Niðurgreiðsla þjónustumiðstöðva ríkiskirkjunnar

Prestshjónin Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifa magnaðan pistil í Fréttablaðið í dag. Honum er ætlað að benda á hætturnar sem steðja að ríkiskirkjunni vegna úrskráninga úr henni. Mér finnst merkilegt að í pistlinum er ekki minnst einu orði á að andlegu ástandi eða siðferði þjóðarinnar stafi einhver hætta af úrskráningu, og hef reyndar ekki séð neinn tala á þeim nótum í allri þeirri umræðu sem fram hefur farið seinustu vikur, heldur er áherslan lögð á þjónustuskort vegna minni tekna kirkjunnar af sóknargjöldum.

Árni og Kristín benda nefnilega á að í öllum þessum kirkjum sem dreifa sér um allar koppagrundir hér á landi sé nefnilega rekin þjónustumiðstöð fyrir „nærsamfélagið“. Þessi þjónustumiðstöð sé öllum opin og það sem meira er þá geti allir haft áhrif á störf hennar í gegnum sóknarnefndir. En segi fólk sig úr ríkiskirkjunni þá hætta þær 767 krónur sem renna frá hverjum meðlimi til sinnar þjónustumiðstöðvar á mánuði að berast og það sé hrein skerðing á þjónustu í samfélaginu, vegna þess að ekkert komi í staðinn.

Látum nú vera hvort að þjónustumiðstöðvarnar séu í raun öllum í „nærsamfélginu“ opnar. Og pælum ekki í því hversu auðvelt eða erfitt það er fyrir sauðsvartan almúgann að gera sig gildandi í sóknarnefndum. Það er hins vegar tvennt sem mig langar að gera athugasemdir við í pistli hjónakornanna .

Þær 767 krónur sem ríkið greiðir viðkomandi sóknarkirkju úr ríkissjóði fyrir hvern sóknarmeðlim komast ekki nálægt því að standa undir rekstri viðkomandi kirkju/þjónustumiðstöð, og það hlýtur líka að verða að benda á að stór kostnaðarliður í rekstrinum sem er laun presta er algjörlega óháður sóknargjöldunum. Kostnaður ríkisjóðs vegna ríkistrúfélagsins er miklu hærri en sem nemur þessi sóknargjöldum. Og fyrir öll meiriháttar viðvik eins og fermingar og fermingarfræðslu (og lán á kyrtlum ffs!), útfarir og giftingar rukkar þjónustumiðstöðin sérstaklega. Þannig að það er ekki alveg rétt eins og sagt er í greininni að rekstur þjónustumiðstöðvanna hvíli á sóknargjöldum. Og þeir sem ekki tilheyra þeim borga þær niður heilan slatta fyrir meðlimina.

Hin athugasemdin snýr að því hvað gerist þegar þjónustumiðstöðin verður af þessum tekjum sem sóknargjöldin skapa henni. Þá verður, eins og hjúin benda réttilega á, að draga saman. En er það ekki eðlilegasti hlutur í heimi? Þegar meðlimum fækkar þá ætti kostnaðurinn nú væntanlega eitthvað að minnka ekki satt? Og þeir sem segja sig úr ríkiskirkjunni eru nú varla að fara að vera mikil byrði á henni fjárhagslega með kröfum um þjónustu eða hvað?

Eitthvað grunar manni að meirihluti þeirra sem sagt sig hefur úr ríkiskirkjunni seinustu vikur muni seint hafa talist til virkari meðlima hennar fyrir úrsögn og að þeir hafi frekar en hitt verið að greiða þjónustumiðstöðvarnar niður fyrir hina virkari með sínum 767 krónum á mánuði. Sem er kannski ekki mikill peningur í sjálfu sér. En prestar landsins gera sér líklega grein fyrir því að safnast þegar saman kemur. Eins og sést á orðum Magnúsar Erlingssonar, prests á Ísafirði um daginn, þar sem hann kvatti fólk endilega til að halda frekar áfram að niðurgreiða kirkjuna sína þó að það væri ósátt við hana en að láta peningin fara í samneysluna fyrir sunnan:

Svo vil ég benda á að þeir, sem skrá sig utan trúfélaga, losna ekki undan því að greiða hinn árlega níu þúsund kall.  En í stað þess að sá aur renni til trúfélags í heimabyggðinni þá rennur hann í ríkiskassann hans Steingríms, sem mun víst vera því sem næst botnlaus hít að fróðra manna sögn. #