Þingmaður í kjarabaráttu

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á það sameiginlegt með t.d. leikskólakennurum og hjúkrunarfræðingum að vera ósáttur við launin sín eins og hann vakti athygli á núna um daginn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Tryggvi vekur máls á bágum kjörum sínum því að í september 2010 hafði hann líka orð á þessu.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það fáránlega taktleysi Tryggva að kvarta yfir því að hann og aðrir úr „efri millistétt“ þurfi hreinlega að borga með sér en ég vil þó minna á að grunnlaun alþingismanna eru 520.000 krónur á mánuði og fyrir utan þau fá þeir greiddan kostnað fyrir hátt í milljón á ári hverju sem þeir margir hverjir kjósa að skipta í 12 jafnar greiðslur yfir árið. Um einhverjar aðrar greiðslur er einnig að ræða eftir því sem ég best veit. Í veröld Tryggva og Þráins Bertelsonar eru þetta kannski smápeningar en ég er ekki frá því að þeir hafi bara gott af því að reyna að lifa af svona ölmusu, þó ekki væri nema til þess að fá að kynnast því af eigin skinni hvernig það er að vera bara launahærri en 80% þjóðarinnar en ekki 90%.

En það sem stingur mig mest varðandi rökstuðning Tryggva Þórs fyrir því að launin hans verði að hækka er að hann hefur áhyggjur af því að ekki fáist hæft fólk á þing nema að launin hækki.

Því eins og allir vita þá vinnur hæft fólk ekki handtak fyrir neitt annað en algjörar hátekjur. Lág- og millitekjufólk er ekki hæft fólk. Kennarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, smiðir, snyrtifræðingar, flugfreyjur og –þjónar og aðrir sem velja sér að starfa við eitthvað sem er svo ómerkilegt að ekki eru borgaðar hátekjur fyrir, fólk sem ekki þyrfti að borga með sér ef þannig vildi til að það slysaðist inn á þing, eru ekki hæfir einstaklingar í veröldinni sem Tryggvi lýsir.

Ég er rosalega ánægður með að inn á þing hafi valist fólk eins og Tryggvi og Þráinn. Fólk sem af fórnfýsi sinni fyrir almannahag lætur sig hafa það að þræla á þingi fyrir lúsarlaun og hreinlega borgar með sér! Það væri sorglegt ef að þessi ölmusa sem tekjur og sporslur þingmanna á Íslandi eru í dag yrði til þess að hugsjónafólk hyrfi frá því að helga sig þingstörfum. Það væri mikill skaði.