Þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa sig – ekki

Ég velti því æ oftar fyrir mér hvað í ósköpunum þingmenn flokksins sem ég tilheyri séu eiginlega að gera á þingi. Í sumum tilfellum  velti ég því hreinlega fyrir mér hvaða erindi ákveðnir þingmenn eigi lengur. Seinustu vikur hafa svo komið fram nokkur mál sem mér finnst flokknum, og viðkomandi þingmönnum til skammar. Dæmi:

1. Árni Johnsen vill veita Madina Salamova ríkisborgararétt. Madina hefur ekki sótt um slíkan rétt. Hún hefur þvert á móti lýst því yfir að hún hafi engan áhuga á honum. Það er hreinlega ekki einu sinni víst að málið sé þingtækt enda hlýtur það að vera einkennilegt að veita manneskju ríkisborgararétt gegn vilja sínum.

2. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er á móti búrkum og vill banna þær. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill setja lög um það hvernig fólk má klæða sig og það áður en fatnaðurinn sem lögin beinast gegn er almennt byrjaður að sjást á almannafæri á Íslandi.

3. Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnlaugur Þór Þórðarson hafa lagt fram merkingarlausa þingsályktunartillögu um að grunnskólar skuli fara eftir lögum um grunnskóla. Greinargerðin sem fylgir með tillögunni er samansafn af útúrsnúningi, rangfærslum og tilvitnunum í erlend plögg sem komast að þveröfugri niðurstöðu við afturhalds-ríkiskirkjudekrið sem birtist í þessu fáránlega plaggi. Eins og ég hef bent á áður.

Hver er eiginlega stefna Sjálfstæðisflokksins í dag? Erum við að sigla inn í tíma þar sem flokkurinn ætlar helst að sækja á mið kristilegs íhaldsfólks? Eru frjálslynd hægrisjónarmið fjarri þingmönnum flokksins? Mætti ég biðja um minni bannhyggju og forréttindadekur í mónitor?