Af hverju léleg kjörsókn?

Ég veit ekki af hverju kjörsóknin í gær var svona léleg. Ég væri alveg til í yfirvegaða umræðu um það. Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar virðist hins vegar vera búin að finna orsökina og hún felst annars vegar í því að kosningavélar stóru flokkana fóru ekki af stað og hins vegar að almenningur sé sinnulaus um þessi mál.

Þetta finnst mér lélegt hjá Guðrúnu og held að hún sé að láta eigin vonbrigði blinda sig. Getur verið að orsökina sé frekar að finna í stjórnlagaþinginu sjálfu? Tilgangi þess og skipulagi? Framkvæmd kosninganna? Fjölda frambjóðenda? Lélegri kynningu?

Þegar við lítum til kjörsóknar í seinustu þing- og sveitarstjórnarkosningum og þess að kjörsókn í þá næsta tilgangslausri þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave var miklu betri en í gær þá finnst mér í það minnsta augljóst að eigi að vera hægt að draga einhvern lærdóm af því sem gerðist í gær þá verði það ekki þeir sem aðhyllast viðhorfin sem Guðrún setur fram sem hjálpa okkur í því verkefni.

Má ég frekar biðja um málefnalega umræðu en fýluköst?

Salmonellan og Matfugl

Á mbl.is má nú sjá frétt um að grunur er um salmonellusmit í kjúklingi frá Matfugli. Mig minnti að ég hefði nú séð fréttir um smit hjá Matfugli áður ekki fyrir löngu og smá gúgl staðfesti þann grun minn. Þetta er (í það minnsta) í fjórða sinn á þessu ári sem þetta gerist. Fyrst 28. febrúar, svo 6. apríl og loks 30. júlí.

Ætli þetta sé alveg eðlilegt? Ég tók stykkprufu með Ísfugli og sömu leitarorðum en fann engar fréttir nema um það hversu öflugt eftirlitskerfi þeir segjast vera með. Í öllum fréttunum er tekið fram að engin hætta sé á ferðunum ef fólk meðhöndlar fuglinn rétt en ég verð að viðurkenna að ég efast um að ég kaupi fugl frá Matfugli á næstunni.

Að kjósa ekki

Ég er rétt kominn heim eftir að hafa skotist út og kosið. Ekki get ég sagt að það hafi verið fullt út úr dyrum niðri í Smára og fréttir af kjörsókn benda til þess að þetta hafi farið hægt af stað og enn sem komið er allavega ekki aukið hraðann. Ég veit svosem ekki hvað veldur. Ég er alinn upp við það að maður mæti á kjörstað þegar kosningar eru, þó ekki nema bara til þess að stinga auðum miða í kjörkassa. En eftir að ég komst til vits og ára hef ég hins vegar áttað mig á því að það getur alveg fólgist afstaða í því að sniðganga kosningar.

Ef maður tekur orðræðu þeirra sem vilja að eitthvað stórkostlegt komi út úr þessu þingi trúanlega eru þeir sem ekki kjósa annað hvort latir kjánar sem ekki eiga rétt á því að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum ef þeir mæti ekki á kjörstað eða þá fulltrúar annarlegra sjónarmiða. Það er eins og þetta fólk  átti sig ekki á því að það eru einfaldlega ekki allir jafn sannfærðir um það þurfti í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni vegna þess sem gerðist fyrir og í hruninu, enda hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því. Einnig getur fólk verið í vafa um ágæti fyrirkomulags stjórnlagaþingsins sjálfs, þess að breyta stjórnskipunarlögum í jafn óvenjulegu ástandi og nú ríkir, þess að hafa yfirhöfuð stjórnarskrá eða bara einfaldlega fólksins sem er í framboði.

Það geta s.s. alveg verið til gildar ástæður fyrir því að sitja heima. Þegar ofan á þetta bætist að velja þarf á milli 521 frambjóðenda finnst mér alveg morgunljóst að þeir sem á annað borð efist um ágæti stjórnlagaþings muni fæstir nenna að klóra sig í gegnum þennan hafsjó frambjóðenda.

Ég sjálfur telst til seint til þeirra sem binda miklar vonir við að stjórnlagaþingið og afrakstur þess muni skipta sköpum fyrir framtíðarhorfur þjóðfélagsins. Ég kaus af því að ég tek þátt í öllum kosningum. Mér nýtti mér DV og Sigtið auk græna listanns á Aðskilnaði til þess að finna frambjóðendur og hafði gaman að þessu, einfaldlega af því að ég hef almennt mikinn á huga á samfélagsmálum. Ég bind einnig vonir við að þarna takist allavega að hrinda af stað aðskilnaðarferli lúthers evangelíska trúfélagsins hér á landi við ríkisjötuna.

En að dæma þá úr leik í þjóðfélagsumræðunni sem ekki kjósa finnst mér ekki gáfulegt, hvað þá ef að í ljós kemur að minni en helmingur kosningabærra manna mæti á kjörstað. Þá er einfaldlega hættan á því að spilin snúist við.

Fáránleg tillaga Árna Johnsen og félaga

Í gær var útbýtt á þingi tillögu til þingsályktunar „um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf“. Þingsályktunartillagan sjálf er algjör froða sem erfitt er að sjá einhverja merkingu úr. Reyndar er merkilegt að hún fjallar ekkert um mikilvægi fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf heldur er eingöngu bent á kristnu arfleiðina í grunnskólalögunum og alþingi á að álykta að mikilvægt sé að vel sé staðið að fræðslu um hinn kristna menningararf. S.s. algjörlega innihaldslaust þvaður í ljósi þess að þetta er eitthvað sem skólar gera nú þegar.

Greinargerðin sem fylgir er hins vegar upplýsandi. Árni og félagar eru að bregðast við tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Þeim finnst ósanngjarnt að ríkiskirkjan fái ekki lengur að mæta í grunnskóla til að kynna æskulýðsstarf fyrst að íþróttafélög fái að gera það. Af því að eins og allir vita þá eru trú- og lífsskoðunarfélög algjörlega sambærileg við íþróttafélög. Svo kemur þetta gullkorn hérna:

Hafa börn og foreldrar ekki rétt á að vita hvað er í boði fyrir börnin og velja sjálf úr? Verði tekið fyrir þessa kynningu er um að ræða ofríki undir merkjum trúfrelsis. Trúfrelsi er m.a. fólgið í því að hafa tækifæri til að velja. Barnasáttmálinn á t.d. að tryggja rétt barna til að velja.

Ég vona að meðflutningsmenn Árna hafi gleymt að lesa yfir greinargerðina því að ég trúi því ekki að þau átti sig ekki á því að það er engin að taka réttinn til þess að velja af börnum. Það er verið að færa valið af skólatíma og úr opinberu menntakerfi yfir á tímann sem börnin eiga með foreldrum sínum. Sem er auðvitað rétti vettvangurinn til þess að íhuga þátttöku í trúarstarfi.

Næst er Gídeonfélagið tekið fyrir. Aftur virðast þingmennirnir ekki átta sig á því að það er ekki verið að banna Gídeon að gefa þeim sem vilja Nýja Testamentið. Það er bara verið að koma í veg fyrir að það fari fram í skólastofum þar sem félagsmenn Gídeon hafa sýnt sterka tilhneigð til þess að iðka trúarathafnir eins og bænir með börnunum.

Af hverju getur Gídeon ekki gefið börnunum NT eftir öðrum leiðum?  Af hverju geta börn ekki valið sér trúarstarf utan skólatíma? Af hverju ÞARF þetta að fara fram í opinberum skólum?

Margir þeirra skóla sem hafa samstarf við sóknarkirkjur kynna slíkt samstarf á heimasíðu sinni í þeim tilgangi að foreldrar geti brugðist við kjósi þeir að börn þeirra taki ekki þátt í því sem kirkja og skóli bjóða upp á í sameiningu.

Þarna liggur hnífurinn grafinn. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að bjóða upp á atburði á skólatíma sem sumir þurfa annað hvort að taka þátt í gegn trúarsannfæringu eða lífsskoðun eða verða tekin frá skólafélögum sínum annars.

Það vekur líka sérstaka athygli mína, en engan vegin undrun, að Árni og félagar pæla ekkert í leikskólanum. Það er enn ein vísbendingin um að þarna sé á ferðinni illa hugsuð árás á Mannréttindaráð RVK-borgar sem byggist fyrst og fremst á ummælum presta og annara kirkjumanna, sem hafa fyrst og fremst einblínt á grunnskólann.

Þingmennirnir sem standa að þessari tillögu með Árna eru Ragnheiður E. Árnadóttir, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Vigdís Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Bætt við 27. nóvember:

Í athugasemdum við þessa grein sem birtust á síðu Vantrúar er bent á mjög áhugaverða staðreynd sem rennir enn frekari stoðum undir þá fullyrðingu að ekki hafi verið vandað til verka þegar þessi tillaga var samin. Í greinargerðinni er vitnað til skýrslu sem gefin var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for Security and Co-operation in Europe. Það er skrýtið að vitna í skýrslu þessara samtaka því að þegar hún er lesin er augljóst að niðurstöður hennar ganga þvert gegn þeirri skoðun sem skýn í gegnum greinargerðina. Ég ætla að leyfa mér að birta bara í heilu lagi athugasemd Jóns Steinars (sem mig minnir að sé Ragnarsson):

Í þessu ótrúlega hnoði, sem kallast frumvrp, er vísað í skýrslu frá alþjóðlegum samtökum, sem vilja efla trúfrelsi og skilning á lífsviðhorfum í skólakerfinu. Þeirra marmið er klárlega það að halda trúboði utan skólakerfis og nálgast trúarbragðakennslu hlutlaust.

Þetta plagg og tilvitnun út úr samhengi er horsteinn frumvarpsins og virðist sem flytjendur skilji tilvitnunina sem stuðning við markmið sín þegar í raun tilvitnunin undirstrikar að hér sé um fræðilega nálgun að ræða en ekki innrætingu. Þetta kemur svo klingjandi klárlega fram í skýrslunni sjálfri, sem í raun réttri styður ályktun mannréttindaráðs í bak og fyrir og gengur jafnvel lengra í sinni afmörkun.

Þau alþjóðlegu samtök, sem standa að téðri skýrslu og leiðbeiningum um trúarbragðafræðslu eru gömul og hefur Ísland verið þáttakandi og samþykkt ályktanir þeirra frá 1973.

Ef við höfum skuldbundið okkur til að fylgja vinnureglum þessarar skýrslu, þá legg ég til að þessi samtök verði beðin um álit á þessu máli mannréttinanefndar. Þá er nokkuð víst að þeir muni fallast á rök nefndarinnar og jafnvel hnykkja enn frekar á hlutleysiskröfum.

Hér er þessi skýrsla, sem vísað er í: http://www.osce.org/publications/odihr/2007/11/28314_993_en.pdf

Í henni eru tekin nokkur dæmi um dómsmál gegn trúboði og dreyfingu trúarrita í skólum, þar sem menn hafa kært slíkt og unnið. Menn geta peistað málin af listanum inn í google og lesið þau.

Ég legg til að menn lesi þetta vel og nýti sér það einmitt sem rök gegn þessu fáránlega frumvarpi, því ekkert í því styður kröfuna heldur þvert á móti.

Í markmiðum stofnunarinnar segir þetta m.a.:

„The starting point is the understanding that teaching about religions and beliefs is not devotionally and denominationally oriented. It strives for student awareness of religions and beliefs, but does not press for student acceptance of any of them; it sponsors study about religions and beliefs, not their practice; it may expose students to a diversity of religious and non-religious views, but does not impose any particular view; it educates about religions and beliefs without promoting or denigrating any of them; it informs students about various religions and beliefs, it does not seek to conform or convert students to any particular religion or belief. Study about religions and beliefs should be based on sound scholarship, which is an essential precondition for giving students both a fair and deeper understanding of the various faith traditions.“

Við erum hlutaðeigendur að þessu mjög svo secular samkomulagi og ættum að fylgja því eftir út í hörgul.

Manni dettur helst í hug að flutningsmenn frumvarpsins hafi ekki lesið plaggið þrátt fyrir tilvitnananámagröftinn, eða þá að þeir skilja hreinlega ekki ensku.

Vonandi átta þingmennirnir sig á því hversu óvönduð þessi tillaga er og draga hana til baka. Hún er þeim ekki til framdráttar, hvernig sem á málið er litið.

383

Ég gæti trúað því að leikskólinn sem ég vinn á sé ekki ósvipaður í fermetrafjölda. Þar eru tæplega 70 börn og rétt rúmlega 20 starfsmenn.

Just saying.

Og af því að ég þarf pottþétt að taka það fram: ég hef enga skoðun á því hvort að um einhverja óráðsíu hafi verið að ræða. Mér hins vegar finnst ekkert að því að fjölmiðlar birti svona upplýsingar um fólk í stöðu Marinós og að hann sé full hörundssár.

Fríkirkjupresturinn…

skrifar grein sem er jafn góð og þessi grein eftir Örn Bárð er vond.

Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að gagnrýna Örn Bárð aftur. Hann óð hér inn þegar ég gerði það um daginn og sakaði mig um dramb og yfirlæti með Biblíutilvitnun. Svaraði reyndar engu en það er að sjálfsögðu fyrir neðan hans virðingu. Mig langar samt að benda á dæmi um það hvernig málflutningur Arnar er.

Í grein sinni Trúboð úr skólum, reynir Vantrúarmaðurinn Reynir Harðarson ítrekað að gera samstarf kirkju og skóla í borginni tortryggilegt með því að hagræða sannleikanum. Þessi ákafi trúmaður virðist vilja koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir út úr skólum borgarinnar og væntanlega landsins alls.

Í fyrri setningunni sakar hann Reyni um að hagræða sannleikanum. Í seinni setningunni hagræðir hann sjálfur sannleikanum og kallar Reyni trúmann. Ég hef skrifað um þessa tilhneigingu sumra trúmanna að vilja endilega draga okkur trúleysingja inn í sitt mengi. Örn Bárður er prótótýpan fyrir ástæðu númer tvö.

Reynir segir: „Ef börn eru leidd til messu á vegum skólans er skólinn að fara út fyrir hlutverk sitt og grípa inn í trúarlegt uppeldi foreldranna.“

Í áliti Dóru Guðmundsdóttur, Cand. Jur, LL.M frá 13. október 2010 sem unnið var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið um trúar­bragðafræðslu í leik- og grunnskólum í ljósi 2. gr. 1. samnings­viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu kemur fram að slíkt sé sjálfsagt. Í álitinu segir m.a.: „Einnig að heimilt [sé] að fjalla um og kynna nemendum þá trú sem er þjóðtrú í viðkomandi ríki; jafnvel þannig að meiri fræðsla fari fram í þeim trúarbrögðum en öðrum, og á það jafnt við um kynningu á sögu, kenningum og helgihaldi. Þá er ekkert sem bannar að nemendur fari í heimsókn á staði þar sem trúariðkun fer fram …“

Feitletranir eru mínar. Og þær eru afhjúpandi fyrir málflutning Arnar Bárðar. Hann annað hvort skilur ekki það sem Reynir segir eða… tja… nú þori ég ekki að segja meira. Ég gæti fengið á mig aðra Biblíutilvitnun.

Fáránleiki Arnar Bárðar

Um daginn tók ég hér til kostana víðáttubilað greinarkorn eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birst hafði í mogganum. Þar hafði Kolbrún eftir liggur við hverja einustu rangfærslu og fölsun sem boðberar ríkiskirkjunnar höfðu slett út í umræðuna (PR-taktík?) og bætti heldur í frekar en hitt. Séra Örn Bárður Jónsson er einn af þeim prestum sem mikinn hefur farið vegna hófsamra tillagna Mannréttindaráðs og í honum kristallast sú kenning margra að heiftin í mótbárum ríkiskirkjunnar sé til komin vegna ótta þeirra við að missa sinn stærsta markhóp (og í leiðinni stóra tekjulind) fái hún ekki áframhaldandi óheftan aðganga að leik- og grunnskólum til þess að boða trú og auglýsa tómstundastarf.

Sjónarmið Arnar Bárðar hafa komið fram annars vegar í útvarpsviðtölum (í einu slíku sletti hann því framan í stjórnarmann Siðmenntar undir lok viðtals að húmanismi væri aumasta trú sem til er, af sínum alþekkta kristilega kærleik og siðgæði) og hins vegar í greinum í Fréttablaðinu. Þar hefur Örn skrifast á við Guðmund Inga Markússon, trúarbragðafræðing og foreldri. Hér er fyrsta grein Arnar, hér svar Guðmundar, önnur grein Arnar og svar Guðmunar við henni er linkurinn í fullu nafni hans.

Nú hefur svo Örn Bárður bætt við enn einni greininni en það er ekki að sjá að hann hafi meðtekið neitt í góðum svörum Guðmundar. Þvert á móti færist Örn allur í aukana. Ég var að íhuga það að birta bara valda búta úr grein Arnar án athugasemda því að það er í raun voðalega litlu við málflutning hans að bæta í rauninni, hann dæmir sig alveg sjálfur. En á endanum varð úr að smá kverúlantaröfl fylgir gullmolum Arnar úr hlaði.

Þú spyrð um trúboð og hvar það fari fram. Svar mitt er: Alls staðar. Þess vegna verður ekki sett bann á það enda er skoðanafrelsi í landinu. Við verðum að treysta því á hverri tíð að þeir, sem koma inn í skóla til að kenna eða kynna eitthvað, geri það á fræðilegan og hlutlægan hátt.

Af því að trúboð fer fram allstaðar leggjum við trúarbragða- og kristnifræðukennslu í hendur kennara, ekki presta, imana, goða eða annara hagsmunaaðila trúfélaga. Kynningar eru í fínu lagi sem hluti af kennslu eins og tillögur Mannréttindaráðs benda raunar á. Þetta sér auðvitað hver maður að liggur beint við útfrá orðum Arnar. Nema reyndar Örn sjálfur.

Tilburðir Mannréttindaráðs minna mig á sögur eftir Búlgakov, Kafka og fleiri sem skrifuðu um fáránleikann í tilverunni. Miðstýrt vald sem leggur stein í götu borgaranna og heftir frelsi þeirra er alltaf á villigötum. Alltaf.

Alltaf já. Líka þegar alþingi semur sérstök lög sem leik- og grunnskólum ber að fara eftir. Og væntanlega líka þegar í þessum lögum kemur fram að leik- og grunnskólar eru bundnir af aðalnámskrám sinna skólastiga. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Örn Bárður aðhylltist einhverskonar frjálshyggju-anarkisma, og tengi slíka hugmyndafræði reyndar ekki við ríkisrekna trúfélagið sem hann sjálfur starfar hjá. Ég sem leikskólastarfsmaður og verðandi kennari er reyndar mjög hrifin af hugmyndinni um sjálfstæði skóla en einhver mörk verða að vera.

Þú spyrð um mörk. Þau liggja um lendur traustsins og hvergi annars staðar nema fólk verði sett í bönd eins og Mannréttindaráð vill t.d. gera með presta. Markmið ráðsins mætti kannski umorða á tæpitungulausan hátt svona: Okkur skal takast að drepa þjóna drottins í dróma. Við ætlum okkur að hindra presta og einangra starf þeirra við kirkjuhúsin ein.

Þvílíkt dómadags væl í prestinum. Ef prestar fá ekki að stunda trúboð sitt í opinberum skólum þá er verið að einangra þá við kirkjurnar og þeir drepnir í dróma. Er þetta boðlegur málflutningur? Má biðja um smá heiðarleika í mónitor?

Þú nefnir dæmi um bænahald í skólum. Það gæti verið samkomulag foreldra þar sem öll börnin í einhverjum bekk eru skírð og öll í sömu kirkjudeild að þau leyfi kennara að hefja kennslu dagsins með bæn.

Það gæti líka verið samkomulag foreldra um að leggja 10 mínútum fyrr af stað í skólann, hittast fyrir utan skólastofuna og biðja saman þar. Af hverju er Erni Bárði svona mikið um að koma bænum og öðrum trúarathöfnum inn í skólastofuna? Af hverju má hún ekki bara vera vettvangur kennslu? Bænir eru auk þess ekki kennsla.

En ég hef heyrt um leikskóla þar sem tíðkast að hafa kyrrðarstundir með íhugun þar sem kenndar eru t.d. yogastellingar. Í mínum huga er það trúboð, austrænt að uppruna. Á að banna slíkt?

Ah. Ok. Þessi gaur.

Markmið Gídeonfélagsins er opinbert. Félagar þess vilja dreifa Nýja testamentinu til sem allra flestra enda er þeim bókin kær og dýrmæt.

Uhh já markmiðið er opinbert og má nálgast á heimasíðu félagsins. Að ávinna menn og konur fyrir Guð. Og dreifing NT í grunnskóla er aðferð til þess. Ég auglýsi aftur eftir heiðarleika.

Að dreifa Kóraninum, Mormónsbók eða ritum Votta Jehóva er alls ekki sambærilegt við dreifingu NT.

Nei, þær bækur tilheyra nefnilega ekki trúnni hans Arnar.

Þú spyrð: „Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum?“

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín“, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.

Einmitt. Réttur barna þinna til þess að vera stillt upp við vegg trúarbragða sinna vegna er veigaminni en réttur kirkjunnar til þess að fá að stunda trúarathafnir með skólabörnum á skólatíma. Og það er lykilatriðið í þessu máli. Það er engin að banna neinum að eiga sína trú og rækja hana eins heitt og hann vill. Það er eingöngu farið fram á að slíkt sé ekki gert á vegum menntastofnanna og á skólatíma.

Örn Bárður réttlætir svo þessi mannréttindabrot með því að vísa til þess að í öðrum löndum verði trúfélaga hans að þola hið sama. Við eigum greinilega að hans mati ekki að sýna betra siðferði sem þjóðfélag. Sem er áhugavert.

Ég held að þetta blogg sé orðið nógu langt í bili. Örn Bárður eyðir svo restinni af grein sinni í að pönkast á Mannréttindaráði og ýja að því að Siðmennt hafi tekist að smygla þangað inn félagsmanni sem hafi hneppt aðra meðlimi þess í álög grimms húmanisma og virðingar fyrir mannréttindum. Hann gengur meira að segja svo langt að einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort að umræddur nefndarmaður eigi einhvern rétt að sækja á hendur Erni.

Það er allavega augljóst að Örn sækir innblástur sinn ekki í hinn margboðaða, en lítt stundaða, umburðarlyndiskærleik ríkiskirkjunnar. Hans siðferði á meira skylt við boðskap kirkjunnar aldirnar fyrir Upplýsinguna, sem er kannski sá tími sem margir kirkjunnar menn líta til með söknuði þessa dagana.