Rasistarnir og íslensk menning

Það voru rasistar hjá Sölva Tryggvasyni í gær. Ég hef áður skrifað um mannvitsbrekkurnar sem hafa vakið smá athygli fyrir „skelegga“ framkomu og umræðu og  þátturinn í gær gerði lítið annað en að staðfesta það sem ég sagði þá. Þetta fólk er einfaldlega illa gefið og álíka vel upplýst og Surtshellir.

Vernda þetta víkingaarfleið [sic!]

Þetta var eitt af því fyrsta sem viðmælendur Sölva sögðu í viðtalinu í gær. Látum nú vera hversu lítið vald þetta fólk hefur á tungumáli menningarinnar sem það vill vernda þá lýsir þetta líka djúpstæðri vanþekkingu á sögu þjóðarinnar. Hvaða helvítis víkingaarfleið? Íslendingar hafa fyrst og fremst verið bændur í gegnum tíðina, þó að þeir hafi flogist töluvert á á Sturlungaöld. Ef tala á um verndun einhverrar íslenskrar arfleiðar þá þykir mér miklu eðlilegra að halda sagna- og bókmenntaarfinum á lofti, en á ekki von á því að pakkið hjá Sölva í gær verði mikill liðstyrkur þar.

Og fyrir utan það, hvernig í ósköpunum er sögu okkar stefnt í hættu með því að hingað flytji fólk? Hverfur sagan og menningin? Er ekki hægt að halda í menninguna en bjóða fólk um leið velkomið?

Sigríður Bryndís er augljóslega meiri hardkor rasisti en Jón Kristinn. Hann segir að þau geti ekki bannað lituðu fólki að vera hér á landi, þá verði þau nefnilega rasistar, en Sigríður vill helst að Afríkubúar haldi sig heima.

Jón: Ef þú hagar þér sem íslendingur þá ertu Íslendingur. Ef þú hagar þér sem múslimi á Íslandi þá verðuru aldrei íslendingur.

Já ok! Og hvað felst í því að vera Íslendingur?  Það er aldrei frekar skýrt í þessu viðtali en virðist fyrst og fremst felast í því að vera ekki hitt og þetta sem Jóni og Sigríði líkar illa við.

Þau eru svo auðvitað spurð út í þau ummæli Sigríðar að Hitler hafi nú gert margt gott. Og þau eru nú aldeilis á því að hann hafi gert það og nefna því til sönnunar Volkswagen Bjöllu og Læknavísindi. LÆKNAVÍSINDI! Ætli það séu svona læknavísindi sem Jón er að vísa í?

Annars eiga þau mjög erfitt með að skilja af hverju fólk sé alltaf að spyrja þau út í Hitler. Eru alveg forviða á því af hverju fólk tengir alltaf þjóðernishyggju við hann. Það hefur auðvitað ekkert með blæti þeirra fyrir hakakrossum og þýskum hermunum frá nasistaárunum að gera. Á Facebook mátti lengi vel finna myndir úr samkvæmi sem Sigríður var í þar sem töluvert af svoleiðis hlutum voru augljósir í bakgrunni. Já og svo var það auðvitað fáninn sem var rifinn af félögum þeirra á mótmælunum í haust, þessi risastóri rauði með svarta hakakrossinum. Í framhaldinu af þessum umræðum dettur svo þetta gullkorn út úr Jóni:

Er það ekki rasismi að hugleiða eitthvað slæmt ef þú heyrir orðið Hitler? Er það ekki rasismi? Er þá ekki verið að dæma hann útfrá því sem margir gerðu, heil þjóð?

Er Hitler nú orðin kynþáttur?

Að sjálfsögðu væla þau svo undan öfugum rasisma. Að þau hafi nú aldeilis orðið fyrir slíku. En þau skilja ekki hvað það hugtak þýðir. Það að ég kalli þau illa gefið hyski sem kemur slæmu orði á Íslendinga er ekki öfugur rasismi. Ég nefnilega er ekki að vísa til kynþáttar þeirra eða að eigna honum neina eiginleika. Þau eru lélegt fólk af sjálfsdáðum, eins og almennt gildir um lélegt fólk.

Jón: Ég er ekki tilbúinn til að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi aðra þjóðflokka eða önnur þjóðerni í sambandi við mína menningu eða arfleið

Ég er ekki tilbúinn til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um menningu eða arfleið þjóðarinnar með Jóni. Hann gefur einfaldlega hvergi til kynna að hann hafi neinar forsendur til þess að meta hvað í henni felst. Þvert á móti eiginlega. Eins og sést hérna:

Jón: Ísland fyrir Íslendinga, það er alveg rétt. Ísland er fyrir Íslendinga, það er þannig frá uppruna.

Einmitt. Frá þeirri stund þegar norðmennirnir með bresku konurnar sínar og írsku þrælana tóku hér land hefur Ísland verið fyrir Íslendinga.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur: illa. gefið. hyski.

 

 

Leikskólinn og virðing pólitíkusa

Ef allt fer að óskum útskrifast ég sem leikskólakennari núna í sumar. Ég er að klára einn bóklegan áfanga auk þess sem ég er að gera lokaverkefni, en í því flétta ég saman ljósmyndaáhuga mínum við leikskólastarfið sem kannski má segja að sé köllun mín. Ég hef gríðarlega gaman af þessu starfi og mikinn áhuga, eins og líklega langflestir sem fara í námið. Enn hefur allavega ekki frést af leikskólakennaranemanum sem skráði sig í námið vegna launana sem það býður upp á að lokinni útskrift.

Stundum held ég að ánægja leikskólakennara með starfið sitt og sú staðreynd að þeim hættir til að setja hagsmuni barnanna ofar sínum eigin sé meðvitað nýtt gegn þeim af opinberum rekstraraðilum leikskóla. Hvaða aðrar ástæður gætu verið fyrir því að launin séu jafn fáránlega lág og þau eru? Af hverju ætla sveitastjórarmenn víðsvegar um landið sér að beita eggvopni niðurskurðar nú í kreppunni á stétt sem fékk ekki að taka þátt í góðærinu af neinu ráði?

Í mesta góðærinu gekk illa að manna flesta leikskóla víðasthvar á landinu. Á hverju hausti bárust fregnir af erfiðleikum í mannahaldi og því að leikskólar þyrftu að biðja foreldra um að halda börnum heima dag og dag ef veikindi voru meðal starfsfólks skólanna. Og áður en nokkrum dettur í hug að snúa veikindum upp á leikskólakennara þá eru þeir sá hópur á leikskólunum sem fæsta veikindadaga tekur.

Leikskólar reiddu sig á ófaglært starfsfólk sem að minni reynslu má skipta í tvo hópa. Annars vegar konur frá fertugu og upp úr sem staldra lengi við á hverjum stað og hins vegar ungt fólk sem annað hvort hefur hætt í menntaskóla eða er nýútskrifað. Fólkið í síðari hópnum getur yfirleitt ekki hugsað sér að ílengjast í leikskólastarfinu, þó að auðvitað gerist það líka. Ég er jú dæmi um það. Ekkert er fjarri mér en að efast um gæði og gjörvileika ófaglærða fólksins á leikskólum. Ég hef verið slíkur sjálfur í sex ár og ég hef unnið og vinn með hreint út sagt frábæru fólki sem ekki er með háskólamenntun í faginu.

En ef að búið væri að leikskólum og leikskólastarfinu af alvöru metnaði frá dyrum opinberra rekstraraðila þá væru skólarnir meira og minna mannaðir af faglærðu fólki og námið sömuleiðis fjölmennara en það er nú. Ég er í Háskólanum á Akureyri í fjarnámi. Ásamt mér munu heilir þrír nemendur útskrifast í sumar. Ef við teljum dagskólafólkið með nær þessi fjöldi e.t.v. upp í 15 nemendur.

Og þvílíka gleðiástandið sem býður okkar eftir útskrift. Afnám afsláttar af dvalargjöldum og annara fríðinda sem teljast til kjarabóta. Ófaglegar sameiningar og fækkun stjórnenda í Reykjavík þar sem ekkert raunverulegt samráð hefur verið haft við fagstéttir og engin veit hvaða áhrif munu hafa. Og launamálin. Já, við munum s.s. gangast undir kjarasamninga sem runnu út fyrir þremur árum. Verði ég ekki orðinn deildarstjóri munu mánaðarlaun mín skv. launatöflu hljóma upp á heilar 247.000 krónur.

———

Vitið þið hvað það versta við þetta allt saman er? Mér finnst alveg hundleiðinlegt að þetta sé það sem er ofan á í fjölmiðlaumræðu um leikskóla. Alveg hreint ömurlegt. Miklu frekar vil ég tala um hversu gaman það er í vinnunni minni. Hvernig það er þegar heill hópur af börnum hrópar nafnið manns í gleði þegar maður mætir eftir smá fjarveru. Hvað það er gaman að fylgjast með börnum að leik. Hláturinn, gleðina, sorgina, reiðina, fyrirgefninguna, sönginn, dansinn, fjörið og vináttuna. Og það mest heillandi og gefandi öllu, að fylgjast með barni öðlast nýja þekkingu og færni. Að sjá þegar „jaaaaaá svona er þetta!“ mómentið ríður yfir. Sigurinn!

En nei. Þökk sé því sem ég get eiginlega ekki kallað neitt annað en virðingarleysi sveitastjórnarmanna landsins þá er fókusinn í umræðunni á neikvæða hluti. Og verður því miður að vera það áfram ef menn neita að vakna.

So it goes.

Uppeldisfræði Jónasar Kristjánssonar

Jónar Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri og núverandi nöldrari skrifar um skokkarann sem gekk í skrokk á barni í Hveragerði. Jónar bíður ekki upp á að vísað sé beint í ákveðnar bloggfærslur frekar en annað sem tilheyrir góðum netsiðum eins og t.d. athugasemdir við greinar (fyndið að maðurinn sem hefur ítekað spáð netmiðlum sigri yfir prentmiðlum nýti sér ekki það helsta sem netmiðlarnir hafa fram yfir hina) þannig að ég tek mér það bessaleyfi að birta bloggið bara í heild sinni hér:

Uppeldi í Hveragerði
Í Hveragerði gerðu krakkar hróp að skokkara. Hann veitti einum þeirra hæfilega ráðningu. Ég legg til, að þorpið fái skokkarann til aðstoðar við siðvæðingu barna. Greinilega er hér dæmi um, að sum börn í Hveragerði fái ekki sæmilegt uppeldi. Það er úti af kortinu, að gerð séu hróp að fólki á almannafæri. Ég efast um, að slíkt þekkist annars staðar í Vestur-Evrópu. Systir mín skokkar í Florida og hefur í þrjátíu ár ekki orðið vör við hróp að skokkurum. Íslenzk börn eru sum hver ótrúlega illa uppdregin eða bara alls ekki. Skrítið, að fyrirsagnir fjölmiðla snúast um ósvífni skokkarans.

Hæfileg ráðning að mati Jónasar er að hávaxinn karlmaður á milli þrítugs og fertugs slái 12 ára barn í andlitið, grípi það kverkataki og keyri niður í jörðina.

Látum ofbeldisdýrkun Jónasar liggja á milli hluta í bili en förum yfir tvö atriði. Það fyrsta snýr að því að Jónas er á því að íslensk börn, eða allavega börn í Hveragerði, séu verr upp alin en önnur börn. Þetta virðist hann byggja á þessu eina atviki. Ég held að þetta sé kjaftæði. Það þarf ekki að lesa t.d. breska fjölmiðla lengi til þess að sjá miklu miklu miklu verri hegðun unglinga gagnvart fullorðnu fólki, allt frá áreiti til hreinna morða. Mér dettur hins vegar ekki í hug að álykta um hegðun breskra ungmenna almennt útfrá því sem ratar í fjölmiðla enda er fréttamat fjölmiðlafólks þegar kemur að börnum ákaflega brenglað.

Hitt atriðið sem mig langar að minnast á er það hvaða ráðningu börnum er veitt með ofbeldi. Nú eru líkamlegar refsingar bannaðar bæði skv. íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir. Ein af stærstu ástæðunum fyrir því, fyrir utan auðvitað það að ofbeldi á aldrei að líðast, er sú að ofbeldi og líkamlegar refsingar skila yfirleitt aldrei þeim árangri sem leitast er eftir.

Ekki nema að Jónas vilji virkilega að við framleiðum börn sem búið er að brjóta niður andlega (reynslan af Breiðuvík var auðvitað mjög góð eða hvað?) eða þá börn sem læra að ofbeldi geti verið eðlileg lausn á vandamálum. Fyrir utan að verða líklegri til að beita sjálf ofbeldi geta börn sem verða fyrir ofbeldi orðið undirförul og reyna frekar að ljúga og blekkja til að hylma yfir hegðun sína.

En auðvitað á maður ekki að vera að eyða tíma í nöldrið í Jónasi. Mér bara blöskrar svo oft þessi fornu sjónarmið um að ofbeldi sé það eina sem virki á sum börn. Ég hélt í alvörunni að fólk væri búið að átta sig. Nóg eru nú fordæmin, bara hérna á Íslandi.

Leikskólarnir í lífi mínu

Í dag er haldið upp á Dag leikskólans á Íslandi. Flestir leikskólar héldu upp á hann á föstudaginn skv. ábendingu frá Félagi Leikskólakennara en einhverjir ákváðu þó að gera það eftir helgi. Leikskólarnir á Héraði ætla t.a.m. að gera sér dagamun á morgun heyrði ég frá stelpu sem er með mér í leikskólakennaranáminu. Ástæðan fyrir því að 6. febrúar varð fyrir valinu sem Dagur leikskólans er sú að þann dag árið 1950 stofnuðu 22 konur sem lokið höfðu námi við Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1948 starfsmanna- og verkalýðsfélag sem var vísirinn að Félagi Leikskólakennara.

Uppeldisskóli Sumargjafar varð svo seinna Fóstruskóli Sumargjafar, hann varð svo að Fósturskóla Íslands árið 1973 og þá máttu karlar í læra fagið.  Sá fyrsti útskrifaðist svo 10 árum síðar og mér telst til að ég verði þrítugastiogeitthvað karlinn sem útskrifast með þessa menntun hér á landi. Fósturskólinn rann svo inn í Kennaraskólann sem breyttist svo í Kennaraháskólann. Fyrir stuttu varð svo til Menntavísindasvið HÍ og er gamli KHÍ hluti af því. Sjálfur er ég þó í Háskóla Akureyrar sem varð fyrstu til þess að bjóða upp á b.ed nám í leikskólakennarafræðum á Íslandi.

En nóg af upprifjun á sögu. Því miður halda margir leikskólakennarar upp á Dag leikskólans með þungum huga. Út um allt land standa fyrir sparnaðaraðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að komi mismikið niður á faglegu starfi á leikskólum. Einna verst er staðan í Reykjavík eins og hefur varla farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum.

En í tilefni dagsins ákvað ég að búa til smá ljósmyndablogg. Ég fór út og myndaði alla leikskóla sem ég hef komið við í á ævinni, nema reyndar Fögrubrekku en ég átti fyrir fína mynd af henni.

Smáralundur, Hafnarfirði. Þar var ég sem þriggja til sex ára lítill patti. Hafði ekki komið í garðinn í 22 ár og hann hefur mikið breyst, enda stæðust líklega fæst leiktækin sem voru þar nútíma öryggiskröfur.

Hamraborg, Reykjavík. Fyrsti leikskólinn sem ég vann á. September til nóvember 2002. Þessi leikskóli er ansi vel falinn í Grænuhlíð. Ansi stór og fínn garður sem var verið að endurnýja og stækka þegar ég vann þarna.

Álfatún, Kópavogur. Desember 2002 til maí 2003. Skrýtnasta leikskólahúsnæði sem ég hef komið í. Er gamalt þriggja hæða einbýlishús sem fyrrverandi eigendur breyttu í einkaleikskóla. Garðurinn er meira og minna allur ein brekka. Ég var þarna fljótlega eftir að bærinn tók yfir reksturinn og mér skilst að skipulagið innandyra sé orðið betra en það var.

Fagrabrekka, Kópavogur. Eftir að hafa arkað um Kópavog og borið út póst í tæplega hálft ár hóf ég störf á Fögrubrekku í janúar 2005. Ég hef því unnið þar í rétt rúmlega sex ár. Fljótlega eftir að ég byrjaði varð mér ljóst að ég hafði áhuga á leikskólastörfum og hóf að líta á þau sem meira en tímabundið skemmtistarf (því ekki voru það nú launin sem löðuðu mann á leikskólana!). Haustið 2007 byrjaði ég svo í leikskólakennaranáminu í HA.

Bjarmi, Hafnarfirði. Þarna var ég í fjórar vikur í upphafi árs 2009 sem vettvangsnemi. Þetta er einkarekin ungbarnaleikskóli. Ekki stór en ansi skemmtilegur!

Marbakki, Kópavogi. Seinni vettvangsnámsskólinn. Var þarna í góðu yfirlæti í 10 vikur um haustið 2010. Lærði mikið og leið vel.

Og þannig er nú það.

Til hamingju með daginn starfsfólk, foreldrar, velunnarar (á borði, en ekki bara í orði) og síðast en ekki síst börn á leikskólum landsins!

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa sig – ekki

Ég velti því æ oftar fyrir mér hvað í ósköpunum þingmenn flokksins sem ég tilheyri séu eiginlega að gera á þingi. Í sumum tilfellum  velti ég því hreinlega fyrir mér hvaða erindi ákveðnir þingmenn eigi lengur. Seinustu vikur hafa svo komið fram nokkur mál sem mér finnst flokknum, og viðkomandi þingmönnum til skammar. Dæmi:

1. Árni Johnsen vill veita Madina Salamova ríkisborgararétt. Madina hefur ekki sótt um slíkan rétt. Hún hefur þvert á móti lýst því yfir að hún hafi engan áhuga á honum. Það er hreinlega ekki einu sinni víst að málið sé þingtækt enda hlýtur það að vera einkennilegt að veita manneskju ríkisborgararétt gegn vilja sínum.

2. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er á móti búrkum og vill banna þær. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill setja lög um það hvernig fólk má klæða sig og það áður en fatnaðurinn sem lögin beinast gegn er almennt byrjaður að sjást á almannafæri á Íslandi.

3. Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnlaugur Þór Þórðarson hafa lagt fram merkingarlausa þingsályktunartillögu um að grunnskólar skuli fara eftir lögum um grunnskóla. Greinargerðin sem fylgir með tillögunni er samansafn af útúrsnúningi, rangfærslum og tilvitnunum í erlend plögg sem komast að þveröfugri niðurstöðu við afturhalds-ríkiskirkjudekrið sem birtist í þessu fáránlega plaggi. Eins og ég hef bent á áður.

Hver er eiginlega stefna Sjálfstæðisflokksins í dag? Erum við að sigla inn í tíma þar sem flokkurinn ætlar helst að sækja á mið kristilegs íhaldsfólks? Eru frjálslynd hægrisjónarmið fjarri þingmönnum flokksins? Mætti ég biðja um minni bannhyggju og forréttindadekur í mónitor?