Henry Birgir og krabbameinið

Henry Birgir Gunnarsson, íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu, skrifaði pistil í blaðið í gær þar sem hann færir rök fyrir þeirri skoðun sinni að helsta vandamál knattspyrnunnar í dag sé leikaraskapur. Ég er reyndar ósammála þessari skoðun hans, að mínu mati er spilling, óráðssía og fáránlegar ákvarðanir FIFA, UEFA og annara knattspyrnusamtaka miklu stærra vandamál en ég get alveg tekið undir að leikaraskapur sé hvimleiður fylgifiskur fótbolta í dag.

En í pistlinum skrifar Henry m.a. þetta:

Við fjölmiðlamenn þurfum einnig að líta í eigin barm og vera óhræddari við að gagnrýna svindlarana og láta þá svara til saka fyrir gjörðir sínar.

Undir þetta má taka. Þess vegna skýtur það skökku við að sjá ekki einn leikmann nefndan með nafni í þessum pistli. Henry talar um framherja Víkings og leikmann FH og hlýfir þannig einmitt svindlurunum sem hann vil skera upp herör gegn. Vonandi lætur hann vaða næst og segir okkur einfaldlega um hverja hann er að tala.

 

Langt svar við leiðinlegri spurningu um leikskólakennara

Spurt hefur verið: af hverju fórstu í þetta nám vitandi það að launin væru svona léleg?

Svarað er nú: af því að mér fannst starfið áhugavert, námið spennandi og fagheimurinn fullur af skemmtilegum pælingum sem eru í sífelldri þróun. Já og vegna þess að mér finnst gaman að umgangast og að vinna með börnum. Og það gleymdist alveg að segja mér að lág laun væru náttúrulögmál og að þegar ég hóf nám hafi ég fyrirgert rétti mínum til þess að krefjast hærri launa en þeirra sem voru í boði á þeim tíma.

Ég lít ekki svo á, og vil helst ekki að þið gerið það heldur, að ég hafi verði að fórna mér af einhverri góðmennsku. Ég hef einfaldlega brennandi áhuga á þessu starfi og þessum fræðum. Með því fylgir auðvitað að ég vil gera mitt til þess að veita þeim börnum sem ég kynnist í starfinu þá menntun, vinskap og umhyggju sem ég get veitt þeim.

Starfið er gríðarlega gefandi. Það eru kannski launin fyrir „góðmennskuna“. En starfið er líka gríðarlega krefjandi og getur jafnvel á stundum verið slítandi, andlega og líkamlega. Mér finnst ég ekki vera frekur eða furðulegur fyrir að vilja að vinnuveitandi minn greiði mér laun í samræmi við það sem fólk í viðmiðunarstéttum eins og grunnskólakennarar (ég sat nota bena þónokkra áfanga með grunnskólakennurum í mínu námi) fær fyrir sína góðu vinnu.

SÍS í skrýtum leik

Enn er deilt um hvort að leiðbeinendur megi ganga í störf leikskólakennara í yfirvofandi verkfalli. Þetta er furðuleg deila, svo furðuleg að ég er ekki ennþá viss um að SÍS ætli raunverulega að láta á þetta reyna. Mig grunar að þetta sé fyrst og fremst taktík, að takmarkið sé að gera leikskólakennara að vonda fólkinu sem stendur í vegi fyrir því að leikskólar geti – löglega – tekið við börnum þrátt fyrir verkfall. Leikskólakennarar versus fjölskyldurnar.

En þetta er fáránleg pæling. Hverjum dettur í hug að þegar fagstétt leggur niður vinnu geti vinnuveitandinn leyst málið með því að láta ófaglærða einfaldlega ganga í störfin? Sér einhver fyrir sér að ef að sjúkraliðar færu í verkfall gætu ófaglærðir starfsmenn, eins og finnast á fjölmörgum hjúkrunarstofnunum, einfaldlega leyst þá af á meðan? Svona í alvöru?

Framkoma SÍS er pólitíkusunum sem þar ráða ríkjum ekki til framdráttar.

Pólitíkusar ögra leikskólakennurum

Þetta bréf var ekkert annað en ögrun frá pólítíkusunum í Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Pólitíkusana í stjórninni má sjá í góðri bloggfærslu Harðar Svavarssonar.

Fyrir það fyrsta þá er það algjör sturlun að ætla sér að halda starfsemi gangandi í leikskólum á meðan félagar í FL eru í verkfalli. Starfsfólki inni á deildum myndi snarfækka. Mismikið eftir leikskólum auðvitað en það er t.d. augljóst að á Akureyri þar sem hlutfall félaga leikskólakennara er á flestum leikskólum yfir 80% mun ekki vera hægt að taka á móti mörgum börnum. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið almennt ekki jafn hátt og á Akureyri en það mun samt sem áður engan vegin verða hægt að taka á móti nema hluta af börnum hvers leikskóla á hverjum degi. Fyrir svo utan þá staðreynd að ekki verður heldur hægt að halda áfram að aðlaga þann risastóra hóp af börnum sem nú eru að fara að byrja í leikskóla. Árgangurinn sem nú er að byrja í leikskóla, 2010 börnin, er einn sá stærsti í sögu þjóðarinnar.

Ef SÍS fengi sitt fram yrðu þeir starfsmenn inni á deildum leikskóla sem ekki eru í FL (fyrst og fremst leiðbeinendur en líka t.d. aðstoðarleikskólastjórar) undir gríðarlegu álagi. Upp til hópa er þarna um að ræða hæft og gott leikskólafólk en þær aðstæður sem þeim yrði boðið upp á væru slítandi og erfiðar. Ekki síst af því að með þessu útspili sínu er SÍS í raun að stilla þeim upp gagnvart leikskólakennurum, fólki sem vinnur við hlið þeirra á hverjum degi. Þeir eru orðnir að peðum í refskák SÍS. Þetta er lúaleg taktík.

En auðvitað áttum við leikskólakennarar að búast við þessu. Það bendir allt til þess að af verkfalli verði og nú ætla pólitíkusarnir í SÍS að reyna að snúa almenningsálitinu gegn okkur. Það gera þeir með því að reyna að láta líta út fyrir að löglegt sé að samstarfsfólk okkar sem ekki er í FL gangi í okkar störf en að við viljum koma í veg fyrir þetta. Þannig reyna þeir að gera okkur ábyrg fyrir vandræðunum sem verkfallið mun skapa fyrir fjölskyldurnar. Það gera þeir með því að segja kröfur okkar óraunhæfar og að við séum frek, þó að við séum í raun bara að biðja um leiðréttingu vegna þess að öfugt við viðmiðunarstéttir þá frusum við inni með samning sem rann út 2008. Það gera þeir með því að reyna að rugla umræðuna með leikfimisæfingum með tölur.

Við getum búist við fleiri ögrunum. Við getum búist við ústpilum sem eiga að reita okkur til reiði og fá okkur til að gera eða segja eitthvað sem gæti snúið almenningsálitinu gegn okkur. Við getum búist við því að þeir mæti á fundi með báðar hendur tómar en fullyrði svo að það sé ekki hægt að tala við okkur vegna óbilgirni okkar.  Við getum búist við því að þeir reyni að svæla okkur út með því að láta verkfallið dragast á langinn. Og við getum búist við því að þeir fari að biðla til löggjafans um að setja á okkur lög þegar líður á verkfall.

En munum þetta: þeir eru pólitíkusar. Þeir munu aldrei þurfa að bera neina ábyrgð á sinni taktík. Við þurfum að standa á okkar gagnvart samstarfsfólki okkar, foreldrum og börnum. Við skulum halda okkar einföldu og eðlilegu kröfum á lofti og svara því sem svara þarf yfirvegað og með rökum. Leyfum pólitíkusunum að spinna á rokkunum sínum.

Tröllafossar

Um daginn fór ég í smá ferðalag um vesturland. Ég var fyrst og fremst í Húsafelli og nánast nágreni og tók fullt af myndum sem ég er svona smátt og smátt að vinna og henda inn á netið. Hér eru nokkrar úr fyrsta skammti sem er af Tröllafossi en restin af myndunum þaðan er hérna.

Af hverju er ég á leiðinni í verkfall?

Ég skil þetta í alvörunni ekki.

Ég útskrifaðist sem leikskólakennari í vor. Ég er nýorðinn deildarstjóri og er að fara að taka á móti börnum í aðlögun í fyrsta skipti. En ég er einhvern veginn í lausu lofti af því að flest bendir til þess núna að þann 22. ágúst, eftir minna en tvær vikur, leggi ég niður störf í ótilgreindan tíma.

Ef að kröfur okkar leikskólakennara væru ósanngjarnar eða óeðlilegar þá gæti ég skilið það hvernig Samninganefnd Sveitarfélaganna (SS…öhh nei ok, SNS frekar) hefur dregið fæturnar í umræðunum. Þá gæti ég skilið það af hverju það er verið að hrekja stéttina í verkfall. En kröfurnar eru einfaldlega mjög eðlilegar og fullkomlega sanngjarnar.

Kristín Dýrfjörð útskýrir hér vel hver staðan er (önnur fín grein eftir Kristínu er hér). Leikskólakennarar brunnu í raun inni með sinn samning og eru því tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttinni grunnskólakennurum. Það sem stendur umfram í kröfum leikskólakennara sé miðað við aðra samninga sem gerðir hafa verið nýlega er auka 11% hækkun. Áfacebook-síðu Félags Leikskólakennara voru þessi skilaboð sett fram í kvöld (ég geri ráð fyrir að Haraldur F. Gíslason, formaður félagsins hafi sett þau inn):

Einföld krafa
Deilan snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að við drógumst aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% tölu í samhengi þá er hún ca. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatt og launatengd gjöld. Það er varla ein ferð í Bónus.

Þetta er svo einfalt og sanngjarnt. Þess vegna skil ég ekki af hverju SNS, sem á endanum gerir það sem sveitarfélögin segir henni að gera, er að hrekja leikskólakennara í verkfall.

Það flugu apar út úr rassinum á mér…

…og bættust þeir í hóp fljúgandi svína sem voru í oddaflugi yfir Reykjarvíkurtjörn.

Eða það er allavega ekki ólíklegra en það að Jón Magnússon hafi verið að kvarta yfir fordómum í garð manna af sinni þjóðfélagsstöðu og bera sig saman við gyðinga á fyrri hluta seinustu aldar. Jón Magnússon. Æi þið vitið, hæstarréttarlögmaðurinn sem sat á þingi. Bara alveg eins og „júðarnir“ (hans orðalag). Ofsóttur, hrakinn, landlaus, úrhrak samfélagsins, í sífelldum ótta um líf sitt og limi svo ekki sé talað um annara af sínu kyni.

Þessi þarna sem skrifaði greinina Ísland fyrir Íslendinga? þar sem hann setti þennan stórkostlega fyrirvara:

Enginn má engin skilja orð mín svo að ég sé á móti Pólverjum eða öðru kristnu fólki úr okkar heimshluta.

Nei, Jón hefur sko enga fordóma gagnvart heiðvirðu kristnu fólki.

Hann sjálfur skilur nefnilega vel hvernig það er að verða fyrir fordómum.

Er þetta fílahjörð þarna við hliðina á demantanámunni?

Beðið eftir KSÍ

Er einhver ennþá á þeirri skoðun að Ólafur Jóhannesson sé hæfur til þess að gegna stöðu landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta? Er ekki komið nóg? Ég nenni ekki að fara yfir árangur liðsins undir stjórn Ólafs eða afneitunina sem hann sjálfur virðist lifa við sem birtist m.a. í fáránlegum viðbrögðum við spurningum blaðamanna.

Nú eru þrír leikir eftir í undankeppni fyrir EM 2012 og allir vita að Ólafur verður ekki þjálfari liðsins í undankeppni fyrir HM 2014 sem hefst haustið eftir úrslitakeppni Evrópumótsins. Flestir búast við að KSÍ láti samning sinn við Ólaf renna út sem þýðir að nýr stjóri mun í mesta lagi fá einn vináttuleik áður en hann stýrir því í sínum fyrsta keppnisleik. Næsti þjálfari landsliðins mun ennfremur stjórna liðinu á meðan kynslóðaskiptin sem blasa við, þegar kjarninn úr U-21 liðinu sigursæla leysir af eldri leikmenn sem í mörgum tilfellum eru nú þegar heilum klassa lakari en ungviðið. Það skiptir þess vegna miklu máli að fær þjálfari veljist til verksins og að hann fái þann stuðning frá KSÍ sem hann þarf.

Árangur íslenska liðsins undir stjórn Ólafs í undankeppni EM er engin og lagast varla úr þessu. Af hverju – í ósköpunum! – er maðurinn ekki látinn fara? Af hverju ekki að gefa nýjum manni tækifæri til þess að prófa sig áfram með liðið þessa þrjá leiki sem eftir eru af undankeppninni? Heldur einhver í alvörunni að það gæti komið verr út en að leyfa núverandi þjálfara, sem virðist ekki hafa hugmynd um hverjir eru 11 bestu leikmenn liðsins né hvað hann vill eiginlega að þeir geri á vellinum hverju sinni, að klára mótið?

Páll Óskar, fordómarnir og íslenska umræðuhefðin

Af einhverjum ástæðum hefur orðið einhver umræða um orð sem Páll Óskar Hjálmtýsson lét falla í viðtali við RÚV í gær. Ég fatta það ekki alveg og held að hún hljóti að byggja á annað hvort misskilningi eða ofurviðkvæmni. Skoðum hvað það var sem Palli sagði sem fer svona fyrir brjóstið á fólki:

Mér finnst gay-pride hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.

Þetta er auðvitað mjög gild skoðun enda held ég að flestir taki undir þetta. Allavega snýst umræðan ekki um þessi orð, eins og hún ætti nú kannski frekar að gera.

Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi, það er hvítur straight karlmaður í jakkafötum hægri sinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar, helvítis þið, blíh, blah!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum

Það er þetta sem ég feitletra sem fólk virðist vera viðkvæmt fyrir. Og ég skil ekki af hverju.

Ég held reyndar að það sé rangt hjá Palla að hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir karlmenn verði aldrei fyrir fordómum*. En ég skil líka að þegar um er að ræða einhvern mesta forréttindahóp seinni alda þá hneigist margir til að láta einhverja gremju bitna á þeim (eða tja, okkur, ég uppfylli allar þessar kröfur nema kristnina) og til þess að flokka kvartanir hópsins sem hálfgert væl, einmitt vegna þessara forréttinda.

En að Palli hafi verið að dreifa einhverjum fordómum sjálfur, eða að segja að það væri í lagi að níða þennan hóp er algjör þvæla. Það gerir hann hvergi. Hann bendir á að innan þessa hóps finnist fordómafullir menn. Er það rangt? Vantar ykkur dæmi? Eigum við að reyna að finna hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann lýsa fordómum? Eigum við að þrengja leitina enn frekar og einskorða okkur bara við ummæli sem féllu í tengslum við Gay Pride? Lítið mál:

Mér finnst þetta hörmung. Ég verð að segja það eins og er. Að standa í kynlífsögrandi stellingum uppi á einhverjum vögnum. Frelsið er sjálfsagt en nú orðið eiga þeir sem hafa klassískar biblíulegar skoðanir verulegar undir högg að sækja. Baráttan hefur snúist við. #

Hér erum við með hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann sem þolir ekki einu sinni að vera í sama þéttbýliskjarna og Gleðigangan er haldin.

En neinei, við skulum ekki ræða þá fordóma sem raunverulega eru til staðar neitt. Við skulum frekar of- og rangtúlka fullkomlega réttmætar ábendingar Páls Óskars og röfla soldið um þær. Það er meira í takt við íslenska umræðuhefð.

*-bætt við 7.8. kl. 17:40: Mér hefur verið bent á að Palli fullyrðir auðvitað ekki að þessi hópur verði aldrei fyrir fordómum heldur segir að „það sé engu líkara en að“ svo sé. Rétt skal vera rétt.