Augnsýkingar og ljósmyndun…

…þetta tvennt fer ekki vel saman. Og þar af leiðandi fer vel á því að ég fái augnsýkingu akkúrat þegar ég ætlaði að fara að hella mér á kaf í að leika mér með nýju Canon EOS 7D vélina sem ég keypti mér á gamlársdag. Mér sýnist á öllu að ég sé nokkuð vel settur með myndavél næstu árin. Get þá farið að safna mér fyrir linsum bara. Ég keypti vélina af myndavélum.is og gef þeim mín bestu meðmæli. Góð verð og þjónustan var hreint út sagt frábær.

Jálkurinn sem ég hef verið með seinasta árið, Canon EOS 20D, hefur lokið hlutverki sínu hjá mér. Hann (jálkurinn, og hún myndavélin) afrekaði m.a. allar myndirnar í Mynd-á-viku verkefninu sem ég var með í gangi allt seinasta ár. Ég velti því fyrir mér um tíma að halda verkefninu áfram þetta árið með Sjöunni en ákvað að sleppa því. Mögulega mun ég þó taka PAD (pictura a day) verkefni yfir einhvern ákveðin tíma seinna á árinu, t.d. í sumarfríinu, ef ég verð í stuði.

Þannig að nú mun ekki koma inn ein mynd á viku eins og í fyrra. En ég mun þó áfram henda hingað inn myndum sem mig langar að sýna og verð bara að vera duglegri að blogga í staðinn.