Hatrammur biskup á heilögum Páskum

Svona talar maður sem hefur horft inn í sortann og horfst í augu við andlegt skipbrot guðleysisins, mannhyggjunnar, vísindalegrar efnishyggju, eins og það hét, í helju Gúlagsins, illskunnar, mannfyrirlitningarinnar. Guð er. Líka þar. #

Svo mælti séra Karl Sigurbjörnsson, æðsti opinberi embættismaður ríkiskirkjunnar. Hann var að sjálfsögðu að setja trúleysi í samhengi við illvirki kommúnista, af því að það er svo málefnalegt.

Það er hins vegar ekki málefnalegt að svara Karli og ef ég geri það þá verð ég stimplaður öfgamaður af mörgum. Algjörlega óháð hverju því sem séra Karli dettur í hug að segja, innblásin af náungakærleik og umburðarlyndi trúar sinnar, um fólk eins og mig.

En hey! Gleðilega páska!

Áhugavert fréttamat RÚV

Eins og ég bloggaði um í gær hélt Vantrú páskabingó til þess að mótmæla íslenskri helgidagalöggjöf (og fleiru,  lesið bara bloggið). Á Austurvelli söfnuðust saman líklega um 80 manns og skemmtu sér vel með kakó í annari, kleinu í hinni og bingóspjald í hin…nei við erum víst bara með tvær hendur. Þetta voru allvega bráðvel heppnuð mótmæli.

Og ég held að þau verði að teljst fréttnæm. Allavega töldu Fréttablaðið, Vísir.is, Bylgjan, DV og Stöð 2 að svo væri. Það var svosem lítið annað að gerast í gær. Það var svo lítið að gera að á mbl.is var sagt frá gönguferð sem farin var fyrir messu á Álfanesi. Þau miklu býsn gerðust víst líka að Passíusálmarnr voru lesnir víða, í þeim tilgangi að reyna skilja þjáningu Krists kannski. Í sjónvarpsfréttum RÚV var einmitt lika sagt frá geðsjúklingum á Filipseyjum sem húðstrýkja sjálfa sig og láta negla sig við krossa í sama tilgangi, með tilheyrandi hryllingsmyndum. Stöð 2 gerði þessum sjúku mönnum einnig skil. Ég er 28 ára gamall. Ég man ekki til þess að hafa upplifað Föstudaginn langa án þess að sjá fréttir frá Filipseyjum.

En hvorki Mogginn né RÚV sáu eitthvað fréttnæmt við 80 manna mótmælin á Austurvelli. Ég er svosem ekki hissa á fálæti Moggans en ég á ansi erfitt með að skilja hvað RÚV gengur til. En ég ætlaði nú svosem ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér. Í kvöld var hins vegar hálfrar mínútu löng frétt um mótmæli í Þýskalandi. Mótmæli gegn helgidagalöggjöf sem ég gat ekki heyrt annað en að væri næstum því orðrétt jafn galin og sú íslenska.

Ef ég væri svo illa búinn að hafa bara aðgang að fréttatímum RÚV þá vissi ég semsagt að trúleysingjar og fylgismenn aðskilnaði ríkis og kirkju í Þýskalandi væru ósáttir við helgidagalöggjöf þar í landi og að þeir hefðu mótmælt á friðsamlegan og skemmtilegan hátt í gær. En að einhverjir hefðu gert nákvæmlega það sama hérna heima, það fengi ég ekki að vita.

Í dag gerðist ég glæpamaður!

Í dag hjálpaði ég til við að fremja lögbrot. Við í Vantrú héldum árlega páskabingóið á Austurvelli í hádeginu, í trássi við hin fáránlegu lög um helgidagafrið.

Eins og Matti bendir á í dag þá snýst þessi viðburður ekki um bingó. Hann snýst ekki heldur um frídaga. Hann snýst um að í lögum á Íslandi í dag er freka og yfirgangur einnar lífsskoðunar leyfður. Af því að trúað kristið fólk heldur upp á þessa daga þá skulum við hin sætta okkur við skerta þjónustu og það að mega flest ekki vinna þó að við fegin vildum. Þetta óréttlæti þrífst í skjóli þess að lúthersk evangelíska trúfélagið er í raun ríkistrúfélag á Íslandi, í trássi við vilja um 75% þjóðarinnar miðað við kannanir. Það er löngu kominn tími til þess að þessir sérhagsmunir verði afnumdir.

Og gerið það nú fyrir mig, ekki spyrja mig hvort að ég vilji þá missa þessa frídaga. Ég treysti einfaldlega stéttarfélögunum til þess að sjá áfram um þau mál eins og þau hafa gert hingað til. Ekki byrja heldur á baulinu um að það sé nú svo notalegt að hafa svona daga öðru hverju þar sem allt er lokað og maður geti bara slappað af. Ég veit ekki með ykkur, en það truflar mína afslöppun aldrei neitt að opið sé í Hagkaup og á listasöfnum, hvað þá að eðlilegar strætisvagnasamgöngur geri mig sturlaðan úr stressi.

En allavega. Ég braut lög í dag. Hér eru myndir af því.

Heiðarleiki íslenskra fjölmiðla

Íslenskir netmiðlar eru ótrúlega óheiðarlegir. Nú er að finna á vísi.is þessa frétt um málaferli gegn Kurt Westegaard, danska skopmyndateiknaranum. Þessi frétt hefur tekið veigamiklu breytingum í dag. Þegar hún birtist fyrst var fullyrt bæði í fyrirsögn og í fréttinni sjálfri að Danir yrðu að framselja Westegaard, að þeir hefðu skuldbundið sig til þess í gegnum tilskipunina. Síðan þá hefur fréttin gengið manna á milli á Facebook þar sem að menn hafa annað hvort tekið henni gagnrýnislaust og séð þarna dæmi um galla við inngöngu í ESB eða þá séð í gegnum bullið og bent m.a. á bréfið sem Óli Tynes byggir fréttina á.

Einhver á Vísi.is, annað hvort Óli sjálfur eða einhver annar, hefur áttað sig á því hversu neyðarlegt þetta var. Og fréttin er löguð. Eða réttara sagt, henni er gjörbreytt efnislega án þess að nokkur fyrirvari sé gerður á því að um leiðréttingu sé að ræða og að mistök hafi verið gerð upphaflega.

Þetta er ansi leiðinlegur ávani bæði hjá Vísi og Mbl á netinu. Og þetta er alveg ofboðslega óheiðarlegt.

Presturinn og góðvildin

Sr. Gunnar Kristjánsson er víst einn af þeim prestum sem vill meiri pólitík í predikanir. Í dag sagði hann þetta í predikun á Reynivöllum:

Aðeins með trúnni á upprisuna getum við sýnt þá góðvild sem hefur engan tilgang nema sjálfa sig.

Ef þú trúir því ekki bókstaflega að fyrir tæpum 2000 árum hafi maður verið líflátinn en svo vaknað upp frá dauðum þá getur þú ekki sýnt óskilyrta góðvild.

Ég efast ekki um það að einhverjir, t.a.m. Gunnar sjálfur, geti fundið út hvernig svona rugl samræmist kærleika, virðingu og umburðarlyndi gagnvart þeim sem ekki deila trúarskoðunum manns en ég á voðalega erfitt með að sjá það sjálfur.

Og af því að það þarf sennilega að taka það fram þá má Gunnar trúa þessu mér alveg að meinalausu. Ég get bara ekki gert að því en þegar ríkiskirkjuprestar tala um að bera þurfi virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum annara og að við eigum að sýna öllum kærleik þá finnst mér eins og að ég þurfi líka að umbera það að þetta gildi bara í aðra áttina. Því að ég sé rosalega vondur þegar ég bendi á hræsnina.