Nýnasistarnir og atvinnuleysið

Nýnasistarnir sem talað er við í DV í dag gera lítið til þess að kveða niður þá kenningu að fólk sem hallist að þessari hugmyndafræði sé upp til hópa illa gefið hvítt hyski. Það að Sigríður Bryndís Baldursdóttir, sem hefur verið einna mest áberandi í þessum hópi, kunni ekki að stafsetja viðurnefnið sem hún velur sér á netinu segir auðvitað sína sögu.

Og ekki er það nú til merkis um mikla þekkingu að lepja upp hið marghrakta áróðurskjaftæði um að Hitler hafi eytt atvinnuleysi í Þýskalandi. Jú, opinberar atvinnuleysistölur lækkuðu, en með hvaða aðferðum náðist sá árangur? Þar kom helst þrennt til.

1) Hitler kom á fót atvinnuverkefnum þar sem karlmenn fengu vinnu við að byggja ýmsar opinberar byggingar og t.a.m. Autobahn þjóðvegina. Þessir menn bjuggu í sérstökum búðum, klæddust allir eins einkennisfötum og fengu engin laun utan örlítilla vasapeninga.

2) Hitler byggði upp stóran her. Þar fengu menn vinnu.

3) Hitler hrakti konur og gyðinga úr sínum störfum í stórum stíl og lét ráða karla í staðinn. Þar sem að konur áttu að halda sig heima og gyðingar voru óæðri bættist hvorugur hópurinn á atvinnuleysisskrár.

Ég efast ekki um að nasistamamman og vinir hennar haldi í alvörunni að þau þekki einhvern sannleik sem ‘má ekki’ tala um. Þau eru hins vegar bara að tala með vitlausum hringvöðva. Eins og illa gefið fólk gerir iðulega.

Kæra Guðríður – Pressugrein

Ég á aðsenda grein á Pressunni í dag. Ákvað að birta hana hér líka:

Kæri formaður Bæjarráðs Kópavogsbæjar, Guðríður Arnardóttir

Ég ákvað að skrifa þér þetta opna bréf því að ég er svolítið hissa á þér. Nei, ég lýg því reyndar, ég er ekki „svolítið“ hissa. Ég er algjörlega forviða. Mér finnst nefnilega eins og þú haldir að ég og samstarfsfólk mitt séum ekki mjög vel gefin. Ég get fullvissað þig um að það er misskilningur.

Ég vinn á leikskóla í bænum. Og eins og annað starfsfólk leikskóla í Kópavogi varð ég mjög hissa þegar í ljós kom að bærinn ætlaði að leggja niður afsláttinn sem þau okkar sem eru svo heppin að eiga börn fá af dvalargjöldum leikskóla. Einhliða og án samráðs. Svona eins og þegar ákveðið var að bærinn myndi ekki gefa jólagjafir og að sumarlokanir leikskóla 2011 stæðu í fjórar vikur, en um þessar ákvarðanir fréttum við fyrst í gegnum fjölmiðla.

En „afgreiðsla“ þín á erindi leikskólastjóra í bænum vegna afnáms á afslætti á dvalargjöldum er það sem liggur helst á mér. Ég set afgreiðslu innan gæsalappa því að þú tókst þetta mál ekki til umfjöllunar í bæjarráði, var það nokkuð? Ó nei. Þegar kom að því að fjalla um málefni sem hvílir þungt á starfsfólki leikskóla í bænum heyktist þú á því og hengdir þig annars vegar í smáatriði og hins vegar mótsögn.

Smáatriðið er að leikskólastjórar séu skilgreindir sem millistjórnendur. Þannig var hægt að úthýsa þeim sem besta yfirsjón hafa yfir starf leikskóla í bænum án þess að taka mark á athugasemdum þeirra. Vel gert!

Hitt atriðið lýsir ekki mikilli virðingu fyrir starfsfólki leikskóla. Eftir að hafa fengið þau boð að ofan, án þess að geta haft neitt um það að segja, að afslátturinn skyldi afnuminn voru skilaboðin nú þau að ekki væri hægt að fjalla um erindi leikskólastjóra af því að þetta varðaði kjaramál sem bæri að meðhöndla við kjarasamningsborð!

Fyrirgefðu Guðríður en ég bara fæ þetta ekki til að ganga upp í hausnum á mér. Hvernig getur bæjarráð tekið einhliða ákvarðanir um kjarasamningsatriði? Eins og þið gerðuð reyndar í dag, 21. janúar? Mun það sama gerast þegar málið fer fyrir bæjarstjórnina sjálfa?

Ég verð að segja eins og er Guðríður að mér finnst þetta ekki lýsa mikilli virðingu í garð okkar leikskólastarfsfólks. Eins og þú sérð á þessu bréfi mínu og hefur vafalaust heyrt líka í bænum þá ríkir ekki beint mikil hamingja með þessa ákvörðun ykkar eða málsmeðferðina. Við gerum okkur grein fyrir því að niðurskurðar er þörf en það sem við köllum eftir er smá viðleitni í átt til samstarfs. Og samstarfið þarf að byggja á virðingu.

Egill Óskarsson

Leikskólakennaranemi og starfsmaður í leikskólanum Fögrubrekku

Neikvæðar yrðingar og biskupinn

Ég er búinn að rökræða við eiga í samtali við prestshjónin Árna Svan og Kristínu Þórunni á Eyjunni aðeins seinustu daga. Þau brugðust ókvæða við bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar, sem þau virðast reyndar ekki hafa lesið nógu vel, og eftir að Kristín hreytti ónotum og uppnefnum í Valgarð* í athugasemdum blogguðu þau hjónin ekki einu sinni heldur tvisvar um þessa í sjálfu sér frekar saklausu grein Valgarðs.

Fyrri pistillinn er auðvitað algjörlega misheppnuð tilraun til að beita skemmtilegu stílbragði. Vandamálið er bara að þau hjónin virðast annað hvort ekki alveg skilja út á hvað stílbragðið gengur eða hvað Valgarður átti við með pistlinum. Konur og karlar eru í það minnsta ekki sambærilegar breytur og trúleysi og trúarbrögð.

Seinni pistillinn var lítið skárri en umræðurnar við hann urðu bitastæðari. Árni og Kristín leggja nefnilega mikið upp úr því að alveg eins og við trúleysingjarnir eigum að bera virðingu fyrir þeirra trúarbrögðum og tala um þau af virðingu þá eigi trúaðir að gera slíkt hið sama gagnvart trúleysingjum. Svo eiga jú umræður um trúmál að vera málefnalegar, Betri heimur með betri umræðu. Sem er auðvitað bara frábært.

Málið bara vandast þegar fyrrnefndar athugasemdir Kristínar, og allur fyrri bloggpistillinn, ná því líklega seint að teljast málefnaleg innlegg í neina umræðu. Og þegar þau eru krafin um að gefa upp skoðun sína á tilteknum ummælum tiltekinna einstaklinga, t.d. ummælum biskups um trúleysingja sem hafa oft á tíðum verið ansi hatrömm, þá fást engin svör nema að það sé jafn vont að tala illa um trúlaus og trúaða.

Sem er auðvitað rétt, en fólk verður að þora að standa við svona fullyrðingar þegar því er bent á sértæk dæmi. Líka þegar dæmin snúa að yfirmanninum. Annars er bara um að ræða froðu sem auðvelt að er blása í burtu.

*Kristín notar m.a. orðalagið „drengurinn minn“, sem er fyrir utan hrokann og yfirlætið sprenghlægilegt finnst mér þar sem mér telst til að Kristín hafi verið að halda upp á 10 ára afmælið sitt á svipuðum tíma og Valgarður hvekkti ráðsettar húsmæður í vesturbæjum landsins þegar hann söng um að ætla að ríða einhverri ótilgreindri „þér“ í nótt.

Stormur

Í tilefni dagsins. Til að ná mestum áhrifum mæli ég með því að fólk kíki upp á Kjalarnes og öskri þetta út í vindinn þar.

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer,
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.
Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,
með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

-Hannes Hafstein

Augnsýkingar og ljósmyndun…

…þetta tvennt fer ekki vel saman. Og þar af leiðandi fer vel á því að ég fái augnsýkingu akkúrat þegar ég ætlaði að fara að hella mér á kaf í að leika mér með nýju Canon EOS 7D vélina sem ég keypti mér á gamlársdag. Mér sýnist á öllu að ég sé nokkuð vel settur með myndavél næstu árin. Get þá farið að safna mér fyrir linsum bara. Ég keypti vélina af myndavélum.is og gef þeim mín bestu meðmæli. Góð verð og þjónustan var hreint út sagt frábær.

Jálkurinn sem ég hef verið með seinasta árið, Canon EOS 20D, hefur lokið hlutverki sínu hjá mér. Hann (jálkurinn, og hún myndavélin) afrekaði m.a. allar myndirnar í Mynd-á-viku verkefninu sem ég var með í gangi allt seinasta ár. Ég velti því fyrir mér um tíma að halda verkefninu áfram þetta árið með Sjöunni en ákvað að sleppa því. Mögulega mun ég þó taka PAD (pictura a day) verkefni yfir einhvern ákveðin tíma seinna á árinu, t.d. í sumarfríinu, ef ég verð í stuði.

Þannig að nú mun ekki koma inn ein mynd á viku eins og í fyrra. En ég mun þó áfram henda hingað inn myndum sem mig langar að sýna og verð bara að vera duglegri að blogga í staðinn.