Furðu lostinn yfir viðbrögðum biskups!

Eða þannig. Biskup segir að ekkert sé til sem heiti algjör aðskilnaður ríkis og kirkju með því að endurskilgreina kröfuna í þá átt að hún sé sú að trú verði bönnuð, dregur Norður-Kóreu inn í umræðuna til að fá fram einhver hugrenningartengsl (einhverskonar neo-Godwins law) og þvælir svo með það að ríki og kirkja og trú og samfélag séu svo rosalega samofin að þetta gangi ekki upp. Jú og svo er mantran um nauðsyn þess að hafa trúar’stofnun’ á ‘þessum tímum’ kyrjuð.

Semsagt mjög dæmigerð viðbrögð frá embættismanninum Karli Sigurbjörnssyni sem óttast að missa spón úr aski sínum. Ég veit að það er líklegra að Snorri í Betel leiði gleðigönguna á næsta ári en mikið væri nú gaman að fá málefnaleg viðbrögð sem gætu orðið grundvöllur fyrir almennilegri umræðu um þessi mál frá æðstu embættismönnum ríkiskirkjunnar í stað útúrsnúninga og ómálefnalegra klisjuframreiðslu.

Krafan er ekki flókin og hún er ekki óframkvæmanleg. Hún hins vegar setur ríkisstofnunina þjóðkirkju á sama stall og önnur trúfélög í landinu (s.s. minnst einni skör ofan en lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt geta komist á miðað við núverandi lög) og það geta ríkisstarfsmennirnir ekki sætt sig við. Það væri heiðarlegra, og jafnvel kristilegra, að þeir viðurkenndu einfaldlega að þeir eru í baráttu fyrir eigin kjörum og stöðu en standa ekki í einhverri háheilagri brjóstvörn fyrir sáluhjálp hins venjulega Íslendings. En vel yfir 70% af því þýði vill einmitt aðskilnaðinn.