Mofi og siðferðið

Maður er nefndur Halldór og kallar sig Mofa á netinu. Hann hefur ýmis áhugamál eins og að afneita nútíma vísindum eins og þau leggja sig, að sýna fram á að túlkun hans og safnaðarins sem hann tilheyrir á Biblíunni sé réttari en annara og, það sem ég ætla aðeins að impra á núna, siðleysi trúlausra.

Það er kannski best að taka það strax fram að ég er í banni á blogginu hans Mofa. Eftir að hafa fengið algjöra leið á því að þræta við hann þar hætti ég því algjörlega nema hvað að ég fór að benda honum á tilfelli þar sem hann sýnir ákveðna þröngsýni. Mofi er nefnilega þannig gerður að hann getur ekki sett sig í spor annara. Engan vegin. Hann yfirfærir heimsmynd sína yfir á alla aðra og dæmir svo þeirra skoðanir og gildi útfrá henni. Þegar hann hefur gert sig sekan um þetta hef ég bent honum á það. Fyrir það var ég nú um daginn bannaður og ég vona að ég verði bara áfram í banni. Ég viðurkenni reyndar alveg að þetta var bögg hjá mér, en það var alveg innistæða fyrir því. Þetta er að mér telst til fjórða skiptið sem Mofi bannar mig en í fyrri skiptin hefur það verið af miklu minna tilefni, og raunar fyrir það eitt að vera ósammála honum eða að benda á mjög augljósar villur í t.d. aðferðafræði. Verður hann þá allajafna mjög reiður og orðljótur og endar á að banna fólk.

En já. Að því sem varð til þess að ég ákvað að skrifa smá. Í dag höfum við Mofi átt smá orðastað á bloggi Kristins Theódórsonar. Í kjölfarið á því bloggaði Mofi.

Það virðist vera afspyrnu erfitt að útskýrir fyrir guðleysingjum að án trúar á Guð þá er ekki lengur góður grundvöllur fyrir siðferði.

Hvað getur maður sagt um svona bull? Auðvitað er erfitt að útskýra eitthvað sem heldur ekki vatni.  Röksemdafærsla Mofa er eftirfarandi:

Síðan er spurningin hvort að þeirra guðleysi hafi haft áhrif á gjörðir þeirra þá finnst mér Dostoevsky orða þetta mjög vel, „If God doesn’t exist, everything is permissible„.  Það er nokkuð ljóst að guðleysinginn hefur engan trúarlegan texta sem segir honum að það er rangt að myrða, stela eða ljúga eða skipun frá Guði sjálfum að elska náungan eins og sjálfan sig. Það er líka nokkuð ljóst að guðleysinginn óttast ekki réttlæti Guðs þegar þessu lífi er lokið. #

Siðferði Mofa byggir á tvennu. Annars vegar hlýðni við yfirnáttúrulegt yfirvald og hins vegar ótti við refsingu yfirvaldsins. Þar sem að trúlausir trúa eðli málsins skv. ekki á yfirvaldið hans Mofa þá hafa þeir ekki grundvöll fyrir siðferði. Þetta heldur Mofi að við skiljum ekki. Hann áttar sig ekki á því,  þrátt fyrir að honum hafi ítrekað verið bent á það, að við erum einfaldlega ósammála því að siðferði geti bara grundvallast á hlýðni og ótta við refsingu yfirnáttúrulegs yfirvalds.

Allar veraldlegar kenningar í siðfræði eru skv. Mofa þannig ómarktækar. Kenningar sem miðast við mann sjálfan og samfélagið eru bara prump. Þeim er afneitað á einu bretti.

En þegar gengið er á Mofa og hann spurður af hverju trúleysingjar séu almennt ekki að sýna af sér verra siðferði en trúaðir í samfélaginu grípur hann til tveggja ráða. Annars vegar að benda á Hitler, Pol Pot, Stalín og halda því fram að voðaverk þeirra hafi verið unnin í nafni og vegna trúleysis og hins vegar að röfla einhverja steypu um að guðinn hans hafi snert hjarta allra og þess vegna hafi allir samvisku. Af því að hann er vanur þessum mótbárum setti hann þennan fyrirvara á það sem hann bloggaði áðan um grundvöllinn:

Ég býst við því að ég þarf að taka það fram að þetta þýðir ekki að guðleysingjar geti ekki haft mjög sterka réttlætiskennd og mjög sterka siðferðisvitund, þeir sannarlega geta haft það en það kemur málinu ekkert við.

Að sjálfsögðu rökstyður Mofi mál sitt ekkert frekar. Hann er í alveg ótrúlegri mótsögn við sjálfan sig. Hann getur nefnilega ekki bæði haldið því fram að trú á yfirnáttúrlegt yfirvald sé grundvöllur siðferðis og að trúleysingjar hafi sterkar réttlætis- og siðferðiskennd. Ef að trúin er grundvöllurinn þá þýðir nefnilega ekkert að beita því fyrir sig að við séum sköpuð í guðs mynd eða að hann hafi snert hjarta allra. Fyrir nú auðvitað utan vandræðin sem Mofi lendir í þegar hann er spurður að því af hverju fólk fremji þá yfirhöfuð óhæfuverk.

Það er kannski ljótt af mér að helga einum manni heila bloggfærslu í þessum anda. En þá má hafa í huga að það er ekki ég sem er að halda því fram að hópur fólks hafi ekki neinn grundvöll fyrir siðferði, og þar með í raun siðlaust sama hvað öllum illa hugsuðum og mótsagnakenndum fyrirvörum fer fyrir.

Siðleysi hundaeiganda

Það býr siðlaus hundaeigandi í nágreni við leikskólann sem ég vinn á.

Seinasta vetur lentum við starfsfólkið ítrekað í því að þurfa að skófla upp hundaskít úr sandkassa og af fleiri stöðum í leikskólanum. Stundum voru börn byrjuð að moka í honum og einnig höfðu þau stigið á hann. Þegar þetta hafði gerst nokkuð oft sendum við myndir og orðsendingu í Kópavogspóstinn og þetta hætti svo að gerast snemma seinasta vor.

Það hefur líka verið óþolandi algengt að kettir hafi notað sandkassana okkar sem klósett. Til að stemma stigu við því eru nú komin net yfir sandkassana í leikskólanum og virðist þau virka ágætlega.

En í dag komu nokkur börn hlaupandi til mín fljótlega eftir að við komum út og sögðust hafa fundið kúk. Og viti menn, þessi líka fíni hundaskítur! Og slatti af honum líka. Inni í afgirta svæðinu fyrir yngstu börnin, sem eru 1-2 ára gömul, þar sem þau leika sér helst fyrst eftir að þau byrja á leikskólanum, fjarri ærslunum í reynsluboltunum úr eldri hópum.

Mér finnst þetta fullkomið siðleysi. Hversu hreinræktaður hálfviti þarftu að vera til þess að fara með hundinn þinn á leikskóla þegar hann þarf að skíta? Og hversu takmarkaður máttu vera á andlega sviðinu til þess að átta þig ekki á því að EF svo illa vill til að hundurinn þinn skíti á leikskólalóð þá skiljirðu ógeðið ekki eftir!

Nú ætla ég að láta í ljós ákveðna fordóma sem ég hef. Katta- og hundaeigendur eru, sumir, með sjálfhverfasta fólki sem þekkist*. Þeim fyrrnefndu finnst mörgum algjörlega fráleitt að lausaganga katta verði bönnuð, þrátt fyrir að henni fylgi mikill óþrifnaður og smithætta sem bitnar helst á börnum, almennt ónæði í mörgum tilfellum (kettir hafa oftar en einu sinni haldið fyrir mér vöku og jafnvel stokkið inn um glugga um miðjar nætur hér heima) og að köttunum sjálfu sé búin hætta vegna hennar. Þeir síðarnefndu eru furðulega gjarnir á að halda að upphirða á úrgangi dýranna þeirra sé samfélagsverkefni sem einhver annar en þeir sjálfir beri ábyrgð á.

Ég hef ekkert á  móti hundum og köttum. Þvert á móti eiginlega og mér finnst ömurlegt að ofnæmi sem ég hef fyrir köttum takmarkar samskipti mín við þá talsvert. Um dýraeigendur sem virðast halda að ábyrgð á dýrum sínum sé á hendi fleiri aðila en þeirra sjálfra gildir annað.

Og þú, siðleysinginn sem notar leikskólann minn sem úrgangssvæði fyrir hundinn þinn: þú ert rakið fífl. Megi allir fuglar landsins drita á höfuðið á þér.

*Þetta er, eftirá að hyggja, kannski fullmikil alhæfing þó að ég dragi aðeins úr henni. Flestir dýraeigendur eru ábyrgt fólk þó að svörtu sauðirnir geti gert mann mjög piraðann.

Lítið um að vera hér

Það er blogglægð í gangi. Hana má fyrst og fremst skýra út með því að það hefur verið nóg að gera í skólanum. Ég er í einum bóklegum áfanga sem heitir Menntasýn og mat á skólastarfi og svo er ég að vinna að lokaverkefninu mínu. Þar geri ég kennsluvef um ljósmyndun í leikskólastarfi og fræðilega umfjöllun um sama viðfangsefni.

Þannig að það er alveg nóg að gera. Færslur hér verða því eitthvað stopular, jafnvel fram í maí en ég vona nú að það komi eitthvað inn öðru hverju. Ég er t.d. með í hausnum á mér drög að færslu sem varð til þegar ég sá enn einn ‘athafnamanninn’ lýsa því yfir í viðtali að hann hefði nú líklega bara verið settur á lyf við ofvirkni ef hann væri barn í dag því hann hefði verið svo ‘virkt’ barn. Það var Friðrik Weishappel og telst mér til að hann sé númer 387 í röðinni af mönnum sem láta vanþekkingu á ADHD, greiningarferli og meðferðum ekki trufla sig frá því að ýta undir fordómana sem ríkja í umræðum um þetta viðkvæma málefni.

Annars er ég bara góður sko.