Íbúar blæða fyrir tortryggni nýs meirihluta í Kópavogi

Nýr meirihluti tók við stjórnartaumunum í Kópavogi í sumar. Það var eðlilegt með tilliti til niðurstöðu kosninganna og þess anda sem mér fannst ríkjandi í bænum að flokkarnir tveir sem höfðu stjórnað samfleytt frá árinu 1991 kæmu ekki að stjórn núna. Það var hins vegar alltaf ljóst að það yrði flókið mál að mynda meirihluta hinna flokkana. Þar raðast saman þrír bæjarfulltrúar Samfylkingar við þrjá fulltrúa sem VG, Næst Besti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa deila á milli sín.

Það tók dágóðan tíma fyrir flokkana að koma sér saman á málefnasamning og það bárust út fréttir um að ósætti hefði verið um hver ætti að sitja í sæti bæjarstjóra. Bæjarstóramálið leystist hins vegar að ég tel farsællega fyrir alla og flokkarnir náðu samkomulagi um samstarf í bæjarstjórn og það hvernig þeir skiptu á milli sín sætum í nefndum.

Þegar kemur að nefndarsetum þá virðist þar birtast tortryggni á milli flokkanna í meirihlutanum. Þeim nefnilega nægir ekki að skipta á milli sín sætum í nefndum heldur eiga flokkarnir sem ekki fá sæti í viðkomandi nefnd oftar en ekki áheyrnarfulltrúa í nefndunum. Þetta er nýtt. Ég hef verið varamaður í nefndum bæjarins seinustu tvö kjörtímabil, fyrst í Byggingarnefnd og svo í Jafnréttisnefnd. Í Jafnréttisnefndinni sátu tveir fulltrúar frá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og einn frá Framsókn. VG átti þar ekki fulltrúa þó að þeir ættu bæjarfulltrúa og fóru ekki fram á að áheyrnarfulltrúi frá þeim sæti fundi nefndarinnar.

Áheyrnarfulltrúi hefur ekkert vægi innan nefndar sem hann situr fundi hjá. Hann tekur engan formlegan þátt í ákvörðunum hennar. Og hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir því að þeir fái borgað fyrir nefndarsetu. En nú er semsagt búið að breyta því. Það er s.s. ekki nóg með að flokkarnir sem sitja saman í bæjarstjórn treysti hvorum öðrum ekki betur en það að þeir sem ekki fá sætum úthlutað í ákveðnar nefndir þurfi að fá að sitja yfir þeim til öryggis heldur eiga bæjarbúar að fá að borga fyrir þetta óöryggi.

Það er samt ennþá gott að búa í Kópavogi.

Skrýtin skilaboð um jafnrétti frá Menntamálaráðuneyti

Inn um lúguna á leikskólanum þar sem ég er í vettvangsnámi þessar vikurnar datt nýtt rit frá Menntamálaráðuneytinu um jafnréttismál. Kynungabók heitir ritið og er því beint til ungs fólks. Þetta er flottur bæklingur í A4 broti myndskreyttur af Hugleiki Dagssyni og um umbrot og hönnun sá Kári Emil Helgason. Um tilefni og tilgang útgáfunnar má sjá þetta á heimasíðu ráðuneytisins:

Markmið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. #

Feitletrunin er mín. Það er nefnilega svo að í þessum annars fína bæklingi eiga bara tveir karlmenn beinan hlut, þeir Hugleikur og Kári. Allt efni hans er samið af konum. Örugglega mjög hæfum konum, ég efast ekki um það. Og miðað við það sem ég hef skoðað af bæklingnum þá er hann alls ekki illa unninn.

En þetta vekur athygli. Sérstaklega nú á tímum ríkisstjórnar sem ætlar sér að rétta hlut kynjanna með beinum aðgerðum (líkt og kynjakvóta á fyrirtækjastjórnir). Það hefur verið eftir því tekið að þegar kemur að því að skipa ráð og nefndir, sama hvort um er að ræða eitthvað sem tengist jafnréttismálum eða ekki, þá hafa kynjahlutföll alls ekki alltaf verið höfð til hliðsjónar. Eini munurinn hefur verið sá að í jafnréttismálum eru kynjahlutföllinn yfirleitt öfug.

Getur í alvörunni verið að engin karlmaður hafi fengist til að koma að því að semja efni bæklingsins eða hugleiddi engin að þarna er enn verið að viðhalda þeirri leiðu mýtu að jafnréttismál séu eitthvað frekar á könnu kvenna en karla?

Hate religion – love people

Langar að benda á þennan vefvarpspistil eftir Penn Jillette sem kom held ég barasta út í dag eða í gær. Á twitter kynnti Penn pistilinn með orðunum „Hate religion  – love people. Don’t respect religion – respect people“ og hann leggur útaf þeim þarna.

Ég tek annars bara undir meira og minna allt sem hann segir þarna, og tengi þetta svolítið umræðunni sem nú er í gangi um að múslimar fái að byggja sér mosku eða eitthvað álíka hér á landi. Mér er alveg sama um það málefni, svo lengi sem þeir eins og önnur félög halda sig innan ramma laganna sem hér gilda. Mín afstaða gagnvart Islam er nákvæmlega eins og afstaða mín gagnvart kristni og ég mun (og hef) bent á fáránlega hluti úr þeirra ranni og fær örugglega tækifæri til þess þegar þeir fara að verða meira í umræðunni hérna heima.

Niðurgreiðsla þjónustumiðstöðva ríkiskirkjunnar

Prestshjónin Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifa magnaðan pistil í Fréttablaðið í dag. Honum er ætlað að benda á hætturnar sem steðja að ríkiskirkjunni vegna úrskráninga úr henni. Mér finnst merkilegt að í pistlinum er ekki minnst einu orði á að andlegu ástandi eða siðferði þjóðarinnar stafi einhver hætta af úrskráningu, og hef reyndar ekki séð neinn tala á þeim nótum í allri þeirri umræðu sem fram hefur farið seinustu vikur, heldur er áherslan lögð á þjónustuskort vegna minni tekna kirkjunnar af sóknargjöldum.

Árni og Kristín benda nefnilega á að í öllum þessum kirkjum sem dreifa sér um allar koppagrundir hér á landi sé nefnilega rekin þjónustumiðstöð fyrir „nærsamfélagið“. Þessi þjónustumiðstöð sé öllum opin og það sem meira er þá geti allir haft áhrif á störf hennar í gegnum sóknarnefndir. En segi fólk sig úr ríkiskirkjunni þá hætta þær 767 krónur sem renna frá hverjum meðlimi til sinnar þjónustumiðstöðvar á mánuði að berast og það sé hrein skerðing á þjónustu í samfélaginu, vegna þess að ekkert komi í staðinn.

Látum nú vera hvort að þjónustumiðstöðvarnar séu í raun öllum í „nærsamfélginu“ opnar. Og pælum ekki í því hversu auðvelt eða erfitt það er fyrir sauðsvartan almúgann að gera sig gildandi í sóknarnefndum. Það er hins vegar tvennt sem mig langar að gera athugasemdir við í pistli hjónakornanna .

Þær 767 krónur sem ríkið greiðir viðkomandi sóknarkirkju úr ríkissjóði fyrir hvern sóknarmeðlim komast ekki nálægt því að standa undir rekstri viðkomandi kirkju/þjónustumiðstöð, og það hlýtur líka að verða að benda á að stór kostnaðarliður í rekstrinum sem er laun presta er algjörlega óháður sóknargjöldunum. Kostnaður ríkisjóðs vegna ríkistrúfélagsins er miklu hærri en sem nemur þessi sóknargjöldum. Og fyrir öll meiriháttar viðvik eins og fermingar og fermingarfræðslu (og lán á kyrtlum ffs!), útfarir og giftingar rukkar þjónustumiðstöðin sérstaklega. Þannig að það er ekki alveg rétt eins og sagt er í greininni að rekstur þjónustumiðstöðvanna hvíli á sóknargjöldum. Og þeir sem ekki tilheyra þeim borga þær niður heilan slatta fyrir meðlimina.

Hin athugasemdin snýr að því hvað gerist þegar þjónustumiðstöðin verður af þessum tekjum sem sóknargjöldin skapa henni. Þá verður, eins og hjúin benda réttilega á, að draga saman. En er það ekki eðlilegasti hlutur í heimi? Þegar meðlimum fækkar þá ætti kostnaðurinn nú væntanlega eitthvað að minnka ekki satt? Og þeir sem segja sig úr ríkiskirkjunni eru nú varla að fara að vera mikil byrði á henni fjárhagslega með kröfum um þjónustu eða hvað?

Eitthvað grunar manni að meirihluti þeirra sem sagt sig hefur úr ríkiskirkjunni seinustu vikur muni seint hafa talist til virkari meðlima hennar fyrir úrsögn og að þeir hafi frekar en hitt verið að greiða þjónustumiðstöðvarnar niður fyrir hina virkari með sínum 767 krónum á mánuði. Sem er kannski ekki mikill peningur í sjálfu sér. En prestar landsins gera sér líklega grein fyrir því að safnast þegar saman kemur. Eins og sést á orðum Magnúsar Erlingssonar, prests á Ísafirði um daginn, þar sem hann kvatti fólk endilega til að halda frekar áfram að niðurgreiða kirkjuna sína þó að það væri ósátt við hana en að láta peningin fara í samneysluna fyrir sunnan:

Svo vil ég benda á að þeir, sem skrá sig utan trúfélaga, losna ekki undan því að greiða hinn árlega níu þúsund kall.  En í stað þess að sá aur renni til trúfélags í heimabyggðinni þá rennur hann í ríkiskassann hans Steingríms, sem mun víst vera því sem næst botnlaus hít að fróðra manna sögn. #