Jólakveðja (PAW)

Fyrsta PAW myndin var af mér að vinna myndir frá áramótunum. Þess vegna er kannski viðeigandi að seinasta myndin sé jólakortamyndin þetta árið. Tekin heima í stofu með nokkra lampa sem ljósgjafa. Kreppustúdíó par exelans.

Mynd-á-viku mynd númer 52.  Seinasta myndin í verkefninu! Allar myndirnar hingað til eru hér.

Gídeonformaður á fölskum forsendum

Fjalar Freyr Einarsson skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu titlaði hann sig grunnskólakennara en gefur ekki frekari deili á sér í greininni sjálfri, sem er um margt sérstök og sýnir m.a. stórfurðulegan skilning á hugmyndafræði Skóla án aðgreiningar. Það vakti líka athygli mína að Fjalar talar um ‘öfgatrúleysingja’ og reynir þannig að mála þá sem eru ósammála honum sem hættulegt fólk (því við vitum jú öll að öfgar eru hættulegar).

Fjalar Freyr hefur komið við sögu í umræðu um trúboð í skólum áður, þar sem hann hefur m.a. haldið á lofti þeim ósannindum að hér á landi berjist einhverjir fyrir því að banna kennslu um trúarbrögð og tiltók hann þar sérstaklega Siðmennt. Sigurður Hólm svaraði grein Fjalars sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar á þessu ári.

En hver er þessi Fjalar Freyr Einarsson? Ef marka má greinina í Fréttablaðinu er hann bara grunnskólakennari sem hefur áhyggjur af yfirgangi trúleysingja. En þegar þetta hérna er skoðað kemur í ljós að Fjalar er hvorki meira né minna en formaður Gídeonfélagsins á Íslandi. Sem setur áhyggjur hans auðvitað í ákveðið samhengi.

En Fjalar hefur leikið þennan leik víða upp á síðkastið. Þegar fjölmiðlar tóku tillögur Mannréttindaráðs RVK til umfjöllunar hringdi Fjalar Freyr inn í símatíma í síðdegisútvarpi Rásar 2 þar sem hann kynnti sjálfan sig sem grunnskólakennara og fann þessu allt til foráttunnar. Í kjölfar þess viðtals birtist annað viðtal við hann í Morgunblaðinu þar sem hann segist vera kennari í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði (skoðið neðarlega í þessari grein).

Og hann hefur líka látið gamminn geysa í umræðum á netinu. Hérna sést hvar Fjalar kemur inn í umræðuna eftir að Tinna Gígja bendir á að það sé klárlega trúboð þegar Gídeonmenn mæti inn í skólastofur og biðji með börnum:

@ Tinna

Hvaðan hefur þú þá vitneskju að utanaðkomandi s.s. Gídeonmenn séu að koma í skólana og kenna börnum að biðja? Ég hef sjálfur tekið all nokkrum sinnum á móti Gídeonmönnum og aldrei hefur það komið til að biðja. Þeir hafa í engu farið gegn nokkru sem ég get ekki samþykkt í skólastofunni. Farðu með rétt mál Tinna.

Og sjáið þetta hér:

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið.

Þetta hefur verið áhugavert samtal sem Fjalar átti við sjálfan sig. Ég er viss um að hann varð mjög undrandi.

En allt skilur þetta eftir sig stóra spurningu: af hverju kemur formaður Gídeonfélags Íslands, félags sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessari umræðu, ekki hreint fram? Af hverju þessi feluleikur? Er Fjalar ef til vill hræddur um að orð hans hafi minna vægi þegar fólk veit hvaða hagsmuna hann hefur að gæta?

Klukkan og rúðustrikaða fólkið

Ég næ engri tengingu við þessar pælingar um að seinka klukkunni á Íslandi. Eftir því sem ég best sé þá er líklega gáfulegast að vera ekkert að hringla með klukkuna, enda fylgir því bæði vesen og kostnaður, en að hugsa frekar um að breyta því einfaldlega hvenær dagurinn, þetta sem við afmörkum flest með annars vegar því hvenær við þurfum að vakna vegna vinnu/skóla/leikskóla/hvaðeina og hins vegar hvenær formlegri dagskrá okkar lýkur og við getum hætt að græða og farið að grilla. Ég er s.s. á svipaðri línu og Örvitinn.

Mér finnst þessi tillaga, og rökin sem fylgja með í greinagerðinni, lýsa alveg ofboðslega rúðustrikaðri hugsun. Klukkan átta á veturna er dimmt. Það er leiðinlegt að hefja daginn þegar það er svona rosalega dimmt. Þess vegna skulum við færa klukkan átta þannig að það verði minna dimmt.

Rúðustrikaða manninum virðist ekki detta í hug annað en að upphaf kennslu í grunn- framhalds og væntanlega að einhverju leyti líka háskólum sé fastbundin við ákveðna afstöðu vísana á klukkunni. Sama gildir um upphaf hins hefðbundna vinnudags. Þetta gæti allt eins verið náttúrulögmál.

En ef vandamálið er hin hverfula birta hér á landi er þá ekki bara langbest að vera með þessa tíma svolítið á hreyfingu. Að yfir dimmustu mánuðina byrji skóla/vinnudagurinn einfaldlega einum til tveimur tímum seinna en ella? Eða er það of flókið til þess að hægt sé að stjórna því frá Alþingi?

————

En að öllu þessu sögðu, og þrátt fyrir að hafa reynt eins og ég get, þá bara gæti mér ekki verið meira sama um hvort klukkunni verði breytt.

Óþolandi væl í minnimáttar

Nú virðist aðeins hafa lægt í umræðunni um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúboð í menntastofnunum. Málið er í ferli og óljóst hvað kemur út úr því öllu saman. En ég hef verið að velta aðeins fyrir mér ákveðnum rökum þeirra sem vilja halda trúboðinu inni í skólum. Nánar tiltekið meirihlutarökunum sem kristallast í þessum orðum Arnar Bárðar Jónssonar:

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín”, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama. #

Hvað er raunverulega verið að segja með þessum rökum? Er það ekki augljóst þegar við hugsum málið örlítið?

(mann)Réttindi minnihlutahópa eiga að vega minna en forréttindi meirihlutans.

Þetta finnst mér ekki fallegur hugsanagangur. En kannski erum við nú búinn að finna hið margumrædda kristilega siðgæði.