Íbúar blæða fyrir tortryggni nýs meirihluta í Kópavogi

Nýr meirihluti tók við stjórnartaumunum í Kópavogi í sumar. Það var eðlilegt með tilliti til niðurstöðu kosninganna og þess anda sem mér fannst ríkjandi í bænum að flokkarnir tveir sem höfðu stjórnað samfleytt frá árinu 1991 kæmu ekki að stjórn núna. Það var hins vegar alltaf ljóst að það yrði flókið mál að mynda meirihluta hinna flokkana. Þar raðast saman þrír bæjarfulltrúar Samfylkingar við þrjá fulltrúa sem VG, Næst Besti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa deila á milli sín.

Það tók dágóðan tíma fyrir flokkana að koma sér saman á málefnasamning og það bárust út fréttir um að ósætti hefði verið um hver ætti að sitja í sæti bæjarstjóra. Bæjarstóramálið leystist hins vegar að ég tel farsællega fyrir alla og flokkarnir náðu samkomulagi um samstarf í bæjarstjórn og það hvernig þeir skiptu á milli sín sætum í nefndum.

Þegar kemur að nefndarsetum þá virðist þar birtast tortryggni á milli flokkanna í meirihlutanum. Þeim nefnilega nægir ekki að skipta á milli sín sætum í nefndum heldur eiga flokkarnir sem ekki fá sæti í viðkomandi nefnd oftar en ekki áheyrnarfulltrúa í nefndunum. Þetta er nýtt. Ég hef verið varamaður í nefndum bæjarins seinustu tvö kjörtímabil, fyrst í Byggingarnefnd og svo í Jafnréttisnefnd. Í Jafnréttisnefndinni sátu tveir fulltrúar frá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og einn frá Framsókn. VG átti þar ekki fulltrúa þó að þeir ættu bæjarfulltrúa og fóru ekki fram á að áheyrnarfulltrúi frá þeim sæti fundi nefndarinnar.

Áheyrnarfulltrúi hefur ekkert vægi innan nefndar sem hann situr fundi hjá. Hann tekur engan formlegan þátt í ákvörðunum hennar. Og hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir því að þeir fái borgað fyrir nefndarsetu. En nú er semsagt búið að breyta því. Það er s.s. ekki nóg með að flokkarnir sem sitja saman í bæjarstjórn treysti hvorum öðrum ekki betur en það að þeir sem ekki fá sætum úthlutað í ákveðnar nefndir þurfi að fá að sitja yfir þeim til öryggis heldur eiga bæjarbúar að fá að borga fyrir þetta óöryggi.

Það er samt ennþá gott að búa í Kópavogi.