Allar myndirnar hingað til eru hér.