Kristin þjóð og hvít

Dögg Harðardóttir heldur áfram að gleðja. Í umræðum í stjórnlagaráði í dag (Dögg byrjar að tala á ca. 163 mínútu) fór hún á umtalsverðum kostum. Hún benti t.d. á að múslimar séu ekki sérstaklega umburðarlyndir, af því að þeir mega ekki breyta um trú. Af því tilefni langar mig að rifja upp fyrsta boðorð kristinna manna:

Ég er Drottin Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa.

Afleiðingar þess að fara ekki eftir þessu boðorði eru vel þekktar og skjalfestar.

En þetta var nú bara svona smá upphitun hjá Dögg. Hún nefnilega veltir því fyrir sér að þar sem að Arnfríður Guðmundsdóttir stjórnlagaráðsfulltrúi hafi sagt að 21. öldin verði öld endurkomu trúarinnar, og Dögg tekur að sjálfsögðu fram að Arnfríður vitni oft í rannsóknir (því að eins og fram hefur komið þá er Dögg mjög hrifin af rannsóknum, sérstaklega þegar hún þarf ekki að vitna í þær), þá finnist henni nú alveg tilefni til þess að setja inn ákvæði um að hér búi kristin þjóð og að hún myndi styðja slíkt ákvæði.

Ég ætla að endurtaka þetta svo að ekkert fari á milli mála. Dögg Harðardóttir vill ákvæði inn í stjórnarskrá um að hér búi kristin þjóð. Þetta er ekki djók. Hún glotti ekki á meðan hún sagði þetta. Skoðið þetta bara á upptökunni.

Hvaða merkingu hefur það að setja svona í stjórnarskrá? Tvennt kemur til greina. a) Þetta er merkingarlaust hjal. Einhver yfirlýsing sem þýðir ekki neitt. Ef það er raunin þá á þetta ekki heima í stjórnarskránni frekar en annað tilgangslaust þvaður sem hefur enga merkingu. b) Þetta er tekið fram til þess að ekki fari á milli mála að réttindi þeirra sem tilheyra „þjóðinni“, því að þeir sem ekki hafa eiginleikann sem þjóðin er sögð hafa geta jú tæplega tilheyrt henni, eru meiri en annara. Væri svona ákvæði í núverandi stjórnarskrá yrðu allar þreifingar í ætt við þær sem Mannréttindaráð Reykjavíkur stendur í núna kæfðar í fæðingu með vísan í stjórnarskrá. Svo nefnt sé dæmi sem stendur nærri bæði mér og Dögg.

——————-

En ég er auðvitað bara að grínast. Ég er ekki bara sammála Dögg heldur finnst mér hún ekki ganga nógu langt. Mér finnst algjört lágmark að tekið sé fram að þjóðin sem býr hér sé líka hvít. Því allir „alvöru“ Íslendingar eru hvítir. Það á svo ekki að þurfa að taka það fram að Íslendingar eru líka gagnkynhneigð þjóð. Sem borðar fisk.

 

 

Kristniboðar í baráttu gegn réttindum barna

Í gær birtist eftir mig á Vísi.is grein þar sem ég svara frekar furðulegri grein Daggar Harðardóttur. Dögg titlar sig sem stjórnlagaráðsfulltrúa sem á líklega að gefa orðum hennar meira vægi en hún er nú meira en bara það. Hún er fyrrverandi formaður Aglow – alþjóðlegra samtaka kristinna kvenna – á Íslandi. Aglow eru einhverskonar systursamtök Gídeon og eiga sér samskonar trúboðamarkmið. Dögg er líka gift Fjalari Frey Einarssyni sem er, þrátt fyrir að forðast að viðurkenna það opinberlega, formaður Gídeon á Íslandi.

Í dag birtist svo grein í Fréttablaðinu þar sem að það er tekið út fyrir allan vafa hvað það er sem að liggur á bakvið baráttuna gegn tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Í greininni birtast þessar venjulega falsanir um að kvartanir vegna starfsemi trúfélaga og trúboðasamtaka séu einungis 22. En þar eru eingöngu tekin með þau dæmi þar sem lagðar voru fram formlegar kvartanir. Staðreyndin er sú, eins og allir vita sem hafa kynnt sér þessi mál, er að miklu fleiri hafa kvartað við stjórnendur viðkomandi skóla eða tómstundafélaga. Matti og Gyða, félagar mínir úr Vantrú, stóðu í svona baráttu í langan tíma. Þau eiga enga af þessum 22 kvörtunum. Það að halda því fram að einungis hafi 22 kvartað er fölsun og afvegaleiðing á umræðunni.

En tilgangurinn helgar líklega meðalið. Sérstaklega þegar haft  er í huga hvaða hugmyndir þetta fólk hefur um okkar sem styðja tillögurnar:

Við vitum að barátta okkar er ekki við menn heldur við andaverur vonskunnar í himingeiminum, samanber Efesusbréf 6. kafla Páls postula.

Þess vegna er svo mikilvægt að biðja fyrir þessu máli.

Önnur tilvitnun í greinina:

Við verðum að sjá til þess að börn fái að kynnast trúarlegri arfleifð okkar Íslendinga, að það sé eðlilegt að börn sem alast upp í kristnu landi fái Nýja testamentið að gjöf og að það sé eðlilegt að fara í kirkju og leita Guðs í öllum kringumstæðum lífsins.

Meira bull. Börn munu áfram fræðast um trúarlega arfleið okkar, með vörtum og öllu. Það stendur ekki til og hefur aldrei staðið til að breyta því. Enda liggur valdið til þess ekki hjá Mannréttindaráði. Þetta er ein algengasta lygi trúboðasinna í umræðunni. Og þetta er lygi. Því að þetta fólk, ég tala nú ekki um hina sprenglærðu klerka sem hafa tjáð sig á þennan hátt, einfaldlega hlýtur að vita að þetta er rangt.

Meirihlutarökin eru líka orðin þreytt. Jafnvel þó að meirihluti þjóðarinnar sé kristinnar trúar breytir það því ekki að öll börn hafa réttindi. Líka börn trúleysingja (andavera vonskunnar). Dögg Harðardóttur varð það á að vísa í réttindi barna og sérstaklega Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Því miður fyrir hana leiðir lestur á Barnasáttmálanum það í ljós að líklega er í dag brotið á réttindum barna og foreldra. Sjá fjórtándu grein sáttmálans (leturbreytingar mínar):

1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.

Ef að barni og foreldrum er stillt upp við vegg þannig að valið standi á milli þess að sitja undir trúarstarfi og hreinu trúboði (eins og í tilfelli Gídeon) eða að vera fjarlægt frá félagahópnum á meðan er þá verið að virða rétt þeirra? Ekki get ég séð það. Enda segir skýrsla samstarfshóps á vegum Reykjavíkurborgar (sem fólkið sem skrifar greinina vitnar í sem könnun) sem gefin var út 2007 að slíkt eigi ekki að gerast. Merkilegt nokk átti ríkiskirkjan fulltrúa í samstarfshópnum. Hann gerði enga fyrirvara við þessa ábendingu. Hvað ætli hafi breyst síðan þá? Ætli menn hafi áttað sig á því að nú ætti kannski að byrja að fara eftir þessu?

Skýrasta dæmið um það hvað þessi barátta snýst um kemur þó í lok greinarinnar þar sem höfundar hennar skrifa undir.

Valgerður Þóra Benediktsson
Í Samtökum kristinna kennslukvenna

Erdna Varðardóttir
leiðtogi fyrir Jesúkonur á Íslandi

Benedikt Jasonarson
kristniboði og kennari

Margrét Hróbjartsdóttir
kristniboði og hjúkrunarfræðingur

Einmitt.

Gangi tillögur Mannréttindaráðs eftir munu ríkiskirkjuprestar ekki lengur geta nálgast börn inn í skólana. Gídeonmenn verða að fara að „ávinna menn og konur fyrir Jesú Krist“ utan skólastofunnar.

En foreldrar geta ennþá alið börn sín upp í trú. Þeir geta ennþá valið að senda þau í Sunnudagaskóla, æskulýðsstarf á vegum trúfélaga og sumarbúðir KFUM og K. Gídeonmenn geta ennþá dreift NT til allra sem það vilja t.d. í fyrrnefndu starfi trúfélaga eða á eigin vegum. Trúarlíf landsmanna ætti því ennþá að standa styrkum fótum því að þessar í raun litlu breytingar gætu ekki skaðað eitthvað sem væri byggt á tryggum grunni.

Eða er það kannski akkúrat það sem menn eru ekki vissir um?

 

Að gefnu tilefni; Karl Sigurbjörnsson er opinber starfsmaður og þjóðkirkjan er ríkisstofnun

Í skjóli 62. greinar stjórnarskrárinnar, þessarar sem að manni sýnist stjórnlagaráðsmenn ekki þora að taka afstöðu til eða ræða þrátt fyrir að hafa sumir líklega  fengið talsverðan stuðning einmitt út á afstöðu sinnar til hennar, er Þjóðkirkjan opinber ríkisrekin stofnun og starfsmenn hennar teljast opinberir embættismenn. Þó að í lögum um þjóðkirkjuna (þar sem öllum vafa um að prestar séu opinberir embættismenn er eytt) sé talað um að hún sé sjálfstætt trúfélag þarf ekki annað að en benda á að til eru sérstök lög um hana en engin önnur einstök trúfélög, að sóknir kirkjunnar þurfa að standa skil á reikningum til ríkisendurskoðunar og að prestar kirkjunnar sjálfir líta á hana sem ríkisstofnun eins og þessi orð séra Bjarna Þórs Bjarnasonar sýna mjög skýrt:

 Þetta eru svokölluð embættismannaskipti en til þeirra er verið að hvetja hjá stofnunum ríkisins. Þetta er tilbreyting fyrir alla, #

Ímyndum okkur nú í augnablik að í einhverri annari opinberri stofnun kæmi upp mál sambærilegt þeim málum sem kirkjan glímir nú við vegna þöggunar og meðvirkni sinnar í kjölfar endurtekinna kynferðisbrota Ólafs Skúlasonar. Að út kæmi skýrsla þar sem að margir lykilmenn stofnunarinnar, þ.á.m. æðsti stjórnandi hennar, fengju ákúrur. Og að æðsti stjórnandinn yrði m.a. uppvís að því að hafa í fortíðinni beitt sér til þess að ná niðurstöðu í máli þar sem hann hafði þegar tekið opinbera afstöðu með yfirmanni sínum og gegn þeim sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Að eftir að hann tók við sem æðsti stjórnandi hafi hann stungið vitnisburðis sem kæmi fyrrverandi yfirmanni sínum, sér sjálfum að ákveðnu leiti og ekki síst stofnuninni ákaflega illa undir stól í eitt og hálft ár. Og að það hafi þurft skjalavörð og pressu frá fjölmiðlum til þess eins að hann viðurkenndi tilvist vitnisburðarins.

Ætli stjórnandinn – og fleiri sem hefðu komið við sögu – fengju sjálfdæmi um viðbrögð stofnunarinnar við niðurstöðu rannsóknar? Ætli hann myndi eiga langa lífdaga í embætti ef hann kæmi fram og bæðist afsökunar EF hann hefði brugðist rangt við og að það hafi ekki haft nein áhrif á úrvinnslu vitnisburðarins gegn fyrrverandi yfirmanninum að hann hafi setið á honum í eitt og hálft ár? Og hvernig myndi það líta út þegar einungis einn af opinberu embættismönnunum sem tilheyrðu stofnuninni hefðu komið fram opinberlega og beðið æðsta stjórnandann um að íhuga alvarlega að segja af sér?

Ríkiskirkjan hér á Íslandi hefur alltof lengi fengið að hafa forréttindastöðu. Ein helsta vörn ríkiskirkjusinna er að benda á að hún sé nauðsynleg siðferði landsins. Málefni Ólafs Skúlasonar sem fyrst komu upp á yfirborðið fyrir 15 árum, ásamt vandræðum kirkjunnar vegna ýmissa annara mála sem komið hafa upp á síðkastið hér á landi og tengjst kynferðislegri brenglun klerka, afsanna í eitt skipti fyrir öll að íslenska ríkiskirkjan er ekki í fararbroddi í siðferðismálum á Íslandi. Það er sama hvort talað er um klerkana sem brjóta af sér eða kollega þeirra sem bregðast við. Með örfáum undantekningum hafa prestar ríkiskirkjunnar afsalað sér kyndlinum sem boðberar góðs siðferðis á Íslandi. Og það er kominn tími til þess að forréttindastaða þessa laskaða og forneskjulega trúfélags verði afnuminn.

Í það minnsta hvet ég þau ykkar sem eruð í ríkiskirkjunni og ofbýður atferli þjóna hennar að breyta trúfélagaskráningu ykkar. Það eru til mörg sjálfstæð trúfélög innan sömu trúar (t.d. fríkirkjurnar) og svo er líka bara fínt að vera utan trúfélaga. Hér er hægt að breyta trúfélagaskráningunni.

Nýbakaður leikskólakennari

Nú get ég loksins breytt headernum á síðunni minni. Ég er ekki lengur skeggjaður leikskólakennaranemi heldur skeggjaður leikskólakennari. Útskrifaðist um helgina með 1. einkunn (7.88) frá Háskólanum á Akureyri. Ég get mælt heilshugar með því að fólk stundi fjarnám frá HA. Viðmót kennara og starfsfólks eru til fyrirmyndar og allt hefur staðist eins og stafur á bók varðandi námið.

Varðandi þetta með að ég skilgreini mig hér í header sem skeggjaðan leikskólakennara. Ég er ekkert rosalega upptekinn af því að ég sé karlleikskólakennari. Allavega ekki miðað við marga sem ég ræði við um þetta. Jújú, við erum fáir og jú auðvitað er gott og í raun nauðsynlegt að fólk af báðum kynjum starfi á leikskólum. Ég var hins vegar að mennta mig sem leikskólakennari, ekki sérstaklega sem karlleikskólakennari.

Ég var svo heppinn (eða sniðugur ef út í það er farið) að geta fléttað eitt af mínum helstu áhugamálum við námið í lokaverkefninu mínu. Verkefnið snerist um ljósmyndun í leikskólum og var tvíþætt. Annars vegar var um að ræða fræðilega ritgerð og hins vegar gerði ég kennsluvef. Ritgerðin er ekki enn komin inn á Skemmuna en kennsluvefinn getið þið skoðað hér. Ætlunin er að halda honum við og hyggst ég færa hann yfir á sitt eigið vefsvæði á næstu mánuðum. Að öllum líkindum fylgir þá bloggið mitt með á sama stað.

Það sem tekur við hjá mér er að ég held áfram að vinna á leikskólanum Fögrubrekku. Í haust mun ég taka við hóp af börnum sem flest eru fædd snemma árið 2010. Það er mjög spennandi verkefni. Fyrirkomulagið á leikskólanum Fögrubrekku er þannig að við hópstjórarnir fylgjum barnahópunum upp allan skólaferil þeirra þannig að ég mun ef allt fer að óskum eyða næstu fjórum til fimm árum með þessum börnum sem ég mun kynnast í haust.

Ég ætla einnig í framhaldsnám en ætla að taka mér alveg frí úr skóla fram að áramótum allavega til að ákveða hvaða braut ég feta í áframhaldandi námi.

Svo er ég líka kannski að fara í verkfall í ágúst en ég ákvað að sleppa því að fjalla um kjaramál í þessum pistli. Þau eru svo leiðinleg. En ég er bara glaður og ánægður nýútskrifaður leikskólakennari næstu dagana.

Biskupsstofa í spunaham

Ég minntist á það í seinusta bloggi mínu að Dögg Harðardóttir stjórnlagaráðsmaður vildi meina að með því að fjalla ekki sérstaklega um ríkiskirkjufyrirkomulagið í stjórnarskrá væri verið að boða trúleysi. Seinustu daga hafa svo ríkiskirkjuprestar tekið upp svipaðan málflutning varðandi tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að fjarlægja trúboð úr opinberum leik- og grunnskólum.

Þetta er skrýtinn leikur hjá prestunum. Það að ekki megi boða kristna trú þýðir að þeirra mati að tekin hafi verið upp sérstök trúleysisstefna. Þeir vilja s.s. meina að það sé ekki til neitt sem heiti hlutleysi í trúmálum og að valið standi einungis um það hvaða trúar- eða lífsskoðanir séu boðaðar. Boðun trúarskoðana er þannig samkvæmt því sem prestarnir segja óhjákvæmilegur fylgifiskur skólastarfs. Þetta er, vægast sagt, skrýtin málflutningur. Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg við þær aðdróttanir í garð kennara sem mér finnst liggja í þessari skoðun prestana. Ég tel mig fullfæran um að vera hlutlaus gagnvart skjólstæðingum mínum þegar kemur að trúmálum í mínu starfi alveg eins og ég er hlutlaus varðandi aðra hluti sem ég tel að séu á forræði foreldra.

En hversu galin er þessi hugmynd samt? Hversu illa gáttað þarf fólk að vera til þess að trúa því virkilega að afnám boðunnar ákveðins málstaðar sé sjálfkrafa upptaka annars málstaðar?

Félagi Matti bendir svo á að þessum pælingum fylgi alltaf sá boðskapur kirkjunnar að líf okkar trúleysingjanna sé gildislaust, kalt og tómt. Kristilegi náungakærleikurinn og það allt þið munið.

En dettur einhverjum í hug að allir þessir prestar detti allir alveg bara óvart inn á sömu línuna akkúrat núna? Þetta var nefnilega ekki opinbera línan þegar málið kom fyrst upp. Reyndar er þetta alveg ný nálgun. Af þessu tilefni langar mig að benda á tvennt. Í fyrsta lagi er Einar Karl Haraldsson, atvinnujafnaðarmaður og spunameistari, húsköttur Biskupsstofu. Í annan stað vil ég rifja upp að fyrir ekki margt löngu kom í ljós að Biskupsstofa borgaði KOM-almannatengslum tæpa kvartmilljón á mánuði fyrir ráðgjöf.

Spunarokkarnir niðri á Laugarvegi 31 eru s.s. á fullum snúningi. Eins og venjulega.

Meinlegur misskilningur stjórnlagaráðs

Mér sýnist á öllu að meinlegur misskilningur ríki hjá meðlimum stjórnlagaráðs um það hvað aðskilnaður ríkis og kirkju og afnám sérréttinda ríkiskirkjufólks umfram aðra snýst um. Ég ætla ekki að eyða tíma í þá þvælu Daggar Harðardóttur að það eigi ekki að aðskilja af því að trúleysi sé ekki hlutlaus skoðun. Þeir sem halda að trúleysi sé boðað með því að afnema sérréttindi ríkiskirkjunnar í stjórnarskrá taka mjög líklega ekki rökum hvort sem er.

En misskilningurinn meinlegi kom m.a. fram í dægurmálaútvarpi Rásar Tvö í dag þar sem rætt var við tvo stjórnlagaráðsfulltrúa. Þau sögðu frá því að í hléi á milli ráðsfunda hafi fulltrúarnir komist að því í umræðum sín á milli að Íslendingar væru líklega miðjufólk í trúarskoðunum eins og öðru. Að tiltölulega fáir séu heitttrúar og fáir séu trúlausir en flestir einhversstaðar mitt þar á milli.

Fyrir það fyrsta þá skil ég ekki hvernig það eitt að trúa ekki á yfirnáttúruleg öfl sem skipta sér af lífi manna gerir mig að einstaklingi sem er á andstæðum öfgapól við Gunnar í Krossinum, Snorra í Betel og Karl Sigurbjörnsson. Ég skal alveg sætta mig við að í augum einhverra sé ég svolítið öfgafullur fyrir það að ég legg mig sérstaklega fram við að benda á kjánaganginn sem tilheyrir hindurvitnum og kukli (þó að ég sé ósammála þeirri stimplun á mér) en að hægt sé að setja upp ás þar sem að þeir félagar eru á einum enda og ég vegna þess eins að ég sé trúlaus er bara röklaus hugsanavilla.

En það er ekki  aðal málið. Aðskilnaður ríkis og kirkju og afnám sérréttindaákvæðis stjórnarskrárinnar til handa ríkiskirkjunni snýst bara ekkert um trúarskoðanir fólks! Þetta snýst um réttlæti. Þetta snýst um að eitt ákveðið trúfélag sé ekki með forréttindastöðu. Að meðlimir þess, en þeim fer reyndar hratt fækkandi, séu ekki metnir á annan hátt en aðrir íbúar landsins bara vegna trúarskoðanna sinna.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig stjórnlagaráð nálgast þetta mál. Mér finnst hræðsla við umræður og þjónkun við sérhagsmuni hafa verið ríkjandi. Mér finnst út í hött að prestur í ríkiskirkjunni skuli fjalla um þetta mál og reyndar sækjast sérstaklega eftir forystu í þeim hópi sem hafði það til umfjöllunar innan ráðsins. Sami maður náði ekki andanum af hneykslun yfir því að í Mannréttindaráði Reykjavíkur sitji stjórnarmaður í Siðmennt þegar umræðan um tillögur MR um afnám trúboðs í opinberum skólum stóð sem hæst, og það þrátt fyrir að alltaf lægi fyrir að Siðmenntarmaðurinn myndi víkja úr nefndinni þegar tillögurnar yrðu teknar fyrir. En það er auðvitað ekki sama Bjarni og séra Örn.

Líklegasta niðurstaða stjórnlagaráðs er að af öllum umdeildum málum sem fjallað verður um fari þetta mál eitt sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er fín niðurstaða. Það hefur verið samfelldur meirihluti fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju í hátt í tvo áratugi skv. Capacent Gallup. En mér finnst furðulegt að sjá stjórnlagaráðsmenn beita því fyrir sig að málið sé svo umdeilt að best sé að ræða það sem minnst því að umræðan verði svo erfið og hatrömm (öfugt við umræður um auðlindir til lands og sjávar væntanlega þá). Ég hélt einmitt að menn hefðu boðið sig fram í þetta starf einmitt til þess að ræða erfiðu málin. Það var kannski minn meinlegi misskilningur.